20.12.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

1. mál, fjárlög 1987

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þannig stendur á að Alþingi er nauðsyn að auka húsakost sinn og bæta almenna starfsaðstöðu sína. Og eins og nú horfir er aðeins um tvær leiðir að ræða til lausnar í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi er það að flytja starfsemina burt úr miðbæ Reykjavíkur, leggja núverandi þinghús niður sem aðsetur Alþingis og reisa Alþingishús á nýjum stað þar sem rýmra yrði um þingið og starfsemi þess. Núverandi þinghús mætti þá sem best nýta sem dómhús Hæstaréttar. Þessari hugmynd hefur verið hafnað.

Hin leiðin er sú að hafa heimkynni Alþingis áfram í núverandi þinghúsi, þ.e. að þingstaður Alþingis skuli vera áfram í miðborg Reykjavíkur. Alþingi hefur ótvírætt ákveðið að svo skuli vera. Af því leiðir að Alþingi er neytt til þess að byggja skrifstofuhús á lóðum sínum í grennd við Alþingishúsið. Það eitt er rökrétt framhald af ákvörðun Alþingis frá 1981 um að Alþingi skuli vera áfram í miðborg Reykjavíkur. Allt annað er rökleysa.

Í þessu máli er þriðja leiðin ekki til eins og atvikakeðjan ber með sér.

Ég var þeirrar skoðunar á sinni tíð að Alþingi ætti að flytja úr miðborg Reykjavíkur og koma húsi yfir starfsemi sína annars staðar. Sú skoðun hafði ekki og hefur ekki haft nægan hljómgrunn. Þar sem þriðja leiðin er ekki til í þessu máli hlýt ég að segja já við þessari tillögu.

Þau grófu ummæli sem sumir hv. þm. hafa látið falla um verðlaunateikningu Sigurðar Einarssonar arkitekts leiði ég hjá mér að ræða nú, en lýsi þó yfir furðu minni á sumu því sem um það hefur verið sagt. Ég segi já.