20.12.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

1. mál, fjárlög 1987

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég skil ekki þessa till. svo að með samþykkt hennar sé verið að leggja blessun yfir þá tillögu sem hér vann til 1. verðlauna í hugmyndasamkeppni um nýtt húsnæði fyrir Alþingi, enda kom mjög skýrt fram í umræðum í nótt að tilgangur till. væri ekki sá eftir því sem tillögumenn upplýstu þingheim um. Ég skil þessa till. hins vegar svo að hér sé verið að stíga mikilvægt skref í þá átt að leysa húsnæðisvanda Alþingis, sem er mjög brýnt mál, og ég held að alþm. eigi ekki að vera feimnir við að halda uppi virðingu Alþingis með þeim hætti og þess vegna segi ég já.