22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

52. mál, umferðarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þm. sem rætt hafa þetta frv. á eftir frummælanda og hv. flm. Það er dálítið sérkennilegt að brtt. um þetta tiltekna atriði skuli vera flutt nú þegar það hlýtur að vera á vitorði hv. flm.stjfrv. er á leiðinni inn í þingið. Ég er ekki að gera lítið úr þýðingu þess að færa ákveðin efnisatriði til betri vegar í málum. Kannske er það ástæðan hjá hv. flm. að koma með þetta sérstaklega að leggja á það þeim mun meiri áherslu og kannske liggur líka að baki uggur um að Alþingi auðnist ekki á þessu þingi að afgreiða stjfrv. til umferðarlaga sem lög. En hvað sem því líður hlýtur þetta atriði um hámarksökuhraða að verða tekið til meðferðar í sambandi við væntanlegt stjfrv. og þingið taki afstöðu til þess í samhengi við ýmsa aðra þætti sem þar er lagt til að breytt verði frá gildandi löggjöf.

Ég get efnislega í rauninni tekið undir rökstuðning sem er að baki frv. sem hér er til umræðu. Ég vil að vísu ekki binda mig hvað afstöðu snertir nákvæmlega um hámarksökuhraða, það er vissulega álitamál, en ég er á því að það þurfi breytinga frá gildandi lögum um þetta ákvæði. Hv. flm. þekkir það, eins og hér hefur nú verið nefnt af hv. 7. landsk. þm., að aðstæður eru misjafnar á langleiðum og það er oft þörf fyrir marga, ekkí aðeins þm., að spretta úr spori og auðvitað vilja menn ekki vera að brjóta lög að ásfæðulausu. Það eru þessar aðstæður sem gera það að mínu mati eðlilegt að gera hámarksökuhraðann sveigjanlegri en heimildir eru fyrir í gildandi lögum. En um það munum við fjalla þegar væntanlegt stjfrv. kemur fram.

Ég tel mig reyndar hafa um það vitneskju að í nefndinni, sem hæstv. ráðh. skipaði, hafi þessi mál verið einmitt til umræðu og þess sé að vænta að breyting í þá átt, sem hér er flutt till. um, komi fram í þessu stjfrv. án þess að ég vilji nokkuð um það fullyrða. En mér er kunnugt um að þetta mál var þar til meðferðar, hámarksökuhraðinn. Við fáum þá að sjá hvort það ber svo mikið á milli þegar þetta frv. kemur hér fram í þinginu, hvort sem það verður í efri eða neðri deild.