22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

52. mál, umferðarlög

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er alveg laukrétt, sem hér hefur komið fram og verið bent á af ýmsum ræðumönnum, að hér er tekið út úr eitt atriði úr umferðarlögum og lagðar til breytingar á því.

Fyrrv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson, hv. 1. þm. Vesturl., gat þess að hann hefði skipað nefnd árið 1980 sem starfaði til 1983, skilaði frv. sem hefur verið til meðferðar á tveimur undanförnum löggjafarþingum og meira að segja í endurskoðun í sumar. Nú veit ég að allir hafa lagt þarna vel hönd á plóginn, en þetta finnst mér vera seinleg fæðing. Það er ekki séð fyrir á þessari stundu hvenær þetta frv. verður að lögum. Það er ekki trygging fyrir því að heildarlagasetning um umferðarmál nái fram að ganga á þessu þingi. Þess vegna kaus ég að leggja þetta frv. fram, taka þetta einstaka atriði út úr, því að mér þykir mjög brýnt að breyta því. Jafnframt er ég ekki samþykkur þeim ákvæðum sem voru í frv. í vor og eftir þeim upplýsingum sem ég hef seinast frá nefndinni sem starfaði í sumar voru ekki lagðar til breytingar á þeirri grein. Þar er lagt til að haldið verði í 70 km hámarkshraða á malarvegum, en ég held að þau hraðamörk séu óþarflega neðarlega.

Það eru fjölmörg álitaatriði í umferðarlögum og öllum finnst þeir hafa mikið vit á umferðarmálum. Þau koma okkur öllum við. Það eru endalaus álitamál sem koma upp og skoðanir skiptar um fjölmörg atriði, t.d. skráningu ökutækja og fleira og fleira sem getur orðið mönnum að ágreiningsefni.

Ég upplýsi hv. 7. landsk. þm. um að ég hef ekki orðið fyrir verulegum útlátum af sektum fyrir of hraðan akstur. Ég hef einu sinni verið sektaður fyrir of hraðan akstur. Þá var ég á 83 km hraða. Ég var þá að vísu á vegi þar sem átti ekki að vera á 83 km hraða og borgaði réttláta sekt fyrir brot mitt. Hins vegar hef ég orðið var við að lögin eru ekki virt og ég hef líka orðið var við að löggæslumenn treysta sér ekki til að framfylgja þessum úreltu ákvæðum út í æsar. Ég held að þess vegna ættum við ekki að halda í þessi ákvæði. Ég held að við eigum að taka þau út úr strax og breyta þeim. Síðan getum við haldið áfram að endurbæta önnur ákvæði umferðarlaga, t.d. eins og ökuljós, bílbelti o.fl. En ég sé ekki að þetta þurfi í neinu að tefja. Það greiðir beinlínis fyrir þeirri heildarlagasetningu, sem allir óska eftir, um umferðarmál.