20.12.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

1. mál, fjárlög 1987

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggja fyrir tillögur að sölu á tveimur jörðum. Sú fyrri hefur verið samþykkt og þar hlýtur salan að verða til ábúenda vegna þess að þeir hafa forkaupsrétt. Verði samþykkt sala á seinni jörðinni hefur sú stóra breyting orðið á frá því í fyrra að nú hefur sveitarstjórnin forkaupsréttinn. Þá var búið að leita eftir því að hún afsalaði sér forkaupsréttinum gagnvart einum aðila án þess að nokkrir aðrir hefðu möguleika á að leita eftir því áður við sveitarstjórnina hvort þeir hefðu áhuga á að kaupa jörðina. Ég tel ekki rétt að streitast meir við í þessu máli, en treysti sveitarstjórninni á viðkomandi stað til að taka þá ákvörðun sem hún telur rétta og segi því já.