22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

53. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um endurmat á störfum láglaunahópa. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur Bjarnason og Pétur Sigurðsson. Eins og heyra má flytja þetta frv. um endurmat á störfum láglaunahópanna þm. úr öllum flokkum.

Markmið þessa frv. er að fá fram hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu.

Það verður að gera ráð fyrir að hv. þm. þessarar deildar þekki nokkuð til þessa frv. og því sé í sjálfu sér óþarfi að hafa langa framsöguræðu fyrir því. Þetta frv. er nú borið fram í fjórða sinn, en það var í fyrsta sinn lagt fram á 106. löggjafarþingi 1983. Ég tel það ekki ofsagt að með hverju árinu sem líður verður sífellt meira knýjandi að fá fram það endurmat á störfum láglaunahópanna sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég held að allir hljóti að viðurkenna að þó að í hverjum kjarasamningi á fætur öðrum á undanförnum árum hafi staðið upp úr hverjum manni að nauðsynlegt væri að bæta sérstaklega kjör láglaunahópanna er staðreyndin sú að það hefur ekki tekist. Þvert á móti er staðreyndin sú að á láglaunahópana í þjóðfélaginu hafa verið lagðar þyngstu byrðarnar vegna efnahagsaðgerða og kjaraskerðingar sem launþegar hafa þurft að sæta. Skýringin er einfaldlega sú að þeir betur settu hafa iðulega fengið bætta upp kjaraskerðinguna með persónubundnum yfirborgunum meðan láglaunahóparnir hafa þurft að sætta sig við kauptaxtana og þá prósentuhækkun sem um er samið við kjarasamningaborðið.

Engu að síður, herra forseti, þó þetta frv. hafi ekki verið samþykkt og þó störf láglaunahópanna hafi ekki verið endurmetin, tel ég að við flm. þessa frv. höfum náð nokkrum árangri sem vona verður að eigi eftir að skila sér til láglaunahópanna.

Á Alþingi 1978, þegar ég ásamt nokkrum öðrum þm. Alþfl. flutti till. til þál. um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum, var meginforsendan fyrir flutningi þeirrar till. einmitt sú að kjaramálin væru komin í hreinar ógöngur, ekki síst vegna þess að atvinnurekendur höfðu lengi komist upp með að ráða einhliða stórum hluta af tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Við kjarasamningaborðið var samið um hungurtaxtana fyrir láglaunafólkið. Að þeim loknum sömdu síðan atvinnurekendur við þá betur settu á vinnumarkaðnum um persónubundnar yfirborganir, fríðindi og duldar greiðslur.

Þó einkennilegt megi virðast hafði verkalýðshreyfingin á þeim árum að mestu látið þessa þróun fram hjá sér fara og krafan, sem nú er uppi af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, um að færa kauptaxtana að raunverulega greiddum launum á vinnumarkaðnum heyrðist þá varla nefnd. Hér er þó um að ræða eina meginskýringuna á því óréttlæti sem þróast hefur í tekjuskiptingu og launakjörum á undanförnum árum. Á þessa staðreynd hef ég ár eftir ár bent, allt frá 1978, hér á hv. Alþingi.

Ég fagna því að verkalýðshreyfingin er nú að taka undir þessi sjónarmið, taka undir að forsenda þess að hægt sé að bæta kjör láglaunahópanna er að fá upp á borðið skýra mynd af raunverulega greiddum launum á vinnumarkaðnum, fá upp á borðið það sem raunverulega er greitt í þjóðfélaginu. Fylgi verkalýðshreyfingin því fast eftir og myndi um það breiða samstöðu að hún muni aldrei sætta sig við að atvinnurekendur ráði einhliða svo stórum hluta tekjuskiptingarinnar í þjóðfélaginu eins og gerst hefur á undanförnum árum er ég sannfærð um að fyrsta raunhæfa skrefið hefur verið stigið til að bæta sérstaklega kjör láglaunahópanna.

Sífelldur barlómur atvinnurekenda um að ekki sé hægt að hækka kauptaxtana er hrein markleysa þegar til þess ér litið að launaskrið hefur orðið um 20% að meðaltali frá 1983. Það sýnir einfaldlega að meira er til skiptanna. Atvinnurekendur vilja bara fá að ráðskast með það eftir eigin geðþótta. Það segir okkur að í kjarasamningum er aðeins tekin ákvörðun um hluta þess sem til skiptanna er. Stór hluti tekjuskiptingarinnar er ákvarðaður einhliða af atvinnurekendum með þeim afleiðingum að láglaunahóparnir sitja eftir.

Þessi þróun á tilhögun á kjaramálum hefur síðan í för með sér að veikja samstöðu launafólks og verkalýðshreyfingarinnar. Vegna hvers er það? Það er vegna þess að þeir sem hafa aðstöðu til að semja um sín kjör sjálfir við atvinnurekendur hafa lítilla hagsmuna að gæta í almennum kjarasamningum þar sem deilt er um örfá prósentustig á hungurtaxta láglaunafólksins. Hagsmunir þeirra betur settu liggja í einhliða samningum beint við atvinnurekendur um yfirborganir, duldar greiðslur og fríðindi. Hörð kjarabarátta færir þeim lítið í aðra hönd. Þeir eiga orðið ekki samleið með láglaunafólkinu á hungurtöxtunum.

Því er niðurstaða mín sú að atvinnurekendum hefur vegna þessarar þróunar tekist að sundra verkalýðshreyfingunni og veikja samstöðu og baráttukraft launafólks, að ná fram einhliða ákvörðunarvaldi yfir stórum hluta tekjuskiptingarinnar í þjóðfélaginu, að viðhalda og auka á launamisrétti kynjanna þar sem yfirborganir og fríðindi renna í miklu meira mæli til karla en kvenna, að halda niðri launum hjá verkafólki og í hefðbundnum kvennastarfsgreinum.

Ég tel, herra forseti, að það sé margt sem bendi til þess að verkalýðshreyfingin sé að taka undir þau sjónarmið sem liggja að baki tillöguflutningi hér á Alþingi 1978 um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum og því frv. sem ég mæli fyrir í fjórða sinn um endurmat á láglaunastörfunum. Því ber að fagna. Ég vil í því sambandi vitna í ummæli forseta ASÍ í Þjóðviljanum í dag. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Verkalýðshreyfingin ber ábyrgð á kauptöxtunum sem atvinnurekendur hver fyrir sig hafa gert ómerka með persónubundnum yfirborgunum.“

Og enn fremur segir forseti ASÍ, með leyfi forseta:

„Verkalýðshreyfingin ber ábyrgð á 19 000 kr. mánaðarkaupi, kaupi sem ekki nægir til mannsæmandi framfærslu.“

Ég tel Ásmund Stefánsson, forseta ASÍ, mann að meiri fyrir að viðurkenna ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli og í raun að viðurkenna að verkalýðshreyfingin hafi setið of aðgerðarlaus hjá við þá þróun sem orðið hefur í kjaramálunum á undanförnum árum, þ.e. einhliða ákvörðunarvald atvinnurekenda yfir stórum hluta tekjuskiptingarinnar.

En það eru fleiri sem bera ábyrgð. Atvinnurekendur eiga líka að viðurkenna ábyrgð sína. Þeirra hlutur er stór í því að láglaunahóparnir þurfa að búa við kjör sem eru þjóðarskömm. Ábyrgðin er líka stjórnvalda og ábyrgðin er líka okkar hér á Alþingi. Hvað eftir annað hafa kjör launafólks verið skert með lagaboði hér á Alþingi, líka kjör láglaunahópanna. Alþingi getur lagt fram stóran skerf til þess að leggja grunn að bættum kjörum láglaunahópanna með því að samþykkja það frv. sem ég hér mæli fyrir.

Með þessu frv. er hvorki verið að gefa fyrirskipanir um launahlutfall á vinnumarkaðinum, ákveða launakjör eða grípa inn í kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins eins og t.d. atvinnurekendur hafa látið í veðri vaka. Hér er fyrst og fremst verið að auðvelda aðilum vinnumarkaðarins upplýsingaöflun og grisja þann frumskóg sem kjaramálin eru komin í. Niðurstaða þessa endurmats, sem hér er lagt til, og þeirrar úttektar sem þetta frv. gerir ráð fyrir gæti einfaldlega orðið grundvöllur þess að láglaunahóparnir fengju réttlátt mat og sanngjörn laun fyrir sín störf.

Í þessu frv. er verið að fjalla um láglaunahópana sem heild. Ég vek athygli á þessu þar sem fyrir liggur þáltill. frá þm. Kvennalistans um að endurmeta störf kvenna á vinnumarkaðinum. Vissulega eru konur á vinnumarkaðinum stór hluti láglaunahópsins. En ég tel það ekki rétta leið sem Kvennalistinn vill fara að einskorða sig við endurmat á kvennastörfum eingöngu. Ég held að það sé ekki launabaráttu kvenna til framdráttar að aðskilja láglaunastörf sem karlar vinna frá því endurmati sem nauðsynlegt er að fá fram á öllum láglaunastörfunum í landinu. Ef jafnréttisbaráttan á að skila raunverulegum árangri þá er nauðsynlegt að skoða jafnréttisbaráttuna í víðu samhengi, einnig út frá sjónarhóli karla í láglaunastörfunum sem launamisrétti eru beittir. Í því sambandi væri hægt að benda á fleiri dæmi þar sem a.m.k. í sumum tilfellum karlmenn standa ekki jafnfætis konum og að á hlut þeirra er hallað og væri hægt að benda á ákvæði bæði í almannatryggingalögunum og í barnalögunum í því sambandi.

Ég tel ekki, herra forseti, nauðsynlegt að fara út í einstakar greinar í þessu frv. Þetta frv. hefur ítarlega verið kynnt á undanförnum árum hér í sölum Alþingis. Þó þetta frv., eins og ég áður sagði, taki til allra láglaunahópanna, þá er í 3. gr. sérstaklega tekið á störfum í hefðbundnum kvennastarfsgreinum. Nefni ég þar sérstaklega til c-lið 3. gr., en þar segir, með leyfi forseta, að m.a. sé verkefni láglaunanefndar, sem á að stofna skv. ákvæðum þessa frv., að „gera könnun á því og meta hvort, og þá hvers vegna, láglaunastörf, ekki síst hefðbundin kvennastörf, séu metin óeðlilega lágt til launa miðað við önnur sambærileg störf á vinnumarkaðinum. Samanburður skal annars vegar gerður á störfum faglærðra láglaunahópa og hins vegar ófaglærðra.

Við mat á láglaunastörfum skal sérstaklega athugað hvort starfsreynsla við heimilisstörf sé eðlilega metin við röðun í launaflokka þegar um skyld störf á vinnumarkaðinum er að ræða, svo sem ýmis störf er snerta umönnun, uppeldismál, matargerð, þvotta, ræstingu, þjónustu, fatasaum o.þ.h.

Leggja skal til grundvallar í starfsmati þætti eins og ábyrgð á mannlegum sem efnislegum verðmætum, vinnuálag, áhættu, menntun, starfsþjálfun, starfsreynslu, hæfni, óþrifnað, erfiði og aðra þætti sem áhrif hafa á kaup og kjör.“

Ég held að nauðsynlegt sé að stjórnvöld og þm. átti sig vel á því hvað raunverulega er að ske í kvennastarfsgreinunum. Þar er brostinn á flótti og gífurlegur skortur á fólki í mörgum hefðbundnum kvennastarfsgreinum. Við þekkjum það hvernig á síðustu árum hefur orðið að loka sjúkrastofnunum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og á dagvistunarstofnanir vantar starfsfólk. Eðlilegri kennslu er erfitt að halda uppi í grunnskólum landsins vegna skorts á kennurum. Nú hafa sjúkraliðar sagt upp störfum og fóstrur boða einnig hópuppsagnir. Ég tel að þetta vandamál sé svo alvarlegt að það sé ekki spurning hvort aðrar hefðbundnar kvennastarfsgreinar fylgi í kjölfarið heldur hvaða starfsgreinar það muni vera.

Ég tel, herra forseti, að þar sem fyrir liggur að sjúkraliðar hafa boðað til fjöldauppsagna og fóstrur einnig, þá hefði verið nauðsynlegt í umræðum um þetta mál að fá fram hjá hæstv. heilbrrh. og hæstv. menntmrh. hvað þessir ráðherrar, sem þessi mál heyra undir sem snerta sjúkraliða og fóstrur, hvað þeir hyggist gera, hver þeirra viðbrögð verða við þeim fjöldauppsögnum sem nú blasa við. Mér skilst að hæstv. heilbrmrh. sé ekki hér í húsinu, en ég spyr: Væri hægt að kalla til hæstv. menntmrh.? (Forseti: Það verður gerður reki að því.)

Við erum hér að fjalla um frv. til l. um endurmat á störfum láglaunahópanna. Þetta er í fjórða skiptið sem ég mæli fyrir þessu frv. á hv. Alþingi. Í tengslum við þetta frv. nú taldi ég nauðsynlegt að beina ákveðnum spurningum til hæstv. heilbrrh. sem að vísu er ekki við hér í húsinu, en ég þarf líka að beina spurningum til hæstv. menntmrh.

Áður en hæstv. ráðherra gekk í salinn ræddi ég um þann flótta sem nú er brostinn á í kvennastarfsgreinum vegna lágra launa. Boðaðar hafa verið fjöldauppsagnir hjá sjúkraliðum sem taka eiga gildi um næstu áramót, ef ég man rétt, og fjöldauppsagnir hafa einnig verið boðaðar hjá fóstrum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt frá ríkisstjórninni eða einstökum ráðherrum eins og heilbrmrh. og menntmrh. hver viðbrögð þeirra verða við þeim alvarlegu tíðindum að flótti er brostinn á í þessum stéttum. Ég tel að hér sé svo alvarlegt mál á ferðinni að taka þurfi þetta mál sérstaklega upp og fjalla um það í ríkisstjórninni. Ég tel ekki spurningu um það að það séu bara þessar tvær stéttir sem muni boða til fjöldauppsagna, heldur muni fylgja í kjölfarið fleiri kvennastéttir vegna þessara lágu launa. Og ég er viss um það að hæstv. menntmrh. sem og aðrir ráðherrar hljóti að gera sér grein fyrir afleiðingum þess fyrir atvinnulífið ef svo heldur fram sem horfir í þessu efni. Þess vegna beini ég í tengslum við þetta frv. þeirri spurningu til menntmrh.: Hefur þetta mál verið rætt í ríkisstjórninni, þ.e. flóttinn úr hefðbundnum kvennastarfsgreinum? Og hvað hyggst hæstv. menntmrh. gera sérstaklega, hver verða hans viðbrögð við þeim fjöldauppsögnum sem boðaðar hafa verið í fóstrustétt?

Það sem býr að baki þessum fjöldauppsögnum er að konur hafa fengið nóg og þær ætla ekki lengur að láta bjóða sér að vinnuafl þeirra sé keypt ódýru verði í þjóðfélaginu. Þegar við sultarlaunin bætist svo það að hvert sem litið er í þjóðfélaginu blasir við misrétti í eigna- og tekjuskiptingunni, þá er höggvið svo nærri sjálfsvirðingu láglaunahópanna að þeir neita að selja vinnuframlag sitt ódýru verði. Láglaunahóparnir trúa ekki lengur á síendurtekna klisju um að nú eigi sérstaklega að bæta kjör þeirra og því er einfaldlega gripið til fjöldauppsagna. Og það dugar auðvitað ekki að ráðamenn láti eins og ekkert sé því að fjöldauppsagnir kvenna munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allt atvinnulífið. Fjöldauppsagnir kvenna í fóstrustétt einni saman gætu fært allt atvinnulíf landsmanna úr skorðum. Fjöldauppsagnir kvenna í frystihúsum leiddu til stöðvunar á framleiðslu okkar helstu útflutningsvöru, sjávarafurðum, og lamaði auk þess atvinnulíf í heilum byggðarlögum úti á landi. Fjöldauppsagnir hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða leiddu til neyðarástands í heilbrigðisþjónustunni. Grunnskólar landsins þyrftu að loka gripu konur í kennarastétt til fjöldauppsagna

og þannig mætti áfram telja.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að vekja sérstaklega athygli á þessu nú þegar ég mæli í fjórða sinn fyrir þessu frv. um endurmat á störfum láglaunahópanna. Kannske sýnir flóttinn úr kvennastarfsgreinum okkur best hvað brýnt er orðið að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að endurmat fari fram á störfum láglaunahópanna.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. menntmrh. um leið og ég óska eftir að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. félmn.