20.12.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

1. mál, fjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þau fjárlög sem nú er verið að afgreiða og þegar afgreidd lánsfjárlög gera ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með nær 3 milljarða kr. halla árið 1987 og þjóðarbúið í heild taki á næsta ári erlend löng lán að upphæð 8,2 milljarða kr. Ný lán verða þá nærfellt 2 milljörðum kr. hærri en afborganir eldri lána. Þetta er geigvænleg þróun í mesta góðæri sem íslenska þjóðin hefur lifað og um leið eru svikin þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf verkalýðshreyfingunni um að binda endi á hallarekstur þjóðarbúsins á næsta ári. Brtt. Alþfl. við fjárlög og lánsfjárlög hafa verið felldar. Þessar brtt. miðuðu að hjaðnandi verðbólgu og því að ná jafnvægi og treysta undirstöðu nýgerðra kjarasamninga. Tillögur verkalýðshreyfingarinnar og Alþfl. byggðu á sömu forsendum. Við teljum að hér sé um hættulega þróun að ræða og ríkisstjórnin hafi í raun misst öll tök á ríkisfjármálum og þróun efnahagsmála. Þess vegna greiða þm. Alþfl., andstætt venju stjórnarandstöðunnar að sitja hjá við lokaafgreiðslu fjárlaga, atkvæði gegn samþykkt fjárlagafrv., en lýsa sig jafnframt reiðubúna til að standa að afgreiðslu nauðsynlegra greiðsluheimilda og annarra heimilda svo ríkissjóður geti starfað svo eðlilega sem unnt er uns ný og endurskoðuð og skynsamlegri fjárlög hafa verið samþykkt. Ég segi nei.