13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stöðvun verkfalls á fiskiskipum og verkfalls félagsmanna í Sjómannafélagi Reykjavíkur á farskipum. Ríkisstjórnin ákvað að kveðja þing saman fyrr en ráð var fyrir gert til þess að Alþingi mætti fjalla um þetta mál. Fyrir því lágu ýmsar ástæður. Fyrr hafa slíkar deilur verið leystar með bráðabirgðalögum sem ríkisstjórnin kaus ekki að gera nú.

Í fyrsta lagi er að nefna að skammt er þar til þing átti að koma saman, 19. þ.m. Í öðru lagi eru forsendur fyrir flutningi þessa frv. ekki út af fyrir sig kjaradeilan sjálf eða að hún hafi staðið lengi, heldur það mjög alvarlega ástand sem ríkisstjórnin telur að skapast hafi á erlendum mörkuðum. Með því að kveðja þing saman fá auk þess deiluaðilar tækifæri til þess að gera grein fyrir sínum málum í þingnefnd og sömuleiðis þingnefndir tækifæri til að ganga úr skugga um að þær forsendur, sem ég nefndi og mun rekja nánar hér á eftir, séu réttar.

Um síðustu áramót hófst verkfall sjómanna á fiskiskipaflotanum. Jafnframt hefur Sjómannafélag Reykjavíkur beitt ótímabundinni vinnustöðvun fyrir félagsmenn sína á farskipum frá 6. janúar s.l. Deiluaðilar hafa setið að samningum síðan og hafa samningsfundir í deilu fiskimanna verið langir og miklir, en að mati ríkissáttasemjara hefur slitnað upp úr þeim og gerðist það aðfaranótt mánudagsins 12. þessa mánaðar. Sömuleiðis hefur sáttasemjari tjáð ríkisstjórninni að hann sjái ekki líkur til þess að leysa megi deilu Sjómannafélags Reykjavíkur og Vinnuveitendasambands Íslands með áframhaldandi vinnu á næstu dögum eða jafnvel vikum.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað tekið fram að hún kýs ekki að hafa afskipti af vinnudeilum og telur það vera í raun hinn versta kost og eingöngu að til þess eigi að grípa ef um mjög mikla þjóðarhagsmuni er að ræða. Ríkisstjórnin hafði því ekki afskipti af þessari vinnudeilu fyrr en að ósk sáttasemjara fimmtudaginn í síðustu viku. Þá hafði myndast alvarlegur hnútur, ef ég má kalla það svo, í viðræðum sáttasemjara við sjómenn og útvegsmenn. Togarinn Hafþór var við veiðar eins og menn þekkja og neitaði að sigla til lands. Sáttasemjari óskaði þá eftir því að ríkisstjórnin leitaði eftir samkomulagi um að skipið kæmi til lands. Því kallaði sjútvrh. útgerðarmenn skipsins á sinn fund og lagði fram þá eindregnu ósk frá ríkisstjórninni að orðið yrði við þessum tilmælum og var það gert.

Á þeim tíma fól ríkisstjórnin sjútvrh. og samgrh. að fylgjast með gangi málsins og gera ríkisstjórninni grein fyrir því hvernig horfði. Eftir að skipið sigldi til lands hófust fundir að nýju og vonir voru við það bundnar að leysa mætti þessa deilu á næstu dögum. Því miður brást það. Eftir að sáttasemjari tilkynnti þeim ráðherrum sem fylgdust með málum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar s.l. sunnudag að ekki horfði til samkomulags í deilunni óskuðu ráðherrar eftir því að fá tækifæri til að ræða við deiluaðila og var það gert síðla sunnudags. Þar kom greinilega fram að ekki var líklegt að samkomulag næðist á næstu dögum. Farið var fram á það við samningsaðila að þeir semdu um frjálsan kjaradóm eða gerðardóm og verkfallinu yrði þannig skotið á frest eða aflýst. Á þetta reyndi síðan á fundum hjá sáttasemjara á sunnudagskvöldið. Ekki náðist heldur samkomulag um frjálsan gerðardóm og slitnaði upp úr viðræðum, eins og ég sagði fyrr, aðfaranótt mánudagsins 12. þ.m. Ég hef áður rakið að í gær slitnaði svo jafnframt upp úr viðræðum á vegum sáttasemjara við deiluaðila í deilu Sjómannafélags Reykjavíkur.

Ég sagði í upphafi míns máls að meginástæðan fyrir því að ríkisstjórnin flytur þetta frv. er ekki deilan sem slík heldur hið alvarlega ástand sem myndast hefur á fiskmörkuðum okkar Íslendinga, fyrst og fremst í Bandaríkjunum. Ég hef aflað mér upplýsinga um stöðu fiskbirgða og þykir mér rétt að lesa þær.

Birgðir af bolfiski hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna 5. janúar s.l. voru aðeins 1300 tonn sem samsvarar fjögurra daga framleiðslu. Birgðir af bolfiski hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna voru í árslok 1985 hins vegar til samanburðar 9400 tonn eða um sjö vikna framleiðsla, en í árslok 1984 voru birgðir um 20 þús. tonn eða sem samsvarar um þrettán vikna framleiðslu. Svipaða sögu er að segja hjá sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga. Þar voru birgðir af bolfiski 1986 aðeins um 1400 tonn eða sem jafngildir átta daga framleiðslu. Til samanburðar má þess geta að í árslok 1985 voru þær 7400 tonn og samsvarar það um átta vikna framleiðslu. Í byrjun ársins 1986, á fyrstu þremur vikum þess árs, var framleiðsla Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 2900 tonn og á þeim sömu þremur vikum var framleiðsla í frystihúsum Sambands ísl. samvinnufélaga um 1500 tonn. Í Bandaríkjunum sérstaklega eru nánast engar birgðir og upplýsa fulltrúar bæði Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga að heita megi að það sem til landsins kemur nú og er verið að landa þar sé afgreitt beint til kaupenda úr skipum. Seljendur þar hafa fyrir nokkru tekið upp skömmtun sem ekki síst felst í því að afgreiða ekki fisk til þeirra aðila sem ekki eru fastir viðskiptavinir söluaðilanna í Bandaríkjunum. Þeir hafa lagt áherslu á m.ö.o. að fullnægja þeim samningum sem þeir hafa gert við stærstu viðskiptaaðilana þar, en hafa tjáð ríkisstjórninni að mjög fljótlega komi að því að þeir geti ekki heldur fullnægt þeim samningum. Hins vegar eru fram undan í Bandaríkjunum þeir tímar að sala á fiski er mikil og flestir kaupendur ganga nú til samninga til að tryggja sér fisk fyrir þann tíma og því ljóst að ef svo fer að fiskframleiðendur geta ekki orðið við þeim óskum hljóti þessir aðilar annaðhvort að snúa sér annað eða draga mjög úr sölu á fiski á hinum almenna smásölumarkaði.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að stjórnvöld töldu nauðsynlegt að verkfalli þessu lyki. Um saltfisk og saltfiskmarkaðina er svipaða sögu að segja. Þar eru engar birgðir. Þó má segja að þar sé ástand ekki eins alvarlegt á þessari stundu. Þess má þó geta að á s.l. ári var framleiðsla á þremur fyrstu vikum ársins um 1500 tonn. Jafnframt er nú búið að skipta þeim kvóta sem fluttur verður inn til Spánar og samningar um hlutdeild okkar Íslendinga af því magni standa yfir og því ákaflega mikilvægt að hafa þær upplýsingar. En eins og ég sagði áðan: Það er fyrst og fremst mjög alvarlegt ástand á Bandaríkjamarkaði og erfitt ástand á öðrum mörkuðum í sambandi við freðfisk sem ráða því að ríkisstjórnin valdi þann kostinn að leggja fram þetta frv.

Þótt ég ætli ekki að gerast dómari í þeirri deilu sem stendur á milli sjómanna og útvegsmanna eða á milli Sjómannafélags Reykjavíkur og vinnuveitenda þeirra þykir mér rétt að fara lauslega yfir upplýsingar sem Þjóðhagsstofnun hefur veitt í þessu sambandi og fjalla um þær breytingar sem gerðar hafa verið á kjörum fyrst og fremst sjómanna og haft hafa að sjálfsögðu áhrif á afkomu útvegsins á undanförnum árum.

Með bráðabirgðalögum nr. 55 frá 27. maí 1983 var fellt niður sérstakt olíugjald sem nam 7% af fiskverði og gekk utan skipta til útgerðar. Jafnframt var felld niður sérstök niðurgreiðsla á olíuverði til fiskiskipa, einnig utan skipta. Þetta tvennt var metið sem 15,8% af fiskverði. I staðinn var tekinn upp sérstakur kostnaðarhluti útgerðar sem nam 29% af fiskverði. Með þessari breytingu lækkaði hlutfall skiptaverðs af heildarverði afla sem landað er innanlands eins og það er skilgreint í dag úr 76,5% í 71,5%.

Í ágúst 1984 var með bráðabirgðalögum ákveðin 3% greiðsla úr hinni almennu deild Aflatryggingasjóðs til útgerðar utan skipta. Við þetta lækkaði hlutfall skiptaverðs enn frekar, niður í 69,5% af heildarverði. Þetta hlutfall var 71% í árslok 1986 samkvæmt kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna. Hafði þá hækkað lítillega í þeim samningum.

Með kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna í mars 1985 og aðgerðum ríkisstjórnar í kjölfar þeirra voru ákveðnar ýmsar kjarabætur til sjómanna. Það má nefna í fyrsta lagi hækkun á fastakaupi, kauptryggingu o.fl., aukin lífeyrisréttindi, fæðispeninga, fiskimannafrádrátt o.s.frv. Lauslega áætlað af Þjóðhagsstofnun nema þessar breytingar um 7-8% til hækkunar á heildarlaunum sjómanna. Þjóðhagsstofnun metur jafnframt að á mælikvarða hlutfalls skiptaverðs af heildarverði hafi þessi kjarabót svarað til 7 prósentustiga lauslega áætlað.

Orkukostnaður útgerðar nam tæplega 20% af tekjum á árinu 1982. Á því ári var 11% tap á rekstri útgerðar. Samkvæmt síðustu áætlunum um áramótin 1986-1987 er olíukostnaður metinn 8% tekna. Hreinn hagnaður er á sama tíma metinn um 9% og hefur þá verið tekið tillit til áhrifa fiskverðshækkunar frá 1. janúar s.l.

Ég hef einnig undir höndum útreikninga Þjóðhagsstofnunar á afkomu útgerðar og fiskvinnslu sem ég mun ekki fara ítarlega út í hér en þingnefndir munu að sjálfsögðu fá til skoðunar. Þar kemur fram að afkoma útgerðarinnar er góð og betri en hún hefur verið um langan aldur. Nokkur munur er á afkomu skipanna, en miðað við 6% ávöxtun er hann alls staðar jákvæður nema hjá togurum sem eru skráðir 1977 eða síðar. Þar er hann lítillega neikvæður. Því verður því ekki neitað að afkoma útgerðarinnar hefur batnað stórlega og útgerðinni þannig skapast möguleiki til að rétta töluvert sinn hag og greiða þær miklu skuldir sem á henni hafa hvílt.

Sömuleiðis er ég hér með yfirlit yfir afkomu frystingar og söltunar, bæði fyrir samninga og eftir. Í fiskverðssamningum 1. jan. náðist allsherjarsamkomulag eins og mönnum er kunnugt og ég held að sé óhætt að fullyrða að til að ná því hafi fiskvinnslan teygt sig nokkuð langt. Þó skiptar skoðanir og mismunandi ánægja muni vera með þá fiskverðshækkun, sérstaklega hvernig hún skiptist á stærð þorsks, held ég að því verði ekki neitað að heildarhækkunin er töluverður baggi á fiskvinnsluna, en heildarsamkomulag náðist í þeirri von að það stuðlaði að samkomulagi í deilu sjómanna og útvegsmanna. Eftir fiskverðshækkunina 1. jan. telur Þjóðhagsstofnun að afkoma fiskvinnslunnar sé neikvæð. Miðað við 6% vexti í ársgreiðslu er afkoman talin vera neikvæð um 1,7% þegar yfir heildina er litið, saltfiskur þó jákvæður um 2,1% en frystingin neikvæð um 3,2%.

Einnig hefur Þjóðhagsstofnun áætlað meðaltekjur fiskimanna 1980-1986 sem sú nefnd sem fær málið til meðferðar getur, ef hún óskar, litið á. Sem betur fer hafa tekjur sjómanna aukist mjög á þessu tímabili og reyndar hækkað í hlutfalli við verkamenn og karlmenn almennt í landinu en þó, samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir fyrir 1986, eru þær á árinu 1986 ívið lægri en 1985. Samkvæmt þessari áætlun var hlutfall annarra en yfirmanna og verkamanna 1985 1,68 miðað við 1,46 1980 og 1,65 1986. En ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að rekja það mál nánar.

Um deilu Sjómannafélags Reykjavíkur og vinnuveitenda er það að segja að þar, eins og ég sagði fyrr, slitnaði upp úr í gær og telur sáttasemjari þar bera svo mikið á milli að engar líkur séu til að það mál leysist á næstunni. Að sjálfsögðu er til lítils að framleiða fisk ef ekki er unnt að koma honum á markað og þar sem forsenda ríkisstjórnar fyrir flutningi þessa frv. er markaðsmálin var fallist á þá tillögu samgrh. að ef slitnaði upp úr áður en frv. þetta yrði lagt fram á Alþingi yrði jafnframt gert ráð fyrir kjaradómi í þeirri deilu. Vitanlega má færa rök fyrir því að það mál gæti beðið eitthvað lengur, en eins og ég sagði fyrr er það mat þeirra aðila sem best þekkja að þar séu horfur á samkomulagi jafnvel verri.

Rétt er að nefna að 30. apríl 1986 hóf Sjómannafélag Reykjavíkur vinnustöðvun vegna félagsmanna á farskipum. Þá reyndust sáttatillögur einnig árangurslausar og varð það til þess að sett voru brbl. 9. maí þar sem kveðið var á um að Hæstiréttur tilnefndi þrjá menn í gerðardóm. Sá gerðardómur kvað upp sinn úrskurð 9. ágúst s.l. og gildir samkvæmt ákvæðum brbl. til 30. des. s.l. Sjómannafélag Reykjavíkur sagði gerðardómnum upp 16. des. miðað við 31. des. 1986 og hóf vinnustöðvun að nýju 6. jan. Kröfu sína lagði félagið fram síðdegis 5. jan. Til þess var ætlast að sá tími, sem var frá setningu brbl. og þar til lögin rynnu út, yrði notaður til þess að leita samkomulags um ýmis atriði sem um er deilt á milli Sjómannafélags Reykjavíkur og vinnuveitenda, en því miður tókst ekki samkomulag og hygg ég að tilraun til þess hafi verið minni en æskilegt hefði verið.

Ég tel þá rétt, herra forseti, að fara nokkrum orðum um frv. og einstakar greinar þess.

I. kafli frv. fjallar um stöðvun verkfalls á fiskiskipum. Í 1. gr. er gert ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn í sérstakan kjaradóm sem ákveði fyrir 1. mars 1987 kaup og kjör áhafna á íslenskum fiskiskipum. Rétt þótti að veita kjaradómi þennan tíma m.a. með tilliti til þess að sá tími er að sjálfsögðu opinn fyrir deiluaðila til að ræða áfram um deilu sína. Ef þeir ná samkomulagi í þessu máli fyrir þann tíma er að sjálfsögðu engin þörf á sérstökum kjaradómi og fellur þá úrskurður hans niður og væri mjög æskilegt ef það mætti takast.

Í 2. gr. frv. eru forsendur kjaradómsins settar fram og áskilið að Kjaradómur skal hafa hliðsjón af þremur atriðum sem þar eru nefnd. Það er í fyrsta lagi þeim atriðum sem samkomulag hefur orðið um á sáttastigi málsins milli sjómanna og útvegsmanna. Sem betur fer eru mörg slík atriði, þótt léttar vegi en hlutaskiptin og gámaflutningarnir, sem tekist hefur að ná samkomulagi um.

Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir að síðast gildandi kjarasamningar sjómanna á fiskiskipum og launa- og kjarabreytingar sem samið hefur verið um milli fulltrúa vinnuveitenda og stéttarfélaga í öðrum starfsgreinum frá því samningar sjómanna á fiskiskipum voru síðast gerðir og þar til dómur gengur verði höfð jafnframt til hliðsjónar.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Kjaradómur hafi til hliðsjónar sjónarmið sem á sáttastigi málsins hafa komið fram frá aðilum um breytingu á því hvernig skiptaverðmæti sjávaraflans skuli ákvarðast og öðrum atriðum er máli skipta í því sambandi eins og nánar er komið að í athugasemdum við þessa grein í frv. Deilan stendur fyrst og fremst um skiptahlut og er til þess vísað í þessum lið.

Þá er í 3. gr. ákvæði sem losar um ákvæði laga nr. 24 7. maí 1986 þar sem hlutaskipti eru ákveðin í lögum. Með þessari grein er það opnað þannig að hvort sem það verður kjaradómur eða frjálsir samningar aðila sem að niðurstöðu komast um hlutaskiptin þarf ekki það mál að koma að nýju til ákvörðunar Alþingis. Þetta er sem sagt, ef þessi lög verða samþykkt, opið.

Í II. kafla frv. er fjallað um stöðvun verkfalls félagsmanna í Sjómannafélagi Reykjavíkur sem vinna á farskipum. Þar er gert ráð fyrir sérstökum kjaradómi skipuðum af Hæstarétti á sama máta. Aðrar greinar eru í samræmi við það sem tíðkast hefur í slíkum deilum.

Í sameiginlegum ákvæðum er rétt að vekja athygli á því að í 8. gr. er gert ráð fyrir að niðurstaða kjaradómsins gildi fyrir aðila frá 1. jan. 1987 en ekki frá því að lögin taka gildi. Er þetta gert með tilliti til þess að allmargir sjómenn hafa verið á sjó þann tíma sem liðinn er frá áramótum og þótti því rétt að þeir nytu þeirra kjara sem ákveðin verða.

Þá er rétt að vekja athygli á að gert er ráð fyrir að ákvæði um bann við verkföllum og verkbönnum gildi til 30. júní 1987, en hins vegar sé kjaradómur uppsegjanlegur frá 30. maí 1987 af hvorum aðila um sig með eins mánaðar fyrirvara miðað við mánaðamót. Þetta er m.a. gert með tilliti til þess að fiskverð á að ákveða 1. júní 1987 og eru þar tímamót að þessu leyti. Sömuleiðis taldi ríkisstjórnin ekki rétt að binda þetta í lögum lengur en rúmlega þetta kjörtímabil, en veita þó tíma til þess að ný ríkisstjórn yrði mynduð áður en til slíkrar deilu kemur að nýju ef sú verður niðurstaðan sem við skulum vona að verði reyndar ekki.

Eins og ég hef tekið fram, herra forseti, er megintilgangur þessa frv. ekki að kveða upp dóm um hver skuli vera kjör sjómanna heldur að vernda hagsmuni okkar erlendis og markaðsstöðu. Með því er jafnframt verið að vernda hagsmuni sjávarútvegsins og þar með þjóðarbúsins í heild. Kjaradómi er falið að kveða upp dóm um kjör fram til 30. júní n.k., en að því tímabili loknu verða sjómenn og útvegsmenn að hafa komið sér saman um skipan kjaramála eða a.m.k. er það ákaflega æskilegt.

Ástæða er til að lýsa yfir vonbrigðum með að samningar skuli ekki þegar hafa tekist. Vil ég eindregið lýsa þeirri von minni að þannig verði staðið að þessum málum, bæði á vegum sjómanna og útvegsmanna, að þegar verði leitað samkomulags þannig að ekki þurfi að koma til stöðvunar á ný í þessari ákaflega mikilvægu atvinnugrein hins íslenska þjóðarbús.

Öllum er ljóst að íslenskir sjómenn þurfa að búa við góð kjör. Á sjóinn þurfa að fást hinir færustu menn. Á engan annan máta í raun getur sjávarútvegurinn sinnt því mikilvæga hlutverki sem honum er falið. Langvarandi verkföll í sjávarútvegi þjóna hins vegar seint nokkrum tilgangi og eru á sama máta sem sjávarútvegurinn er mikilvægur fyrir íslenskt þjóðarbú skaðlegri en flest önnur stöðvun í atvinnurekstri fyrir þjóðarbúið sem heild.

Það eru þessi sjónarmið í örfáum orðum sem hafa ráðið þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að flytja þetta frv. en leggja það þó fyrir Alþingi þannig að umræða geti orðið um þessi sjónarmið.

Herra forseti. Það kann að vera nokkuð vafasamt fyrir hvaða nefnd þetta mál á að fara. Að hluta fer það venjulega fyrir sjútvn., að hluta fyrir samgn., gæti einnig farið fyrir félmn. sem fjallar um kjaradeilur. En niðurstaða eftir fundi sem ráðherrar hafa átt með fulltrúum stjórnarandstöðunnar er að rétt sé að vísa málinu til sjútvn. Það eru hagsmunir útflutningsaðila í sjávarútvegi og þar með sjávarútvegsins í heild sem ráða því að frv. er flutt.

Ég legg áherslu á að nefndirnar í báðum deildum vinni saman því að það er æskilegt að hraða svona máli eins og kostur er og ég vil einnig leggja áherslu á að til verði kvaddir þeir aðilar sem málinu tengjast, bæði deiluaðilar og sömuleiðis fulltrúar útflutningsaðila. Ég vil taka fram að eftir að ríkisstjórninni þótti sýnt að hún yrði að hafa slík afskipti af málinu hef ég kvatt alla þessa fulltrúa á minn fund og reyndar suma tvisvar og gert þeim grein fyrir þessu máli, afhent þeim frv. og gert þeim grein fyrir því að þeir mættu búast við að verða kvaddir á fund þingnefnda. Ég vil því, forseti, gera það að tillögu minni að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. að lokinni þessari umræðu.