13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að það hafi verið eðlilegt að kalla saman þing til að fjalla um stöðuna í þessari sjómannadeilu, eðlilegra en að setja brbl. eins og hæstv. forsrh. kvaðst ella mundu hafa gert. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt að taka hér fram að ég tel eðlilegt að þingið fjalli um þetta mál með myndugum hætti. Hér hefur verið spurt um það af fjölmiðlum undanfarna sólarhringa: Stendur til að tefja málið? Hér er í rauninni lögð fram spurning sem felur í sér að það er engu líkara en menn líti á Alþingi og stjórnarandstöðuna þar með eins og sjálfvirka hakkavél, þegar ríkisstjórninni dettur eitthvert gott ráð í hug eigi stjórnarandstaðan að hlaupa til og gegna og tala lítið og tala stutt, ekki leggja fram efnisatriði málsins, eyða sem minnstum tíma í nefndavinnu og afgreiða þetta í snatri. Þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig. Auðvitað verður hv. Alþingi að taka sér þann tíma sem eðlilegur er í þetta mál.

Það er hins vegar alveg ljóst að eftir að frv. af þessu tagi er komið fram er það ekki til neins fyrir nokkurn aðila, hvorki í stjórn né stjórnarandstöðu, að tefja mál af þessu tagi. Framlagning málsins ein sér af hálfu ríkisstjórnar með sterkan þingmeirihluta, eins og sú ríkisstjórn hefur sem hér situr enn, stöðvar í rauninni allar sáttaumleitanir, þýðir það að málið verður afgreitt með þeim hætti sem ríkisstjórnin leggur til og þess vegna er auðvitað ekki til neins að hafa uppi tilraunir til að tefja málið af hálfu nokkurs aðila, enda kannast ég ekki við að það hafi verið gert, a.m.k. ekki á þessu kjörtímabili, af hálfu Alþb.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að menn geri sér ljóst að mál af þessu tagi verður að ræða hér ítarlega vegna þess að þetta er eini málflutningurinn sem fram fer fyrir þeim dómstóli sem hér er verið að gera tillögu um. Deiluaðilar verða ekki kallaðir fyrir dóminn. Eini málflutningurinn sem fram fer í þessu máli er sá málflutningur sem fram fer hér á hv. Alþingi Íslendinga. Þess vegna verður auðvitað að fara ítarlega yfir málið hérna, draga fram efnisatriði til þess að þau komi sem gleggst fram fyrir kjaradóminn sjálfan.

Ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir, virðulegi forseti, f.h. Alþb. að Alþb. er á móti þessu frv. Við erum það fyrst og fremst af eftirfarandi ástæðum:

Við teljum í fyrsta lagi að samningar hafi í raun og veru verið í miðjum klíðum og ég er sannfærður um það, eftir að hafa rætt við fulltrúa beggja deiluaðila, að það hefði verið unnt að leysa málið með samkomulagi. Ríkisstjórnin kaus hins vegar að hóta lögum þegar aðeins örfáir klukkutímar voru liðnir frá því að síðasta tilboð sjómannasamtakanna var lagt fram. Síðasta tilboð sjómannasamtakanna var lagt fram á sunnudagskvöld kl. 11. Því tilboði var hafnað kl. 23 mínútur yfir 11, fundi var slitið kl. hálfeitt. Ríkisstjórnin ákvað um morguninn milli kl. 8 og 9 að þing skyldi kallað saman til að setja lög á sjómenn. Hér er gripið inn í þessa deilu með algerlega óvenjulegum hætti og það er rangt, sem hæstv. forsrh. segir, að núv. ríkisstjórn telji það neyðarúrræði að grípa inn í deilur með lögum. Það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar. Þetta er sjöunda vinnudeilan sem þessi ríkisstjórn ætlar sér að stöðva með lögum á þessu kjörtímabili. Aldrei hefur nokkur ríkisstjórn gengið jafnlangt í að svipta launafólk verkfallsrétti með lögum og gert er af þessari ríkisstjórn.

Önnur ástæðan fyrir því að við erum andvíg þessu frv. er sú að við teljum að það hefði átt að reyna til hins ýtrasta að ná samkomulagi milli sjómanna og útvegsmanna um að tengja saman olíuverð og skiptaprósentu eins og sjómenn höfðu gert tillögu um. Það er í rauninni alveg kostulegt að hæstv. forsrh., þegar hann mælir fyrir þessu frv. hér, skuli ekki hafa gert grein fyrir því að það sögulegasta við deiluna var að sjómenn opnuðu fyrir svo að segja sjálfvirka tengingu á milli olíuverðs á alþjóðamarkaði og skiptaprósentunnar. Það hefur aldrei áður komið til tals af hálfu sjómannasamtakanna að taka þetta upp með þessum hætti. Ég held að það hefði verið skynsamlegt frá langtímahagsmunum séð fyrir ríkisstjórnina að reyna að ná samningum úr því að sjómannasamtökin voru tilbúin til að ræða málið á þessum grundvelli. Og í rauninni var ekki óravegur á milli aðila þegar ákveðið var af ríkisstjórninni að slíta viðræðunum. Það slitnaði ekki upp úr viðræðunum. Það var ákveðið af ríkisstjórn Íslands að slíta þessum kjarasamningaviðræðum.

Þriðja ástæðan til þess að við erum andvíg þessu frv., virðulegi forseti, er sú að við teljum að þau rök sem flutt eru varðandi birgðastöðuna hafi í rauninni legið mjög lengi fyrir, um misseraskeið, og hafi ekki komið upp vegna sjómannadeilunnar sem slíkrar. Birgðir af freðfiski hafa minnkað um 3000 tonn á mánuði í september, október og nóvember s.l. Það er þess vegna alveg ljóst og búið að vera ljóst um margra mánaða skeið hver vandi var fram undan í þessu efni og ef ríkisstjórnin var sjálfri sér samkvæm og hafði þessar áhyggjur átti hún að ræða við deiluaðila um þetta alvarlega mál fyrir áramót. En það gerir hún ekki. Hún snertir ekki á málinu í rauninni fyrr en á fimmtudag og það er ákveðið að slíta deilunni á sunnudegi.

Fjórða ástæðan til þess að Alþb. er á móti þessu frv. er sú að við teljum að með því sé verið að ómerkja verkfallsréttinn í landinu, gera lögin um stéttarfélög og vinnudeilur að pappírsgagni. Þetta er í sjöunda sinn sem reynt er að stöðva kjaradeilu með lögum. Það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar í raun og í verki að koma í veg fyrir frjálsa samninga. Og það var í rauninni kostulegt að hlýða á hæstv. forsrh. áðan: Fyrst staðan er þannig að það verður að taka á sjómannadeilunni er best í leiðinni að hengja farmennina aftan í skútuna líka.

Hæstv. forsrh. lét þess hins vegar ógetið í málflutningi sínum áðan af hverju hann tók ekki með í kippunni fleiri hugsanlegar vinnudeilur sem kunna að vera í farvatninu á komandi vikum og mánuðum. Það er verið að ræða um kaup og kjör á vegum ýmissa verkalýðsfélaga í landinu. Það er ekki búið að ganga frá samningum á nærri öllum stöðum. Með nákvæmlega sömu rökum og þeim sem hæstv. forsrh. flutti í þessu máli er alveg hægt að hengja aftan í svo að segja hvert einasta verkalýðsfélag í landinu og segja: Þér er bannað að fara í verkfall fram yfir kosningar, því það er það sem stendur í þessu frv., til þess að næsta ríkisstjórn sé örugglega búin að koma sér í stólana áður en það þarf að fara að takast á við vinnudeilur. Frv. er flutt af slíkri fyrirhyggju að það má segja að forsendur þess nái út yfir gröf og dauða, þ.e. þeirrar stjórnar sem situr enn í landinu.

Ég ætla þessu næst, herra forseti, að víkja að nokkrum meginþáttum þessa máls eftir að hafa gert grein fyrir okkar niðurstöðu og aðalástæðum hennar.

Um hvað snerust þessar viðræður fyrst og fremst? Þær snerust um skiptaverðið og breytingu skiptaverðs. Það var grundvallaratriðið. Hvað lá fyrir í þeim efnum? Jú, þegar þessi ríkisstjórn tók við lækkaði hún skiptahlutfallið úr 76,5% í 71,5 að mati Þjóðhagsstofnunar. Það lá einnig fyrir að á þessum tíma var olíukostnaður mjög hár. Olíukostnaður útgerðarinnar nam tæplega 20% af tekjum 1982. Á því ári var 11% tap á útgerðinni í landinu. Samkvæmt síðustu áætlunum Þjóðhagsstofnunar, sem ég hef undir höndum, er olíukostnaðurinn nú metinn 8% af tekjum, en hreinn hagnaður fiskveiðanna er hins vegar metinn á 9% eftir fiskverðsákvörðun eða í kringum 1000 millj. kr. Hér er um verulega breytingu að ræða og er eðlilegt að sjómenn krefjist þess að skiptaprósentan sjálf breytist þeim í vil þegar útgerðaraðstæður breytast í grundvallaratriðum eins og orðið hefur á síðustu misserum.

Og hvernig var staðan í sjómannadeilunni í þessu efni? Var það þannig að menn hefðu ekki hreyft sig um spönn eða hvað? Staðan var þannig að kl. 23 á sunnudagskvöld lagði Sjómannasamband Íslands fram tillögur um að skiptahlutfallið yrði 79%. Í þeirri tillögu var gert ráð fyrir að hlutfallið yrði óbreytt þegar verð olíu væri á bilinu 121-145 dollarar tonnið. Í þessum tillögum Sjómannasambandsins var síðan boðið upp á að það yrði breyting á skiptahlutfallinu um 1% fyrir hverja 12 dollara sem verðið hreyfðist um á olíunni. En Sjómannasambandið sagði líka: Við miðum við það samt sem áður að skiptahlutfallið verði aldrei lægra en 70% og aldrei hærra en 84%. Þessi tala, 84%, er básúnuð út um allt og sagt: Þetta er óbilgirni, þetta er frekja. En hvað þýðir þetta í raun? Til að skiptin yrðu 84% samkvæmt tillögu Sjómannasambands Íslands yrði olíuverð að fara niður í 60 dollara tonnið, en olíuverð í birgðum hérlendis í dag er 132 dollarar tonnið og hefur í raun og veru aldrei farið niður fyrir 100 dollara tonnið. Færi hins vegar svo að olíuverð lækkaði í 100 dollara tonnið þýddi það að skiptahlutfallið færi upp í 81%. Þetta er sú kröfufrekja sem verið er að saka sjómannasamtökin um í þessu efni. Það er kannske rétt að skjóta því hér inn í, herra forseti, að í tillögu sjómanna um 79% hlutfallið var gengið út frá því að útgerðin væri áfram með 5% hagnað. Það var ekki verið að ganga nær mönnum en það í kröfum sjómanna á samningastigi málsins þegar ríkisstjórn Íslands ákvað að slíta samningaviðræðunum.

Ef það hins vegar gerðist, miðað við þá reikniformúlu sem sett var fram af Sjómannasambandinu, að olíuverðið hækki í 253 dollara tonnið, sem er um 10 dollurum lægra en var síðast skráð í mars á s.l. ári, yrði skiptahlutfallið 70%. Þetta var í rauninni síðasta tilboð sjómanna. Skömmu áður eða 5. janúar hafði Landssamband ísl. útvegsmanna gert tilboð um 73% skiptahlutfall. Það gerði ráð fyrir óbreyttu hlutfalli á verðbilinu 110-140 dollarar á tonnið og síðan hreyfingu upp á 1% fyrir hverja 12 dollara. Í tillögum Landssambands ísl. útvegsmanna var það aðalgallinn á málinu að þar var ekki gert ráð fyrir neinum botni, neinu gólfi, þannig að færi olíuverð t.d. upp í 253 dollara tonnið, sbr. dæmi sjómanna hér á undan, hefði skiptaprósentan lækkað í 64% eftir formúlu Landssambands ísl. útvegsmanna, sem sagt lægri prósenta en nokkru sinni fyrr. Það var algerlega útilokað fyrir sjómannasamtökin að fallast á að engin takmörkun væri sett í þessu efni. Ef við hins vegar gerðum ráð fyrir að olíuverðið hækki upp í það sem það var hæst eða 337 dollara tonnið hefði skiptaprósentan lækkað niður í 57%. Það er vonlaust verk, útilokað og fráleitt að ætlast til þess af sjómannasamtökunum að þau gangist inn á formúlu sem gæti þýtt sjálfkrafa lækkun á þeirra hlut niður fyrir 60 af hundraði.

Nú er því haldið fram af talsmönnum útgerðarinnar og það heyrist jafnvel stundum í umræðum stjórnmálamanna hér: Ef skiptaprósentan yrði með þessum hætti 84%, hvað þá? Þá spyr ég á móti: Hvað þarf olíuverðið að lækka mikið til þess að prósentan yrði 84% til sjómannanna? Svarið er: Þá þarf olíuverðið að lækka niður fyrir núll. Hinar miklu áhyggjur Landssambands ísl. útvegsmanna, les: Kristján Ragnarsson, herra forseti, hinar miklu áhyggjur Kristjáns Ragnarssonar í þessu efni um hina ósvífnu hugmynd um 84% skipti byggðust á því að olían hefði ekki kostað neitt og raunar borgað með henni 12 dollara tonnið ef þetta er tekið mjög nákvæmlega. Ég hygg að það sé ekki hægt, jafnvel þó við séum bjartsýnir og hæstv. ríkisstjórn og þjóðin öll búi við prýðilegt góðæri, að gera ráð fyrir að OPEC-ríkin sendi okkur tékka upp á 12 dollara með hverju tonni af gasolíu sem við flytjum inn í landið, jafnvel þó að Rússarnir ættu í hlut.

Olíuverð í birgðum hér á landi núna, hvert er það? Það er 132 dollarar tonnið. Verðlagning á gasolíu eins og sakir standa er 121 dollari tonnið. Síðasta verðskráning á olíu 7. janúar s.l. í Rotterdam var 163,5 dollarar tonnið. Ef það verð yrði að veruleika þýðir það í raun að tilboð útvegsmanna er ekki upp á 73% heldur upp á 71 % og það þýðir í raun að tilboð sjómanna er ekki upp á 79% heldur upp á 77,5% þannig að þetta er hið raunverulega tilboð sjómanna sömu daga og verið er að ræða um málin og sömu daga og þessi verðskráning liggur fyrir í Rotterdam. Hverjar eru horfur með olíuverð? Það eru horfur á því núna að olíuverð fari hækkandi. Það er margt sem veldur, m.a. hinir miklu fimbulkuldar í Evrópu. Hins vegar er ljóst að olíujöfnunarreikningur gasolíu er jákvæður um 20 millj. kr. og það er ólíklegt að það þurfi að flytja inn eða selja olíu miðað við það verð sem nú er skráð í Rotterdam eða mikið hærra verð. Þess vegna finnst mér líklegast að þau verðbil sem sjómenn og útvegsmenn gerðu tillögu um og ráð fyrir mundu í rauninni þýða að verðið yrði nokkurn veginn óbreytt á þeim tíma sem menn eru hér að tala um.

Niðurstaðan af umræðunum um skiptin er því þessi: 79%, 73%, 6% í skiptum. Það eru 300 millj. kr. sem ber á milli.

Í öðru lagi: Verðbil sjómanna var 121-145 dollarar, en útvegsmanna 110-140 dollarar. Það þýðir að sjómenn vilja fyrr fá að njóta enn frekari lækkunar á olíu en útgerðarmenn vilja heimila. En, eins og ég sagði áðan, telja verður ólíklegt að verð á olíu fari niður fyrir þau mörk sem sjómenn setja, þ.e. niður fyrir 121 dollara á tonnið.

Í þriðja lagi: Sjómenn gera ráð fyrir að skiptaprósentan geti aldrei farið niður fyrir 70%, aldrei upp fyrir 84%. Þetta er auðvitað stóra ágreiningsmálið, að það séu settar inn takmarkanir í þessum efnum. Þess vegna er ekki hægt, eins og fjölmiðlar og hæstv. forsrh. hafa gert, að tala um 6% muninn sem einangrað fyrirbrigði.

Ég held hins vegar að stóra grundvallaratriðið í þessu máli öllu sé að fyrir liggur viðurkenning á því af hálfu sjómannasamtakanna að það á að vega olíukostnaðinn á móti skiptaprósentunni. Sjómenn skilja í sínu tilboði útgerðina eftir með hagnaði upp á 5% og enginn hefur sagt - enginn fulltrúi sjómanna hefur sagt nokkurs staðar - að þetta tilboð að kvöldi sunnudagsins s.l. hafi verið úrslitakrafa af hálfu sjómanna. Þetta var tilboð sem var sett fram í samningaviðræðum í trausti þess að menn ætluðu að fara að semja. Menn vissu ekki að ríkisstjórnin ætlaði sér að slíta samningaviðræðum með því að gera tillögu um lagasetningu eins og hér er á dagskrá.

Í frv. ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því í grg. að kjaradómur taki tillit til tveggja atriða sem fram komu í samningaumræðunum, þ.e. í fyrsta lagi tillagna útvegsmanna um gámafiskinn og í öðru lagi tillagna sem fram komu um olíukostnaðinn. Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að láta kjaradóminn fjalla um önnur atriði og af hverju eingöngu eru nefnd í grg. ríkisstjórnarinnar þau atriði úr viðræðunum sem koma sjómönnun illa. Það er ekkert annað nefnt í grg. stjfrv. sem hér liggur fyrir.

Ég vil rekja örfá atriði sem voru í umræðu en LÍÚ vildi ekki ljúka umræðum um í von um að lög yrðu sett áður en til niðurstöðu kæmi.

Í fyrsta lagi hafði verið rætt ítarlega um kjör á frystitogurum. Þegar kom að niðurstöðu í því máli flýði fulltrúi frystitogaraeigenda af fundi í Karphúsi. Þó það sé að jafnaði læst flýði hann af fundi þrátt fyrir mótmæli sjómanna og sáttasemjara ríkisins. Það reyndist ekki unnt að ljúka því máli, en það var mjög langt komið í þessu efni.

Í öðru lagi hafði verið rætt ítarlega um kjör á rækjuskipum sem frysta afla um borð. Viðræður voru í fullum gangi. LÍÚ stöðvaði þær viðræður líka.

Í þriðja lagi hafði verið rætt um starfsaldursálag og uppsagnarfrest.

Í fjórða lagi hafði verið rætt um fæðisgreiðslur. Rætt hafði verið um ýmis atriði sem jafnvel hefur þegar náðst samkomulag um við Alþýðusamband Vestfjarða. Það eru ein tíu atriði, sem höfðu verið rædd á fundunum með sjómönnum síðustu daga, sem ástæða er til að spyrja hvort verða tekin með í meðferð kjaradómsins eða hvað. Og það er nauðsynlegt að hæstv. forsrh. svari vegna þess að í grg. ríkisstjórnarinnar með þessu frv. er ekkert þessara atriða, aðeins tillagan um gámana og hugmyndin um tengingu olíuverðs og skiptaprósentu. Spurning mín er: Á ekkert tillit að taka til þess sem kom fram frá sjómönnum sjálfum?

Ég vil þessu næst, virðulegi forseti, víkja aðeins að meginrökum hæstv. ríkisstjórnar, þ.e. birgðastöðunni.

Birgðir af freðfiski fyrir tveimur árum voru um 30 000 tonn. Birgðir í árslok 1985 voru hins vegar 17 000 tonn, fóru minnkandi niður í 10-11 000 tonn vorið 1986, jukust síðan í 15 000 tonn þegar kom fram á sumarið, en hafa, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, minnkað um 3000 á mánuði frá því í september s.l.

Vissulega er það alvarleg staða sem upp er komin. En kom hún upp núna? Varð hún til einmitt núna þegar sjómenn boðuðu verkfall? Varð hún kannske til núna um helgina? Frétti ríkisstjórnin ekki af þessari birgðastöðu fyrr en á sunnudaginn eða hvað? Auðvitað er ljóst að birgðastaðan hefur verið að þróast með þessum hætti um tveggja missera skeið. Og hvað hefur verið að gerast? Hvar er fiskurinn? Það hefur fiskast eins og kunnugt er. Hvar er hann? Birgðaminnkunin, sem hefur átt sér stað á tveimur misserum, er í gámunum. Og ríkisstjórnin þurfti auðvitað ekkert annað en að lesa miða frá Þjóðhagsstofnun eða Fiskifélagi eða öðrum slíkum aðilum til að átta sig á því hvað var að gerast. Hins vegar er það mjög heppilegt frá sjónarmiði ríkisstjórnarinnar að vekja sérstaklega athygli á þessum vanda núna þegar sjómannadeilan stendur yfir. Hæstv. forsrh. sagði: Það er ekki kjaradeilan sem við erum fyrst og fremst að hugsa um. Nei, nei, nei, það er ekki kjaradeilan. Nei, nei, nei, það er ekki kjaradeilan. Það er birgðastaðan. Það var þess vegna sem hv. þm. Pétur Sigurðsson lagði til að þetta mál færi til utanrmn. Það væru fyrst og utanríkisviðskipti sem hér væru í húfi. En ástæðan til þess að menn fá þetta flog núna er sú að það stendur yfir sjómannaverkfall og það þarf að negla sjömennina. Og það þarf að hræra þjóðina til meðaumkunar með afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli, til stuðnings við ríkisstjórnina í þessu máli. Það er það sem er að gerast. Hér er verið að nota sér birgðaþróun sem hefur verið að ganga yfir um margra mánaða skeið til þess að ná pólitískri stöðu fyrir ríkisstjórnina til að svipta sjómenn í landinu verkfallsréttinum. Þetta er ómerkilegur pólitískur loddaraleikur sem hér er uppi. Það er kjarni þessa máls.

Ríkisstjórnin átti auðvitað, ef hún hafði þessar áhyggjur af málinu, að taka á því mikið fyrr. En hún kýs að nota sér sjómannadeiluna til að ná viðspyrnu í þessu máli. Það hefur ekki verið bent á það síðustu dagana að á árinu 1986 er um að ræða tvöföldun á gámafiski, úr 10 000 tonnum af minni togurum í 20 000 tonn árið 1986. Þetta segir sína sögu. Og það segir líka kannske sína sögu að við þessar aðstæður gerir LÍÚ tillögu um að gámafiskurinn verði enn þá hagstæðari fyrir útgerðina en hann hefur áður verið.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé nauðsynlegt að átta sig á því að hér eru menn í rauninni að reyna að finna sér rök til að stoppa kjaradeilu. Það er ekki utanríkisviðskiptapólitískur vandi sem hér er um að ræða fyrst og fremst. Hér er um þann vanda að ræða að maður heitir Kristján Ragnarsson sem hefur ráðið sjávarútvegsmálum, hvort sem það eru viðskiptamál, kjaramál sjómanna eða kvótakerfi, á undanförnum árum. Ríkisstjórnin gerir að vísu ekki tillögu um að þessi maður verði einn sá kjaradómur sem Hæstiréttur skipar, en það færi í rauninni vel á því miðað við forsögu málsins að í kjaradómi verði Kristján Ragnarsson, Kristján Ragnarsson og Kristján Ragnarsson.

Hér hef ég í ræðu minni nokkuð vikið að því að ríkisstjórn hafi aftur og aftur gripið til þess að stöðva vinnudeilur með lögum. Og það hefur verið bent á að til slíks hafi iðulega komið áður, ríkisstjórnin hafi gripið til þess að leysa kjaradeilur með lögum. Árið 1979 stóðu menn t.d. frammi fyrir því að farskipaverkfall hafði staðið á annan mánuð og þá var ákveðið að grípa inn í þá deilu með lagasetningu. En lítum yfir nokkurra ára tímabil og athugum hvað þetta hefur oft gerst, hverjir hafa átt í hlut og hvaða ríkisstjórnir hafa setið að völdum. Ég vildi ekki leggja það á skrifstofu Alþingis að fara að fletta þingtíðindum mikið aftur fyrir árið 1973 eða aftur fyrir árið 1970 vegna þess að það var ekki aðstaða til þess að stunda eðlilegar sagnfræðirannsóknir í þessu máli vegna þess knappa tíma sem okkur er settur og hefði þó verið fróðlegt að fara yfir fleira, eins og þróun skiptaprósentunnar á undanförnum áratugum.

Árið 1973 voru sett lög um laun yfirmanna á botnvörpuskipum. 1975 voru sett lög um stöðvun verkfalla í Áburðarverksmiðjunni. 1976 voru sett bráðabirgðalög um kaup og kjör sjómanna. 1979 voru sett bráðabirgðalög um kjör farmanna í júlí eftir verkfall á annan mánuð.

Á þessu sex ára tímabili finnast fjögur dæmi um að vinnudeilur séu stöðvaðar með lögum. Síðan kemur að ríkisstjórn hinna frjálsu kjarasamninga. Það er ríkisstjórnin sem Sjálfstfl. á hlut að og vill alltaf hafa frelsið sem mest, þetta óskaplega frelsi. Og hvernig hefur það nú verið? Hefur það ekki verið alveg „gasalega“ frjálst, eins og sagt var einu sinni, alveg með ólíkindum frjálst? Hvernig hefur það verið, hv. þm. Pétur Sigurðsson, einn traustasti stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar fyrr og síðar?

Ríkisstjórnin hóf sinn feril á því að setja bráðabirgðalög 27. maí 1983 sem bönnuðu verkföll út það ár. Það eru engin dæmi til þess í sögu Íslands í nútímastjórnmálum að slíkt hafi verið gert. Þetta var ríkisstjórnin með flokkinn innbyrðis sem talaði um frjálsa kjarasamninga, frelsi, frelsi og aftur frelsi. Það mátti ekki semja í hálft ár. Það var bannað með bráðabirgðalögum, þingið ekki kallað saman til að ræða það mál einu sinni.

1984 setti þessi sama ríkisstjórn lög um að stöðva vinnudeilu hjá Flugleiðum. 1984, seint á því ári, kom hún aftur með annað frv. hingað inn í þingið. Í þetta skiptið var það ekki Flugleiðir heldur deila verkalýðsfélaga á Suðurlandi og sláturleyfishafa. Það var alveg knýjandi að mati ríkisstjórnarinnar að leysa það mál með lögum og það strax. Það stóð svo illa.

Tvenn lög á árinu 1984. 1985, hvað var það þá? Flugfreyjur. Vinnudeila þeirra stöðvuð með mjög umdeildum hætti hér á hv. Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Og 1986 gerist það tvisvar sinnum að sett eru lög til að stöðva vinnudeilur, fyrst mjólkurfræðingar snemma á árinu 1986 og síðan eru sett bráðabirgðalög vegna verkfalls félagsmanna í Skipstjórafélagi Íslands og félagsmanna í Sjómannafélagi Reykjavíkur. Þau lög voru lögð fram hér til staðfestingar í haust, giltu til 31. desember. Kaupliðum var sagt upp þegar menn voru lausir úr því helsi. Kröfur voru lagðar fram 5. janúar. Nú er komið fram í miðjan janúar og enn þá hafa ekki verið sett lög á farmenn. Þeir eru búnir sem sagt að vera í hálfan mánuð alveg lagalausir. En þá er bætt úr því og þeim eins og spyrt saman við sjómannadeiluna úr því að menn eru að þessu hvort eð er. Þess vegna segi ég það, virðulegi forseti, að ég tel að hér sé í rauninni komin stefna ríkisstjórnarinnar. Það eiga ekki að vera vinnudeilur í landinu. Það er leitað að rökum til að stöðva þær með lögum ef þær hefjast. Það er sama hvort það eru verkamenn í sláturhúsum eða flugfreyjur eða sjómenn á fiskiskipum eða farmenn, ríkisstjórnin leitar alltaf uppi einhver rök. Og núna í þessari kjaradeilu sjómanna finnur hún þessi rök, sem hafa legið í augum uppi fyrir þjóðina í tvö misseri, að það séu minnkandi birgðir af freðfiski í landinu.

Það er auðvitað stóralvarlegt, herra forseti, hvernig komið er á hinum almenna vinnumarkaði varðandi kaup og kjör að því er varðar stöðu verkalýðshreyfingarinnar eftir að ríkisstjórn hefur aftur og aftur komist upp með að stöðva vinnudeilur með þessum hætti. Það er alvarlegt frá mannréttindasjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar. En það er líka alvarlegt frá sjónarmiði þjóðfélagsins í heild og Alþingis Íslendinga sem setti lögin um stéttarfélög og vinnudeilur vegna þess að auðvitað eiga menn að alast upp við það hvar sem þeir eru í stéttarsamtökum eða samtökum atvinnurekenda að semja sig út úr deilum. Það er óhollt ef ekki beinlínis hættulegt ef staðan er þannig að menn gera ráð fyrir því í hvert skipti sem þeir hefja deilu að hún hljóti að verða leyst með lögum. Menn hljóta að sjá hvaða áhrif þetta hefur á stöðu atvinnurekenda. Við þessar aðstæður hreyfa þeir sig ekki. Í mesta gósenári sem útgerðin hefur haft um mjög langt skeið og 9% gróða samkvæmt tölum Þjóðhagsstofnunar fæst hún ekki til að hreyfa sig um spönn þegar sjómenn leggja fram tilboð um sjálfvirka tengingu milli olíuverðs og skiptaprósentu og segja: Samkvæmt okkar tilboði á hagnaður útgerðarinnar að geta verið 5%. Það er ekkert nema óbilgirni og stirfni sem veldur því að menn ná ekki saman í svona stöðu og þá það að menn treysti því að Kristján Ragnarsson hafi ekki einasta vald fyrir útgerðina í landinu „komplet“ heldur líka fyrir Alþingi Íslendinga. Menn stóla á það. Við slíkar aðstæður kemur auðvitað ekkert út úr samningaviðræðum, herra forseti.

Á fundi sem haldinn var í miðstjórn Alþýðusambands Íslands núna áðan var fjallað um þessa deilu og ég les þessa ályktun Alþýðusambandsins upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir þeirri lagasetningu um kjör sjómanna sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið. Í kerfi frjálsra samninga er óhjákvæmilegt að til átaka geti komið í kjaradeilum. Þær deilur á að leysa á ábyrgð samningsaðila. Ef annar deiluaðili, eins og útgerðarmenn nú, getur með einstrengings- og þvergirðingshætti gert samningaviðræður að marklausum samtölum í trausti lagasetningar er samskiptum stefnt í hættu. Með því móti eru aðilar sviptir ábyrgð og samningsrétturinn verður nafnið tómt. Með endurtekinni lagasetningu má brjóta kerfi frjálsra kjarasamninga á bak aftur. Samningsréttinum er ógnað og því hljóta verkalýðssamtökin að mótmæla.“

Ég hygg að það fari vel á því að þessi ríkisstjórn, sem hefur stöðvað kjaradeilur sjö sinnum með lögum, hafi þessa samþykkt á bakinu einmitt nú. Samningsrétturinn er orðinn nafnið tómt. Samningsréttinum er ógnað. Lagasetning aftur og aftur er að brjóta kerfi frjálsra samninga á bak aftur. Þetta skulu verða mín lokaorð, herra forseti, að sinni.