13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Í jafnmikilvægu máli og hér er til umræðu og undir þeim kringumstæðum sem þetta mál er fram borið væri ástæða til þess að hafa langt mál hér um. Ég skal eigi að síður ekki gera slíkt á þessu stigi máls. Hér hafa verið rakin atriði sem nauðsynlega þurftu fram að koma en mig langar eigi að síður til þess að segja örfá orð um málið nú við 1. umr.

Ég held að hv. alþm. hljóti að verða hugsað til þess hvað er að gerast í okkar landi, hvað hefur verið að gerast á undanförnum fjórum árum og raunar áður að því er varðar lagasetningu í kjaradeilum og bann við verkföllum. Eins og hér hefur komið fram áður hefur núverandi hæstv. ríkisstjórn líklega gengið lengst í þessum efnum. Aðrar ríkisstjórnir sem hér hafa setið eru að vísu ekkert undanþegnar, þær eru ekkert undanþegnar í þessum efnum, en ekki eins slæmar. Það var vikið að því hér áðan að núverandi hæstv. ríkisstjórn er sjö sinnum búin að hafa afskipti af kjaradeilum á sínum valdaferli.

Ég skal taka það fram strax fyrir mig, án þess að ég ætli að gera það neitt að sérstöku umræðuefni hér, að það er ýmislegt sem ég hef athugasemdir við að því er varðar þá deilu sem hér er um að ræða, bæði að því er varðar tímasetningu, að því er varðar ýmis tilvik í deilunni sjálfri, en ég skal ekki gera það að umræðuefni hér, enda engin ástæða til því að miklu alvarlegri hlutir hafa nú gerst með framlagningu þess frv. sem hér er nú til umræðu. Á það hefur verið minnst áður, ég hygg að menn muni það, að kostnaðarhlutdeildinni var breytt með lögum frá Alþingi, til útgerðarinnar frá sjómönnum. Þetta var að vísu með, ja kannske þegjandi samkomulagi sjómanna á þeim tíma vegna slæmrar stöðu útgerðar og auðvitað höfðu menn ætlast til þess núna að þessu dæmi væri snúið við og að ríkisstjórnin væri í hasti að boða til þings í ljósi þess að snúa dæminu við með lagafrv., færa sjómönnum aftur það sem af þeim var tekið á sínum tíma með lögum frá Alþingi. Þetta hlýtur að vera ofarlega í hugum sjómanna þegar tillit er til þess tekið hvað útgerðin er betur stödd núna en verið hefur um langt árabil.

Menn hljóta að spyrja sig þeirrar spurningar: Er þetta eðlilegur gangur mála? Á alltaf að fara þá braut að ef atvinnufyrirtækjum gengur illa þá eigi að ganga á annaðhvort sjómenn eða aðra launþega í landinu, hafa af þeim fé úr launaumslögunum, en ef viðkomandi atvinnugreinar ganga vel þá eigi ekkert að gera, þá megi engu breyta? Auðvitað hljóta allir hugsandi menn að spyrja sig slíkra spurninga þegar málum er nú svo komið að vinnudeilan er nánast hrifsuð úr höndum ríkissáttasemjara til þess að geta komið fram lagaboði hér á Alþingi með að banna verkföll. Ég hygg að engin dæmi muni finnast þess að vinnubrögð af því tagi sem hér er nú verið að ræða hafi áður gerst. Í mínum huga er þetta ekki bara slæmt fyrir þessa deilu, þetta er líka slæmt fyrir áframhaldið í samskiptum annars vegar þeirra sem selja sína vinnu og hins vegar þeirra sem kaupa hana, sem aðilar tala nú alltaf um sem aðila vinnumarkaðarins.

Það hvarflaði ekki annað að mér þegar ég heyrði fréttir í gær um að kveðja ætti Alþingi saman til fundar viku fyrr en gert hafði verið ráð fyrir að nú væri hæstv. ríkisstjórn að breyta til, færa í hendur sjómanna aftur það sem af þeim var tekið á sínum tíma með löggjöf. En það er nú ekki aldeilis. Það er nú ekki aldeilis að um slíkt sé að ræða nú. (SvG: Hvernig datt þér þetta í hug?) Já, hv. þm. Svavar Gestsson, mönnum dettur ýmislegt í hug. Og enginn er svo slæmur, hv. þm., að það sé ekki von um að hann geti batnað, enginn er svo slæmur. Og hvað sem segja má um hæstv. ríkisstjórnarráðherra vil ég vona a.m.k. að mönnum hafi ekki yfirsést í þessu tilviki algjörlega og séu til þess tilleiðanlegir að breyta hér um vinnubrögð.

Það er kannske tvennt í þessu máli sem mér finnst að menn þurfi virkilega að gefa gaum að. Það hefur verið svo um langt árabil að löggjafinn hefur yfirleitt gripið inn í eftir mismunandi langan tíma frá því að verkfallsátök hefjast. Það má því segja að hin síðari ár hafi menn verið uppaldir við það að það væri alltaf þriðji aðili sem kæmi til og hyggi á hnútinn. Og ég tek undir með hv. þm. Svavari Gestssyni að þetta hefur í för með sér afar slæm uppeldisáhrif að því er varðar samskipti verkalýðshreyfingar, hvort sem um er að ræða sjómannasamtökin eða aðra, og hins vegar vinnuveitenda að geta í öllum tilvikum nánast gert ráð fyrir því að Alþingi grípi inn í og leysi mál. Hvort sem um er að ræða forustumenn innan vébanda þessara samtaka eða hinn almenna mann í þeim, þá á að ala fólk upp við það að það verði sjálft að axla byrðar af því sem það er að gera, taka ábyrgð, en ekki alltaf að geta gengið fram í þeirri von að aðrir leysi hnútana. Ég er sannfærður um það, tel mig nánast hafa vissu fyrir því, að sjómannasamtökin óska ekki eftir löggjöf. Sú ósk eða sú von hlýtur að hafa komið annars staðar frá á þessu stigi og í þessari deilu. Hvaðan skyldi slíkt hafa komið? (Gripið fram í: Frá Kristjáni Ragnarssyni.) Já, ekki þurfti ég að nefna það. Mönnum er þetta auðheyrilega ljóst fleirum en þeim sem hér stendur í ræðustól. Það er þetta sem er afskaplega slæmt að mínu viti, að menn geti alltaf gert ráð fyrir því að löggjafinn sé reiðubúinn til þess að leysa menn frá ábyrgð, ábyrgð sem þeir eiga sjálfir að bera.

Svona einfalt er nú málið eins og það snýr að mér og ég ætla ekki að fara að lengja mál mitt með talnaflóði sem hægt væri að gera hér að umræðuefni. Meginmálið í þessari deilu eins og svo mörgum deilum áður er það að hér eru menn að virða að vettugi að vinnuseljendur og vinnukaupendur geri frjálsa samninga sem frjálsir menn við samningsborðið. (Gripið fram í: Rétt.) Þetta er meginatriðið, burtséð frá öllum prósentum í kaupi eða öðru sem menn geta endalaust deilt um hver eigi að vera. Þetta er meginatriðið í því sem verður að breyta. Ef menn vilja endilega haga málum með þessum hætti væri nær fyrir þá sem ætla að styðja þetta frv. hér að leggja til að vinnulöggjafarfrumvarpið, vinnulögin væru afnumin. Það væri miklu nær fyrir þá sem stunda þá iðju nánast á þriggja eða fjögurra mánaða fresti hér í landi að banna verkföll með lögum þrátt fyrir þau lagaákvæði um stéttarfélög og vinnudeilur sem heimila þessum aðilum að knýja á um bætt kjör með verkfallsaðgerðum. Þetta er í mínum huga meginmálið sem hlýtur að snúa að öllum sem á annað borð hugsa um þessi mál í alvöru.

Menn hafa dregið hér inn í, kannske undir sumum tilfellum eðlilegar áhyggjur vegna markaðanna í Bandaríkjunum. Í mínum huga er nú svo komið að spurningin er e.t.v. frekar hvort Bandaríkjamarkaðurinn er þjóðinni sem heild til góðs eða hvort það er sölusamtökunum til góðs, hvort ekki þurfi að söðla um og afla markaða annars staðar en þar sem menn hafa hingað til talið að væri mesti gæðaflokkurinn í. En þetta skiptir ekki meginmáli. Meginmálið er viðhorf okkar sjálfra, lífsviðhorf til þess að fá að semja frjálsir við samningaborðið við viðsemjendur okkar, hverjir sem þeir eru á hvaða tíma.

Ég heyrði að hæstv. utanrrh. sagði hér áðan að það væri einkennilegt að alltaf yrði að grípa til löggjafarákvarðana í viðskiptum sjómanna og útgerðarmanna, það yrði að gera það. Hver telur þetta mál í þeirri stöðu nú að það hafi verið ástæða fyrir löggjafann eða ríkisstjórnina að grípa inn í? Hér er nánast um að ræða hnýsni af hæstv. ríkisstjórn að vilja endilega láta halda þannig á málum að löggjafinn ætti að koma til. Hér hefur það verið rifjað upp að það liðu þrír klukkutímar frá því að síðasta tilboð kom fram í þessum samningaumræðum þangað til ríkisstjórnin sagði: löggjöf, löggjöf, sagði það opinberlega en var búin að láta í það skína áður. Þetta eru engir mannasiðir að haga sér með þessum hætti. Þetta er brot á eðlilegum samskiptum manna í kjaradeilu. Menn geta deilt um kröfur í þessa eða hina áttina, hvaða aðili sem þar á hlut að máli, en þetta er brot á eðlilegum samskiptum manna í millum að því er varðar samskiptin um afraksturinn, þeirra sem eru að selja sína vinnu og hinna sem eru að kaupa hana.

Hæstv. forsrh. var hér að læða því inn, ja ég segi að læða, kannske er það rétt, að hæstv. ríkisstjórn hefði fallist á tillögu hæstv. samgrh. um það að taka nú farmennina með fyrst verið væri að þessu, eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan, að hengja þá í leiðinni, held ég að hv. þm. hafi orðað það, á þennan bás. Sem sagt, hv. þm. Sjálfstfl., þetta er að því er hæstv. forsrh. segir gert að tillögu sjálfstæðisþingmannsins, sjálfstæðisráðherrans, hæstv. samgrh. Þetta eru skeyti frá Framsfl. til þm. Sjálfstfl. í þessum efnum. En hver skyldi hafa komið með tillöguna að því er varðar fiskimennina, að það mál færi í gerðardóm? (Gripið fram í: Kristján Ragnarsson.) Ekki er nú svo langt gengið að sá maður sé kominn í hæstv. ríkisstjórn en trúlega á hann talsmenn þar. Ætli frv. sem við hér um ræðum, án þess að hæstv. forsrh. léti þess neitt getið, ætli það sé ekki frá hæstv. sjútvrh.? Ætli upptökin eigi sér ekki stað þar þó menn tali ekkert um það upphátt? Slíkt skyldi nú ekki vera? Slíkt skyldi nú ekki vera að fiskimenn og farmenn væru í þessu frv. leiddir saman af hæstv. samgrh. og hæstv. sjútvrh.?

Herra forseti. Ég held að ég hafi komið meginefni þess sem ég vildi segja á framfæri í þessari umræðu og það er í mínum huga svo alvarlegt að ég skora á hv. þm., burtséð frá pólitískum flokkadráttum eða pólitískum viðhorfum til stjórnmálaflokka, ég skora á hv. þm. að skoða þetta mál í ljósi þess sem hefur verið að gerast. (GHelg: Þeir þurfa þess ekki.) Ég efa það ekki að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur meðtekið þetta, hafi það ekki verið fyrir. (GHelg: Svo sannarlega.)

Mér var afhent hér frammi áðan ályktun frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands sein ég tel ástæðu til að koma hér inn í umræðuna því að ég a.m.k. lít svo á að ekki sé farið fram á stóra hluti í þessari ályktun. Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, lesa þessa ályktun. Þetta er til forseta sameinaðs Alþingis, Alþingishúsinu við Austurvöll, Reykjavík.

„Almennur fundur yfirmanna innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldinn í Borgartúni 18, Reykjavík, 13. jan. 1987, mótmælir fyrirhugaðri lagasetningu Alþingis um kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Jafnframt skorar fundurinn á Alþingi að skipa nú þegar þrjá alþm. í sáttanefnd til aðstoðar við lausn deilunnar. Deiluaðilum og sáttanefnd verði gefinn frestur út vikuna til þess að ljúka málinu með sátt.“

Er til of mikils mælst að hæstv. ríkisstjórn brjóti nú odd af sínu oflæti að því er varðar samskipti við launþega í þessu landi með því að fara að þeim tilmælum sem hér eru fram borin? Eða er hæstv. ríkisstjórn svo mikið í mun að koma fram þessu frv. í takt við aðra löggjöf sem hún hefur beitt sér fyrir hér á Alþingi til þess nánast að klekkja á launafólki? Er mönnum virkilega svo mikið í mun að knýja þetta í gegnum þingið með offorsi? Og þegar ég tala um offors þá á ég við það að menn séu að gera þetta á einum eða tveimur sólarhringum hér með næturfundum og öðru. Er þetta þess virði að ganga svona gegn eðlilegum og réttsýnum sjónarmiðum launafólks í þessu landi?

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og ég skora á sjávarútvegsnefndir beggja deilda Alþingis að taka þetta upp í sína tillögu til þingsins. Það er ekki farið fram á annað en að gefinn verði frestur í eina viku til þess að menn fái tækifæri til að ná þessum endum saman sem ég er handviss um að er ekkert víðs fjarri að er hægt að ná saman ef eðlilegur tími gefst til. Vilja menn endilega standa í þessu? Hæstv. ríkisstjórn virðist vilja það. En er ekki ástæða til þess að ætla að öðrum hv. alþm. takist að koma viti fyrir hæstv. ráðherra í þessu efni?