22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

53. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki og ætlaði raunar ekki að hafa nein orð um efni þessa frv. sem hér er á dagskrá. Eins og segir í grg. er það nú flutt í fjórða sinn og ég er meðflm. Við Kvennalistakonur höfum ítrekað afstöðu okkar með þátttöku í umræðum um þetta mál í öli þau skipti sem það hefur verið til umræðu og þarf ekki við það að bæta.

En hv. 1. flm. minntist á tillögu okkar Kvennalistakvenna, 11. mál þingsins á þskj. 11, till. til þál. um endurmat á störfum kvenna, og heyrðist mér hún andvíg því að hefðbundin kvennastörf væru tekin út úr á þann hátt sem þar er lagt til. Það má vitanlega ræða betur þegar þetta þingmál verður á dagskrá. En ég verð að segja að ég skil ekki fyllilega þær athugasemdir sem ég þóttist heyra frá hv. þm., sem hefur einmitt mjög látið til sín taka það óréttlæti sem konur hafa búið við og búa við á vinnumarkaðnum. Hún hefur sjálf séð ástæðu til að taka þann þátt sérstaklega út úr sem lýtur að kynbundnu misrétti á vinnumarkaðnum og ég sé ekki eðlismun á því hvort það er gert sem liður í þingmáli, eins og í því frv. sem hér um ræðir, eða hvort það er gert á þann hátt sem við leggjum til á þskj. 11. Vitaskuld eru karlmenn einnig í láglaunahópunum, en eins og hv. þm. og sú sem hér stendur hafa báðar margsinnis bent á, þá eru konur fjölmennari í láglaunahópunum. Og það er okkar mat, og við erum áreiðanlega sammála um það, að í launamálum hallar sérstaklega á konur og þess vegna höfum við séð ástæðu til þess að taka það mál sérstaklega út úr. Þetta minnir kannske örlítið á það mál sem var hér til umræðu áðan, þar sem tekinn var einn þáttur út úr öðru stærra máli. En þetta mál verður á dagskrá þingsins síðar og þá getum við rætt þetta betur.