13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umræður mikið, enda hefur ekkert komið fram í ræðum stjórnarandstæðinga sem vekur á nokkurn máta undrun mína. Þar var allt eins og ég gerði ráð fyrir. Stjórnarandstæðingar hafa ekki lýst stuðningi við þær aðgerðir sem hér er um að ræða og ég átti alls ekki von á því. Þeir hafa flutt hér ágætar ræður um mikilvægi sjömanna og rétt þeirra til betri kjara. Undir það get ég út af fyrir sig mjög vel tekið og væntanlega kemur það að lokum út úr því sem hér er um að ræða.

En þeir hafa gert lítið úr meginforsendum ríkisstjórnarinnar fyrir flutningi þessa máls, þ.e. birgðastöðunni í Bandaríkjunum. Ég átti heldur ekki von á því að þeir tækju þær röksemdir góðar og gildar. Ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir því að ef veruleg vandræði hefðu hlotist af í Bandaríkjunum í sambandi við birgðastöðu og markaðshlutdeild okkar þar hefði verið deilt á ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki gripið fram í. Reyndar kom það fram hjá hv. síðasta ræðumanni að ríkisstjórnin hefði fyrr mátt láta til sín taka í þeim málum.

Hv. þm. Svavar Gestsson taldi að staða samninganna hefði alls ekki verið komin í þau þrot sem við höfum látið í veðri vaka. Ég vil geta þess í því sambandi, að þegar málið kom loks inn á borð ríkisstjórnarinnar í gær átti ég fund ásamt sjútvrh. og utanrrh. fyrir hönd samgrh. með deiluaðilum í sjómannaverkfallinu og annar slíkur fundur var haldinn fyrir hádegi í dag. Ekkert kom fram á þeim fundum sem gaf tilefni til bjartsýni um lausn á þessari deilu, því miður. Ég vil einnig láta það koma fram hér að á þeim fundum lögðum við áherslu á að við vonuðumst til þess að deiluaðilar ræddust við áfram meðan þetta mál er til meðferðar á hinu háa Alþingi og, ef það yrði samþykkt þar, þá jafnvel eftir það, því að það er svo sannarlega von okkar að þessi deila leysist án þess að til úrskurðar sérstaks kjaradóms þurfi að koma.

Hv. þm. hélt því fram að viðræðum hefði verið slitið að ósk ríkisstjórnarinnar. Þetta er alrangt. Þvert á móti hafa þeir ráðherrar sem með þetta mál hafa farið og einnig hef ég lýst þeirri skoðun við sáttasemjara að viðræðum bæri að halda áfram til þrautar og við mundum ekki grípa til lagasetningar fyrr en hann sjálfur teldi að vonlaust væri að halda málinu áfram, a.m.k. í bráð.

Ég lýsti því fyrr í framsögu minni að afskipti ríkisstjórnar af þessu máli urðu ekki fyrr en s.l. fimmtudag. Reyndar kom það fram í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar eða ég skildi hann svo að hann teldi að þau afskipti hefðu komið nokkuð seint. En það er ekki stefna þessarar ríkisstjórnar að hafa afskipti af kjaradeilu fyrr en í vandræði væri komið.

Hv. þm. Svavar Gestsson taldi ekkert nýtt hafa komið fram í því sem ég upplýsti um birgðastöðuna. Hann upplýsti að birgðastaða í Bandaríkjunum hefur farið versnandi frá því í nóvember. Það er hárrétt. Hún hefur gert það. Það eina sem ég sagði um það í raun var að birgðastaðan þar er nú orðin svo slæm, svo tæp, að ef menn vilja halda markaðshlutdeild okkar þar sterkri er teflt á tæpasta vaðið. Þetta er staðreyndin.

Það var miklu heiðarlegra sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni. Hann lýsti efasemdum um það hvort ætti að leggja áherslu á Bandaríkjamarkað. Það er spurning sem kannske er vert að Íslendingar velti fyrir sér, en ég tel að ákvörðun um það verði að takast á annan máta en að markaðshlutdeild okkar verði stórlega skert með vinnudeilu.

Það má vel vera að rétt sé fyrir okkur Íslendinga að selja fremur fisk á Evrópumarkaði og vitanlega er flutningur fisks þangað meginástæðan fyrir því að markaðshlutdeild okkar í Bandaríkjunum hefur minnkað upp á síðkastið. Við megum þó ekki gleyma því að Bandaríkjamarkaður hefur verið haldreipið í mörg ár í okkar fiskframleiðslu. A.m.k. er ég ekki tilbúinn að taka ábyrgð á því að glata því haldreipi og þeim grundvelli með vinnudeilu og endurtek það sem ég sagði áðan: Það þarf að skoðast miklu skipulegar og betur áður en sú ákvörðun er tekin. Þetta er ómótmælanlega ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin flytur þetta mál hvernig markaðshlutdeild okkar í Bandaríkjunum er að mati ríkisstjórnarinnar eftir að rætt hefur verið ítarlega um það mál við söluaðila okkar í Bandaríkjunum. Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin ákvað að flytja þetta mál og kalla Alþingi saman fyrr en gert var ráð fyrir.

Um það hefur verið rætt hér að frjálsir samningar séu að verða nánast undantekning. Ég mótmæli því. Það er hárrétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að ríkisstjórnin greip fram í þessi mál hinn 27. maí 1983 með brbl. Ég vil hins vegar leyfa mér að halda því fram að þá hafi verið mjög mikil nauðsyn til þess. Þá stefndi verðbólga í 130% eða meira og að sjálfsögðu er það inngrip meginástæðan fyrir því að verðbólga er nú komin niður í um það bil 10% og ætla mætti að unnt sé að ná jafnvægi í efnahagsmálum þessarar þjóðar. Mér þykir undarlegt, ef þm. telja það þó ekki töluverðan vinning um leið og þeir áfellast ríkisstjórnina fyrir inngrip í kjaradeilur og efnahagsmál.

Ég endurtek það, sem ég hef sagt, að að sjálfsögðu verður slíkt að vera undantekning, en ég hvika ekki frá því að ríkisstjórn a.m.k. verður að hafa miklu víðtækari hagsmuni í huga og í sumum tilfellum kann að vera nauðsynlegt að víkja hagsmunum til hliðar fyrir þjóðarhag. Ég hvika heldur ekki frá því, af því að minnst var á inngripið 1983, að þá hafi svo verið og hafi stefnt í það óefni í hinu íslenska efnahagslífi að menn geti ekki séð fyrir endann á því. Hér er ekki um að ræða inngrip af þeirri ástæðu. Hv. þm. Guðmundur Einarsson, sem nýlega er kominn frá því að brjóta múrinn, flutti skemmtilega ræðu um ástæður til inngrips. Ég hef lýst því að hér er um að ræða markaðsstöðuna í Bandaríkjunum. Menn geta að sjálfsögðu deilt um hve mikilvæg sú markaðsstaða er. Ríkisstjórnin telur þá markaði ákaflega mikilvæga, bæði fyrir þjóðarbúið, fyrir sjómenn, fyrir útgerðarmenn og fiskvinnsluna.

Hv. þm. Svavar Gestsson varpaði fram fáeinum spurningum. Hann spurði: Hvaða tillit verður tekið til sjónarmiða sjómanna? Í athugasemdum við 2. gr. frv. kemur að sjálfsögðu fram, og reyndar í greininni sjálfri sem og í framsöguræðu minni, að ætlast er til þess að hinn sérstaki kjaradómur taki tillit til allra þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið, taki tillit til þess að sjálfsögðu sem um hefur samist eða nálgast að samningar næðust um og liggur fyrir hjá sáttasemjara, og sömuleiðis til þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram hjá báðum aðilum, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum, bæði um hlutaskiptin og fleira sem hefur verið til umræðu í þessu sambandi.

Þar sem hv. þm. rakti allítarlega stöðu samninganna er kannske rétt að láta það koma hér fram að enn standa út af önnur atriði en hér hefur verið minnst á, eins og t.d. samningar um vinnu um borð í frystitogurum og stórum togurum. Það eru tæknileg atriði sem mér er tjáð að varla hafi verið nefnd í þessari samningalotu. En það er rétt hjá hv. þm. og kom einnig fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að sem betur fer hefur um ýmis atriði nálgast mjög samkomulag.

Ég sá út af fyrir sig ekki margt hjá öðrum hv. þm. sem ég hef þá ekki annaðhvort komið inn á eða þarf að ræða. Ekki var um aðrar beinar spurningar að ræða. Ég endurtek það og legg áherslu á að ekki er verið að leggja fram frv. til þess að skerða kjör sjómanna. Menn geta deilt um það hvernig þau hafa þróast á undanförnum árum. Menn geta deilt um þá niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar sem ég lagði fram áðan um bætt kjör sjómanna í samningum á síðasta ári sem Þjóðhagsstofnun metur sem ígildi 7% í hlutaskiptum af heildarverði. En ég held að óumdeilanlegt sé að nokkuð af því sem sjómenn urðu að þola meðan olíuverðið var hæst hefur náðst til baka. Ég get líka tekið undir það að hagur útgerðar er nú slíkur að ég hefði vonast til þess að útgerð féllist á að mætast einhvers staðar á miðri leið.

Af því að minnst var á það áðan af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að sjómenn hefðu gefið eftir 1983, þá vil ég minna á að það var reyndar gert með bráðabirgðalögum þá og hefur verið til umræðu í samningum síðan og reyndar verið deilt á ríkisstjórnina fyrir að hafa sett þau bráðabirgðalög árið 1983 til aðstoðar við útgerðina í landinu.

Ég vil mótmæla því sem kom fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni að látið hafi verið skína í löggjöf. Það er alrangt. Ekki hefur verið tekið á nokkurn máta undir það að setja löggjöf. Þetta er örugglega misskilningur hjá hv. þm. Og ég vil taka fram að enginn hefur komið að máli við mig um það að setja löggjöf í þessu sambandi.

Það er ekkert óeðlilegt þótt ég vísi til tillagna viðkomandi ráðherra og það er rétt hjá hv. þm.sjútvrh. gerði tillögu til ríkisstjórnarinnar um löggjöf í sjómannadeilunni og að sjálfsögðu hæstv. samgrh. í sambandi við deiluna á kaupskipunum, enda fara þessir hæstv. ráðherrar með þau mál. Þess vegna fól ríkisstjórnin þessum ráðherrum að fylgjast með málinu fyrir hennar hönd og m.a. eftir að sáttasemjari óskaði eftir því að ríkisstjórnin beitti áhrifum sínum til þess að togarinn Hafþór sigldi til lands.

Í sambandi við frávísunartillöguna sem hér er lögð fram vil ég segja að í henni kemur að því sem ég fæ best séð ekkert nýtt fram. Ég tel þar engin rök sem mæla með því að þessu máli verði vísað frá. Ég hef ekki lagt áherslu á að flýta þessu máli í gegnum þingið með einhverju offorsi, það er rangt. Ég minntist ekki á slíkt í minni framsöguræðu. Reyndar sagði hv. þm. Svavar Gestsson í sinni ræðu áðan að þótt ekki bæri að flýta þessu máli óeðlilega í gegnum þingið, og ég tek undir það með honum, þá væri heldur ekkert unnið við það að sitja yfir því lengi og ég tek einnig undir það.

Ég vil einnig láta það koma fram með tilvísun til þess sem ég sagði áðan um fundi ríkisstjórnarinnar með samningsaðilum að við óskuðum eindregið eftir því að þeir gerðu tilraunir til að ná samkomulagi á meðan meðferð málsins stæði yfir í þinginu. Ég vil einnig láta það koma fram að ég hef rætt oftar en einu sinni við sáttasemjara í dag og óskað eftir því að hann haldi áfram sinni viðleitni og mér er kunnugt um að hann hefur verið með þau mál á sínu borði einnig í dag. Vel má vera að jafnframt komi fram í meðferð hv. þingnefnda á þessu máli að hugur sé eitthvað breyttur frá því sem var þegar við ræddum við deiluaðila og menn sjái núna von til þess að samkomulag muni nást. Ég fagna því fyrstur manna og ekki skal ég þrýsta svo á framgang þessa frv. að ekki fái að reyna á slíkan samningsvilja og hef reyndar þegar látið það í ljós við sáttasemjara. Ég leggst gegn þessari frávísunartillögu og tel engin rök fyrir því að málinu verði vísað frá.

Ég endurtek svo að lokum að ég vonast til þess að sú nefnd, og reyndar nefndirnar saman úr báðum deildum, ræði ítarlega við deiluaðila og kanni vandlega hvort kominn er fram aukinn vilji til samkomulags og láti sáttasemjara að sjálfsögðu fylgjast með því máli. Út af fyrir sig tel ég að enginn skaði sé skeður þótt afgreiðsla málsins taki deginum lengur og að sjálfsögðu mikið unnið ef það verður til þess að samkomulag næst.