13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til viðbótar því sem ég hef hér sagt áður.

Því miður virðast það vera fleiri en Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, sem hafa hugmyndaflug í þá átt sem hv. þm. Svavar Gestsson talaði um. Ég sé ekki betur en að frv. sem hér liggur fyrir sé í anda þess sem forustumenn LÍÚ hafa verið að tala um. Og það eru ráðherrarnir í ríkisstjórninni sem flytja það og það er væntanlega meiri hluti þm. hér á hv. Alþingi, stjórnarliðsins, sem ætlar sér að styðja þetta. Þannig að hugmyndaflugið er víðar en í herbúðum LÍÚ. (SJS: Þeir gætu nú hafa samið frv.) Það má vel vera, hv. þm. Steingrímur Sigfússon, að þeir hafi gert það.

Ég tek mjög undir, og það hlýtur að fást úr því skorið hér við 1. umr. af hæstv. ráðherrum, forsrh., sjútvrh.: Er ríkisstjórnin reiðubúin til þess að fallast á sjónarmið Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um frestun út þessa viku til þess að reyna til þrautar að ná samningum? Ég tek mjög undir það. Og það er náttúrlega fáviska hjá hæstv. forsrh., sem ekki er hér viðstaddur nú, það er auðvitað fáviska að ætla það, eftir að það hefur borið á góma að löggjöf sé yfirvofandi, ég tala nú ekki um eftir að hún er fram komin, frumvarp, að þá séu menn í einhverjum sáttahugleiðingum nema að viðhorf hjá hæstv. ríkisstjórn hafi breyst. Og þau breytast ekki öðruvísi en til þess að t.d. fresta, eins og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands leggur til, út þessa viku afgreiðslu þessa máls og þannig reyna að leggja fram sáttarhönd til eðlilegrar niðurstöðu þessarar deilu. Mér a.m.k. finnst það hart ef ekki er hægt að fá út viðhorf hæstv. ráðherra til þessarar tillögu Farmanna- og fiskimannasambandsins.

Ég held að hæstv. forsrh. hafi tekið skakkt eftir ef honum hefur heyrst hv. þm. Pétur Sigurðsson vera að tala um markaðsmálin, ég held að það hafi verið ég sem rifjaði einmitt upp að það væri orðin spurning hvort þjóðarheildin hefði svo mjög gott af því að einblína einvörðungu á Bandaríkjamarkað í þessum efnum, hvort það ætti ekki að fara að líta til annarra átta frekar en gert hefur verið. (Gripið fram í: Það er sama hvaðan gott kemur.) Það er út af fyrir sig rétt, hv. þm., en það væri ástæða að hæstv. ráðherra tæki oftar tillit til þeirra hluta sein góðir eru, sama úr hvaða átt það kann að vera.

Enn er eitt í þessu, ég legg mikla áherslu á það að hér eru menn ekki að leysa deilu með þessu frv., hér eru menn að fresta vandanum. Það þarf enginn mér að segja að sjómenn leggi árar í bát þó hér komi fram frv. frá hæstv. ríkisstjórn og þó það yrði að lögum. Hér eru menn bara að fresta þeim vanda sem við blasir til einhvers tiltekins tíma og það er eitt af meginmálum í þessu efni. Það er ekki verið að leysa þetta mál, það er verið að fresta því með þá hugsanlega löggjöf.

Ég held að það væri öllum fyrir bestu að hæstv. ríkisstjórn dragi nú að sér hendur í þessum efnum og fari að tillógum Farmanna- og fiskimannasambandsins. Eða er það virkilega vonlaust að meiri hluti hér á Alþingi með hæstv. ríkisstjórn í broddi fylkingar taki eðlilegt tillit til staðreynda í máli sem þessu? Ég vil ekki trúa því. Þó maður hafi nú ekki reynt margt gott af hæstv. ríkisstjórn þá vil ég ekki trúa því að menn séu svo forstokkaðir að menn hugleiði ekki í hversu miklum vanda menn eru hér, að teyma deiluna í þá átt sem hér er verið að gera af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég ítreka því spurninguna til hæstv. forsrh.: Vill ríkisstjórnin fara að tillögu Farmanna- og fiskimannasambandsins um að fresta þessu mali út þessa viku og reyna til þrautar að ná sáttum?

En eigum við að líta aðeins á frv. sem við höfum í höndum? Hæstv. forsrh. segir að hann vilji að þetta eða hitt gerist að því er varðar ákvörðun í kjaramálum sjómanna. En hvað segir í frv.? Það segir í 2. gr. eftir að búið er að tala um tilnefningu í kjaradóm, með leyfi forseta:

„Kjaradómur skv. 1. gr. skal við ákvörðun kaups og kjara sjómanna á fiskiskipum m.a. hafa hliðsjón af eftirfarandi: - og taki menn nú eftir - „a) Þeim atriðum sem samkomulag hefur orðið um á sáttastigi málsins milli sjómanna og útvegsmanna.“ Hafa hliðsjón af þessu í hvaða átt? Hver getur sagt um það? „b) Síðast gildandi kjarasamningum sjómanna á fiskiskipum“, þ.e. þeim samningum sem menn sögðu upp og eru komnir í verkfall út af. Í hvaða átt þá? Til hækkunar eða lækkunar á kostnaðarhlutdeild? Ekkert vita menn um hver er vilji hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum sem leggur frv. fram. „c) Þeim sjónarmiðum sem á sáttastigi málsins hafa komið fram frá aðilum.“

Hér eru menn ekki að leggja neitt sérstaklega jákvætt til mála til kjarabóta sjómanna í þessari deilu. Menn eru í þessu frv., að mínu viti, meira og minna að draga taum Landssambands ísl. útvegsmanna, útgerðarmannanna sjálfra. Og ég er ekki hissa þó að sjómönnum búi uggur í brjósti að hugsa til framtíðarinnar, þ.e. - og það er stóra spurningin - ef svo kynni að fara, sem enginn gerir ráð fyrir, að núv. hæstv. ríkisstjórn verði við völd að loknum komandi kosningum.

Í síðasta lagi bið ég menn að skoða 3. gr. frv. með mér, 2. málsgr. Þar segir, með leyfi forseta: „Ákvæði I. kafla laga þessara eru undanþæg“, þ.e. menn þurfa ekkert að fara eftir þeim eða hvað? Ef stéttarfélög sjómanna og samtök útvegsmanna geta í kjarasamningum kveðið á um aðra skipan geta menn virt lögin að vettugi, ef menn eru sammála um að hirða ekkert um þau.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri Sigurðssyni og raunar fleirum sem hér hafa talað í dag. Það er nánast hrákasmíð á ferðinni í þessu frv. Hér flaustrast menn til þess að setja á blað hugmyndir sem að mínu viti eru fyrst og fremst til að toga í fyrir annan aðilann gegn hinum, toga í gegn sjómönnum með hinum aðilanum.

Ég vil svo í lokin, herra forseti, spyrjast fyrir um hver meining er með vinnubrögðin áfram í þessu máli, hvort meiningin er að menn haldi áfram umræðu og nefndarstörfum á þessum sólarhring og kannske fram eftir nóttu, hvort svo mikið liggur við að knýja þetta fram að menn ætli að nota nótt sem dag til að koma málinu frá eða hver meining manna er í þeim efnum. (GJG: Sjómenn þurfa líka að leggja nótt við dag.) Það er út af fyrir sig rétt. En hvað segja lög sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson var ekki hvað síst í fararbroddi fyrir að yrðu samþykkt um hvíldartíma? Menn höggva nú nærri sjálfum sér í þessum efnum og hafa gert það að vísu áður, höggvið í eigin fylkingar. (JBH: En vökulögin?) Og síst skyldi það gerast af manni eins og hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni sem hæstv. utanrrh. taldi ástæðu til að hæla áðan fyrir góða hegðan í samningum, fyrir góða hegðan í framgöngu á samningum. Hæstv. utanrrh.! Já, ég held að það sé rétt fyrir hv. þm. að skrifa.

Nei, auðvitað mótmælum við því að hér verði vinnubrögðum hagað á þann hátt að knýja þetta fram á næturfundum. Menn verða að taka eðlilegan tíma til að ræða þetta mál til þess að láta á það reyna hvort hæstv. ríkisstjórn vill gera það skynsamlegasta úr því sem komið er í þessu máli og fara að tillögum Farmanna- og fiskimannasambandsins.