14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Margumræddur samningur um flutninga fyrir Bandaríkjaher hér á landi, Rainbow-samningurinn eins og hann oftast hefur verið kallaður, er nú kominn til kasta Alþingis. Þegar samningur þessi var fullbúinn og frágenginn af utanríkisráðherrum landanna heyrðum við þá frétt að hæstv. utanrrh. teldi ekki ástæðu til að samningurinn yrði lagður fyrir Alþingi til staðfestingar. Ég hefði talið það með öllu óviðunandi og óeðlilega málsmeðferð og mótmælti því þá þegar og ríkisstj. tók þá ákvörðun að leggja samninginn hér fyrir þingið og það er vel að sú varð niðurstaðan. Það hafa oft verið gerðir samningar sem minna máli skipta sem leitað hefur verið staðfestingar Alþingis á og það hefði verið einkennilegt skref ef samningur af þessu tagi hefði ekki verið lagður fyrir Alþingi.

Hér er um að ræða samning sem varðar fjárhagslega hagsmuni, verulega fjármuni að því er okkur er sagt, mola af borðum Bandaríkjahers og þess fjármagns sem er í veltu í sambandi við dvöl hans hér. Við heyrðum það í fyrravetur, þegar hæstv. utanrrh. gaf hér skýrslu til Alþingis, að hann ætlaði að berjast hart fyrir því að fá lyktir í þetta mál. Hér væri um að ræða stórt mál sem þyrfti að fá botn í. Og það er ekki í fyrsta sinn sem við heyrum það hjá núverandi stjórnvöldum að þegar dollarar eru í boði í sambandi við dvöl Bandaríkjahers hér er mikið í húfi. Þá skiptir miklu að fá botn í hlutina og láta nú ekki hlunnfara sig. Þá hnyklar hæstv. utanrrh. brúnir og þá sameinast hugur og hjarta hermangara jafnt innan Sjálfstfl. sem Framsfl. sem telja sig eiga að gæta hagsmuna fyrirtækja hér, eins og Eimskips eða skipadeildar Sambandsins. Þá skulu helmingaskiptin vera tryggð og það skal jafnvel gefið í skyn, þó að ekki sé það játað opinberlega, að aðstaða Bandaríkjamanna hér sé ekki sú tryggasta, sé ekki gulltryggð ef dollararnir fylgi ekki með.

Einu sinni var forusta í Sjálfstfl. hér á landi sem virtist vera eitthvað öðruvísi þenkjandi, a.m.k. hluti hennar. Við heyrðum það hér fyrr á árum að varað væri við því af ráðandi mönnum í Sjálfstfl. að blanda saman svonefndum öryggissjónarmiðum og efnahagslegum hagsmunum. Ég held að við höfum lesið það jafnvel í forustugreinum Morgunblaðsins hér á árum áður. Ég man ekki betur en hæstv. fyrrv. utanrrh. Geir Hallgrímsson hafi sýnt vissa viðleitni til að standa á móti aronskunni í eigin flokki. En það er nú liðin tíð. Og Framsfl. veður nú aronskuna upp í axlir í sambandi við þetta mál og virðist ekkert flökra við því.

En harkan í sambandi við málstað Bandaríkjanna og samskipti við Bandaríkin er ekki alltaf hin sama. Það er svolítið annað uppi á teningnum þegar spurningin stendur um afstöðu Íslands á alþjóðavettvangi í sambandi við afvopnunarmál og hin þýðingarmestu mál sem Alþingi hefur lýst afstöðu sinni til og gert samþykktir um. Þá verður að gæta þess að móðga ekki vinina fyrir vestan. Man nokkur eftir umræðu hér fyrir rösku ári um afstöðu íslenskra stjórnvalda til tillögu sem Svíþjóð, Mexíkó og fleiri ríki fluttu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um afvopnun og frystingu kjarnavopna? Þá sat Ísland eitt Norðurlanda hjá samkvæmt boði íslenska utanrrh. sem Framsfl. lét sér lynda - sat eitt hjá Norðurlanda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Og þegar rætt er um að gera áskorun á stórveldin, risaveldin, um að stöðva tilraunasprengingar með kjarnavopn má Ísland ekki tísta. Þá má Ísland ekkert láta frá sér heyra í þeim efnum. Og muna menn nokkuð eftir afstöðu íslenska hæstv. utanrrh. til stjörnustríðsáætlunar Reagans Bandaríkjaforseta sem flestir eru sammála um að sprengt hafi viðræðurnar hér í Reykjavík og það samkomulag um stórkostlegan niðurskurð kjarnavopna sem þar var í boði og samkomulag var um af beggja hálfu? Muna menn nokkuð eftir afstöðu hæstv. utanrrh. til þessarar áætlunar eins og hún birtist okkur í skýrslu hans og ræðu á fyrra þingi í apríl s.l.? Þar voru dollarar í boði. Í stjörnustríðsáætluninni eru dollarar í boði fyrir alla sem þiggja vilja, bandamenn Bandaríkjanna, enda lýsti hæstv. utanrrh. því þá skriflega yfir í skýrslu sinni að æskilegt væri fyrir Íslendinga að gerast þátttakendur í þessari stjörnustríðsáætlun, gerast þátttakendur í geimvopnaáætlun Bandaríkjanna. Og við eigum sennilega eftir að sjá hann berjast fyrir þessum hugsjónum sínum hér á þingi í vetur því að dollararnir eru þarna í boði, þeir liggja þarna. 30 milljarðar dollara næstu fimm árin eru tengdir þessari stjörnustríðsáætlun. Það munar um minna og þó ekki væri nema eitthvert lítið brot.

Málsmeðferðin í sambandi við þetta mál er svo kafli út af fyrir sig. Ég hefði talið eðlilegt og við í Alþb., miðað við stöðuna í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna eins og hún hefur þróast á undanförnum árum og misserum, þeim yfirgangi og hroka sem oft hefur birst að undanförnu í þessum samskiptum og með tilliti til stöðu mála á alþjóðavettvangi, að við hefðum gengið hreint til verks og krafist endurskoðunar á öllum samskiptum landanna, sett fram kröfu um endurskoðun á öllum samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og sagt upp herstöðvasamningnum sem gerður var 1951. Og það hafa svo sem heyrst undirtektir frá einstaka aðilum, jafnvel úr hornum sem ekkert hefur heyrst úr lengi, að það sé ástæða til þess a.m.k. að krefjast endurskoðunar þessa samnings. Og ég vona að það séu ekki bara dollararnir sem hreyfi hugsanir manna í þeim efnum og liggi þar að baki hugmyndum um endurskoðun herstöðvasamningsins sem jafnvel ráðandi menn yfir á miðju íslenskra stjórnmála hafa látið frá sér fara að undanförnu. Vonandi ber Alþingi Íslendinga gæfu til þess fyrr en seinna að losa Ísland af þeim klafa sem það var bundið með þessum samningi um herstöðvar og aðstöðu fyrir Bandaríkjaher hérlendis sem færð hefur verið út í áður óþekktum mæli í tíð ríkisstj. sem nú situr.

Herra forseti. Við skulum svo líta aðeins á efnisatriði í þessum samningi sem hér á að staðfesta að tillögu ríkisstj. með þáltill., tengslin við herstöðvasamninginn er ganga eins og rauður þráður þar í gegn, í tillgr. sjálfri, í þáltill. og í einstökum greinum samningsins og þess samkomulags sem honum er tengt. Þegar í þáltill. er vikið að því að samningur þessi sé gerður til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna og þetta er síðan endurtekið í samningnum sjálfum efst á bls. 3 þar sem segir í einum af upptalningarliðum um þennan samning að „aðilar hans viðurkenna að sanngjörn þátttaka skipa beggja landanna í vöruflutningum vegna varnarsamningsins muni treysta samskipti aðilanna og bæta samvinnu á nauðsynlegum sviðum varnarmála.“ Takið eftir orðalaginu. Það er verið að hnýta þennan samning við afstöðuna til þess hvort hér skuli vera her og gefa í skyn að samningurinn treysti samskipti aðilanna á nauðsynlegum sviðum varnarmála. Var, hæstv. utanrrh., kannske talað meira en viðurkennt hefur verið um það að ef dollararnir skiluðu sér ekki til íslenskra skipafélaga skyldi þessum samningi sagt upp? Ég spyr.

Ég bendi líka á að í 1. gr. þessa samnings eru Íslendingar að taka á sig skuldbindingar í sambandi við siglingar fyrir herinn. Það eru ekki bara frjáls viðskipti eins og hæstv. utanrrh. var að tala um hér áðan og er sú fagra hugsjón sem að baki þessum samningi liggur um að tryggja frjáls viðskipti. Nei, Ísland skuldbindur sig til að annast flutninga í þessum efnum. Ísland skal vegna varnarsamningsins taka þarna að sér flutninga, taka að sér skyldur til að annast þá. Þessum markmiðum á að ná með því að Bandaríkin og Ísland komi sér saman um hlutfallsskiptingu farms sem flytja skal sjóleiðis vegna varnarsamningsins. Og það eru nú þau helmingaskipti sem eru þarna milli landanna skv. samningnum, en eftir eru síðan helmingaskiptin hérna innanlands sem gætu orðið dálítið erfið viðureignar þegar farið verður að reyna að útfæra samkomulagið sem þessu fylgir skv. 1. gr. og ég vek athygli hv. þm. á þar sem ýmislegt er nú ófrágengið. En í trausti þess að núverandi stjórnarsamstarf haldi áfram - og það er ekkert sem bendir til annars en blíða sé í öllum samskiptum milli Framsfl. og Sjálfstfl., enda undan engu að kvarta fyrir Sjálfstfl. í þeim samskiptum. Samstarfsaðilinn hefur ekkert verið óþægur að undanförnu, sveigjanlegur og hnoðanlegur í öllum greinum, svo að auðvitað má treysta því að ef þessir flokkar endurheimta þingmeirihluta geti þeir í bróðerni útfært þau helmingaskipti milli hagsmunaaðilanna sem þeir telja sig eiga að standa vörð um hér innanlands og framkvæma samkomulagið og þau ákvæði sem dregin eru fram í 1. gr. þess. En eins og fram hefur komið einnig hjá hæstv. ráðherra er þar ýmislegt sem er óljóst og þarf að taka á alveg sérstaklega eins og þar stendur á bls. 5. Ef áðurnefnt næstlægsta tilboð er frá íslensku skipafélagi og bandarísk stjórnvöld, sem annast samningagerð, telja tilboðið ósanngjarnt skulu aðilar að samkomulagi þessu ráðgast um hvað sé sanngjarnt farmgjald fyrir flutningana. Þá þurfa menn að setjast niður til að ráðgast um hvað sé sanngjarnt, hvað eigi að borga á milli. Þá geta hæstv. utanrrh. og hv. formaður utanrmn. gefið í skyn, þó ekki væri nema í kaffiboðum, að það gæti nú orðið tvísýnt með stöðuna fyrir þetta varnarlið hér á Íslandi nema gengið sé svona þokkalega að íslenskum kröfum í þessum efnum.

Svo er það, herra forseti, 4. gr. í samningnum. Við skulum líta á hana. „Ákvæði samnings þessa og sérhvers samkomulags um framkvæmd hans, sem gert er skv. 1. gr., skulu ganga fyrir ákvæðum hvers kyns eldri ósamrýmanlegra laga eða reglugerða lýðveldisins Íslands eða Bandaríkja Ameríku.“ Ákvæði samningsins skulu ganga fyrir ákvæðum hvers kyns eldri ósamrýmanlegra laga og reglugerða, ekki bara bandarískra heldur einnig íslenskra. Hvaða lög og reglugerðir, hæstv. utanrrh., geta fallið undir þetta ákvæði? Hefur hæstv. utanrrh. og ríkisstj. látið gera úttekt á því hvaða lög og reglugerðir geta verið ósamrýmanleg skv. ákvæðum þessarar 4. gr.? Er kannske verið að víkja þarna úr sessi lögum um varnir gegn búfjársjúkdómum, gin- og klaufaveiki? Er verið að ganga frá deilunni um kjötið í eitt skipti fyrir öll með þessari grein? Að vísu er látið liggja að því í aðfararorðum, greinargerð með þessari þáltill., að þetta varði bara Bandaríkin og lögin frá 1904. En hvaða vissu höfum við fyrir því skv. orðalagi þessarar greinar og þessa samnings? Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari því hvort slík úttekt hefur farið fram, hvort atriði eins og ákvæði um gin- og klaufaveiki komi hér inn í sem eitt af því sem víki skv. ákvæðum þessarar greinar.

Það hefur komið fram, herra forseti, að Rainbow-skipafélagið lagðist ekki gegn þessu samkomulagi og lýsti því jafnframt yfir að hagsmunir þess væru tryggðir. Það hefði enga ástæðu til þess að vera að amast við þessu samkomulagi því að hagsmunir þess væru tryggðir. Með hvaða hætti eru hagsmunir Rainbow-skipafélagsins tryggðir, hæstv. utanrrh.? Hversu stórar fúlgur hafa farið þarna á milli sem trygging til Rainbow-skipafélagsins frá bandarískum stjórnvöldum til þess að unnt sé að gera þetta samkomulag og þennan samning sem hér er lagt til að verði staðfestur, þær milligreiðslur - stundum er það kallað mútur - sem þar hafa gengið á milli til þess að tryggja þessum samningi hraðferð í gegnum Bandaríkjaþing? Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. geti upplýst okkur eitthvað um það efni. Kannske segir hæstv. utanrrh.: Þetta kemur okkur ekkert við, þetta snertir okkur ekki. Þetta er bara bandarískt mál. En ætli málið sé alveg svo einfalt?

Þessi aðili sem skv. samkomulaginu getur náð 2/3 af flutningunum fyrir varnarliðið á Íslandi, svokallað varnarlið, telur sig í engu bera skarðan hlut vegna þessa samnings. En í krafti flutninganna hingað hefur hann aðstöðu til þess að bjóða í aðra flutninga til landsins og flutninga frá landinu og keppa þar við íslensk skipafélög um slíkt. Mér sýnist ekkert fráleitt að álykta að staða Rainbow-skipafélagsins eða annarra aðila bandarískra, sem kæmu til með að annast flutninga fyrir herinn hér, batnaði og möguleikar þeirra á að ná öðrum flutningum til og frá landinu. Er nokkuð sem kemur í veg fyrir, hæstv. utanrrh., að svo geti farið?

Og hvernig er það með flutningana sjálfa og uppskipunina, hæstv. utanrrh.? Hvar verður vörum framvegis skipað upp fyrir herstöðina í Keflavík? Ég hygg að býsna mikið hafi farið í gegnum höfnina í Njarðvík. Er hugsanlegt að flutningar fyrir herinn færist frá Njarðvíkurhöfn yfir á Reykjavíkurhöfn? Er slíkt samkvæmt ákvæðum þess samnings sem hér er gerður eða líkur á því að sú verði þróun mála í framhaldinu?

Nei, það eru sannarlega margar spurningar sem vakna við þessa samningsgerð. En það sem er óhuggulegt við hana er sú auðhyggja sem á bak við liggur og sú hugsun að tengja herinn hér og dvöl erlends hers í landinu fastar en orðið er við efnahagslega hagsmuni á Íslandi, efnahagslega hagsmuni íslenskra aðila. Við getum talið óeðlilegt að Bandaríkin séu með einokunarlög og séu með lög sem grípi inn í aðstöðu annarra ríkja. Við höfum lýst andúð okkar á slíku, t.d. í sambandi við hvalveiðar og gerum það vissulega. Þetta er allt annað mál sem hér er á ferðinni. Hvert er viðhorf hæstv. utanrrh. til þess að Íslendingar verði í vaxandi mæli háðir dvöl erlends hers í landinu, efnahagslega?

Alþb. hefur verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar að það sé óæskilegt á meðan erlendur her er í landinu að hann tengist íslensku efnahagslífi, hvað þá að hann tengist íslensku efnahagslífi fastar en verið hefur og að þjóðin geti ekki gert það upp við sig með góðri samvisku hvort hún telji ástæðu til þess að hér sé erlent herlið eða ekki án þess að svarinu við þeirri spurningu tengist meiri og minni efnahagslegir hagsmunir sem hafi áhrif á niðurstöðuna.

Ég tel, herra forseti, að afstaða mín til þessarar tillögu sem hér liggur fyrir sé ljós. Ég er andsnúinn henni og þeim anda sem hún er borin fram í og þeirri stefnu sem á bak við liggur. Ég hef aðstöðu til þess í utanrmn. að fjalla um tillöguna og sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar.