22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

53. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég er einn af meðflytjendum þessa frv. og það skal nú játað að það er meira af gömlum vana heldur en að hugur fylgi raunverulega máli lengur. Ég held að hv. þm. ættu að flykkjast í salinn og við ættum að taka smásyrpu um launamálin í landinu því að sannleikurinn er sá að þetta þjóðfélag er í skötulíki. Mér finnst það satt að segja mikið hjartaleysi af hv. 1. flytjanda þessa frv. að fara að blanda hæstv. menntmrh. í það.

Ríkisstjórnin hefur aldrei bætt laun fólksins í landinu. Það hefur aldrei neinn gert nema verkalýðshreyfingin, samtök fólksins sjálfs, a.m.k. lengi vel. En hvort tveggja er að þjóðfélagið hefur breyst ærið mikið á síðustu áratugum og enn meira hefur verkalýðshreyfingin breyst og þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég held að nýafstaðin rannsókn kjararannsóknarnefndar sýni svo að ekki verði um villst eymd vinnandi fólks í þessu landi sem nennir ekki lengur, hirðir ekki lengur um, að svara spurningum um sín eigin kjör. Það lætur vinnuveitendum það eftir.

Ég held að það standi upp á verkalýðshreyfinguna að athuga sinn gang. Eftir því sem þjóðfélagið breyttist og verkalýðsbaráttan hætti að vera fagleg - því að hún á að vera beint fagleg. Auðvitað er hún pólitísk í eðli sínu en hún á að vera pólitísk óbeint. Þegar farið er að rugla þessu tvennu saman, þá fer allt í vitleysu. Og þetta upphófst með því að í staðinn fyrir að berjast fyrir sæmilegu tímakaupi, sæmilegum daglaunum, var farið að leita allra annarra ráða og bragða einstakra hópa til þess að fólk gæti yfirleitt skrimt.

Í töflum um afkomu manna hefur þróunin orðið þessi: Lengi vel var talað um kaupmátt tímakaups. Síðan var farið að tala um kaupmátt daglauna sem fól þá í sér eftirvinnu, næturvinnu og helgarvinnu og allt hvað heita hefur. Og loksins þegar allt um þraut og launin lækkuðu í sífellu, þá var farið að tala um ráðstöfunartekjur heimilanna, þegar tvær manneskjur voru farnar að vinna fyrir einum launum eins og gerst hefur. Þetta hefur verkalýðshreyfingin látið yfir sig ganga og er bara að vasast í einhverju allt öðru en hún á að vera að vasast í. Og hver er árangurinn? BSRB er að liðast í sundur. Kennarar gripu til þeirra örþrifaráða að ímynda sér að þeir fengju betri samninga með því að yfirgefa sín eigin samtök, heildarsamtök. Þetta á eftir að gerast innan ASÍ líka, auðvitað. Og auðvitað er heldur ekkert að marka neina taxta sem þeir eru að tala um.

Þjóðin stendur á öndinni í hvert skipti sem hv. alþm. fá launahækkun, þessir voðalegu menn, sem einir manna í landinu mega helst ekki fá launahækkun, þjóðin stendur á öndinni yfir því í hvert skipti. En þegar svo er farið að kanna hver laun manna í þessu þjóðfélagi eru, þá eru laun alþm. ekkert til að láta líða yfir sig út af. Við skulum bara athuga hvað ýmsar aðrar stéttir hafa, svo sem eins og prentarar, að ég nú ekki tali um allan mannskapinn í auglýsingaiðnaðinum. Og vitaskuld réði enginn miðlungsframkvæmdastjóra fyrir nokkru fyrirtæki fyrir alþingismannslaun, það vitum við öll, o.s.frv. Svo segja menn endalaust: Það verður að hækka lægstu launin. Þessi endalausa klisja um lægstu og hæstu laun! Sannleikurinn er sá að það eru öll laun í þessu landi lág og af þessum lágu launum eru skattarnir eingöngu borgaðir. Þessir með háu launin borga nefnilega ekki skatta. Þannig að ég held að það væri tími til kominn að reyna að fara að tala um þessi mál af einhverju skynsamlegu viti. Þetta er ekki bara peningalegt atriði, ekki aðeins það. Þetta varðar líf fólksins í landinu.

Þann stutta tíma sem þetta þing hefur setið hef ég áður haldið hér ræðu um ástandið í málefnum barna í landinu, hvernig verið er að fara með þessi börn, sem sjá ekki lengur foreldra sína, kunna varla að tala þegar þau koma í skóla vegna þess að það hefur aldrei nokkur maður mátt vera að því að tala við þau og lítið verið gert til þess að búa þeim rými á sómasamlegum uppeldisstofnunum á meðan foreldrarnir eru þrælkaðir miklu lengur en sögur fara af í nálægum löndum. Og hvernig hefur verkalýðshreyfingin t.d. brugðist við því? Jú, hún hefur jagast um hvort vinni merkari störf, kennarar, fóstrur eða fiskvinnslufólk. Ó já. Sumir hafa talað í þá veru hér í þingsölum.

Sannleikurinn er sá að þetta er fráleitt. Auðvitað er þetta fólk allt jafngagnlegir starfsmenn og ekki síður þeir sem eru að ala upp nýja þjóð, nýja kynslóð. Og ég er ansi hrædd um að hæstv. menntmrh. komist skammt í baráttu sinni fyrir vernd og eflingu íslenskrar menningar ef hann hefur ekki börnin með í þeirri baráttu. Ég held að hún sé sjálfdauð sú barátta nema þau séu þar með af skilningi.

Ég veit ekki hvað þarf í raun og veru að kanna í þessum efnum lengur. Þegar við fluttum þetta frv. fyrst hafði maður enn þá von um að slík könnun gæti leitt eitthvað í ljós. Ég held að þetta liggi allt saman fyrir okkur nú þegar. Spurningin er bara: Hafa menn einhverjar áhyggjur af þessu? Dagvistarheimilin eru í upplausn. Ég leyfi mér að segja að þau eru í upplausn. Það fæst ekki lengur sérmenntað fólk til að vinna á þessum stofnunum. Það er flótti úr kennaraliðinu. Eðlilega. Það lifir ekki nokkur lifandi manneskja í landinu á rúmum 30 þús. kr. á mánuði. Og þá gætu menn náttúrlega sagt: Þá verða þeir bara að vinna lengri vinnudag og meiri eftirvinnu. Hver manneskja, sem haft hefur 30 eða 40 barna hóp daglangt eða kennt öðrum eins hópi venjulega kennsluskyldu, veit að það er ekki hægt. Þessi störf eru þess eðlis að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja af mörkum á einum degi við þessi störf. En skilningur á því hefur náttúrlega verið nákvæmlega enginn þegar umræður um þessi mál fara fram.

Ég held, hæstv. forseti, að það hljóti að verða verkefni ríkisstjórnarinnar á því þingi, sem nú situr, að vinna af alvöru að því að koma einhverjum skikk á þetta. Ég hef enga trú á því að verkalýðshreyfingin geri það. Ég er hreinlega uppgefin við að vona það. Þar halda menn áfram að finna Krýsuvíkurleiðirnar og fara lengstu göturnar, sem hægt er að finna, að bættum kjörum og etja einum hópnum á annan og metast um hver vinni mest þjóðþrifastörf. Hvernig einn starfshópur á án annars að vera er mér ekki alveg ljóst. En þannig vinna menn í þeim herbúðum og gera þjóðarsáttir við stjórnvöld og ég trúi heldur ekki á þær. Ég held að verkalýðshreyfingin hljóti að heyja sína baráttu fyrir sitt fólk á hinum faglega grundvelli en ekki hinum pólitíska. En nú dreymir menn í æ meira mæli um pólitískan frama hafi þeir orðið formenn í einhverju verkalýðsfélagi og sitja síðan báðum megin við borðið og vita ekki í hvora löppina þeir eiga að stíga. Ef það er framtíð verkalýðsbaráttu á Íslandi hirði ég ekki um hana frekar.

Ég vil þess vegna fara fram á það við stjórnmálamenn, sem nú virðast vera einu málsvarar vinnandi fólks í landinu, að þeir setjist niður og geri upp við sig: Ætlum við virkilega að leggja þetta þjóðfélag í rúst, menningarlega, félagslega, í öllu tilliti? Ég fæ ekki annað séð en að hér sé ástandið orðið þannig að það fólk sem vill hafa nokkurn veginn til hnífs og skeiðar fer í tískubransann, í auglýsingaheiminn, í fjölmiðlana. Þar er einhverja peninga að hafa. En allt fólk sem vinnur uppbyggileg störf fyrir þetta þjóðfélag verður að gera það á þann veg að það er ekki sæmandi því að það eru takmörk fyrir því, eins og ég hef áður getið, hvað menn geta lagt af mörkum á einum vinnudegi. Og þar sem hér situr einn hæstv. ráðherra, sem ber hvorki meira né minna en ábyrgð á menntakerfi landsins, dagvistarkerfi landsins og framtíð íslenskrar þjóðar sem menningarþjóðar, þá bið ég hann að skila því til hæstv. ríkisstjórnar að á þessu þingi verður eitthvað að gerast í þessum málum. Við þetta verður ekki unað lengur.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.