13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Páll Pétursson:

Mér þykja það gleðileg tíðindi hvað menn eru orðnir sáttfúsir. Það yrðu engir ánægðari en við stjórnarsinnar ef samningar tækjust. Ég held að það sé rétt meðferð á þessu máli að vísa því til nefndar, ljúka 1. umr. málsins hér. Það eru sex umræður sem fram þurfa að fara um málið. Ég held að það sé rétt að ljúka þessari fyrstu umræðu í deildinni og halda síðan fund með formönnum þingflokka. Ef hinir sáttfúsu menn geta náð samkomulagi, skynsamlegu samkomulagi á skömmum tíma, mundi málið að sjálfsögðu ekki þurfa að halda áfram í gegnum nefndina, en tíminn er naumur og markaðir okkar í Bandaríkjunum eru mikilvægir. Þjóðarhagsmunir krefjast þess nefnilega að þessi deila leysist fljótlega. (GHelg: Sendum þeim bara hval.) Það eru okkar hagsmunir að selja veitingahúsum í Bandaríkjunum fisk. Á þeim afla sem fiskast, á því sem dregið er úr hafinu lifir þessi þjóð. Þess vegna er það mikilvægt mál sem við erum að fjalla hér um. Ef verulega gengur saman í nótt getum við látið þetta mál bíða, ef ekki, verðar málið náttúrlega að hafa sinn gang í gegnum þingið.

Þessi frumvarpsflutningur hefur vonandi komið skriði á samningaviðræðurnar fyrir utan þá ánægju sem menn hafa haft af því að tala hér upp til pallanna, bæði stjórnarandstæðingar og fjmrh.