13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef lýst því yfir bæði í framsöguræðu og seinni ræðu minni að ríkisstjórnin leggur á það áherslu að frjálsir samningar megi takast og það mun verða veitt svigrúm til þess að á það reyni til hlítar. M.a. í meðförum nefndar getur ýmislegt komið fram sem getur stuðlað að því að samningar takist. Ég vek athygli á því að hér hefur verið lesið bréf frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands sem leggur til að þriggja manna sáttanefnd þingmanna verði skipuð í þetta mál. Er ekki eðlilegt að sjútvn. fjalli um málið? Ég vil því lýsa því yfir að ekki mun verða þrýst á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að fá málið frá nefndinni ef einhver von virðist vera um að frjálsir samningar takist. Veitt verður svigrúm til þess að það komi í ljós, en langeðlilegast er að mati ríkisstjórnarinnar að málið fari til nefndar. Ég lýsi því yfir að svigrúm verður veitt, þótt málið sé í nefnd, til að reyna frjálsa samninga.

Ég get upplýst að tilraunir eru nú í gangi. Málið er alls ekki úr hendi sáttasemjara. Hann er með það á sínu borði. Ég ræddi við sáttasemjara fyrir örskömmu og hann er að reyna að ná aðilum til fundar. Á það verður látið reyna. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, m.a. af hv. þm. áðan. Það er sáttartónn og við skulum nota okkur hann og veita svigrúm til þess að á hann reyni.