22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

53. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ósköp eðlilegt að launamál beri á góma á Alþingi. Hér hinum megin við vegginn er einmitt verið að ræða um lágmarkslaun, frv. til laga um lágmarkslaun. Og það hlýtur auðvitað að verða til umfjöllunar hjá þm. eða stjórnmálamönnum almennt hvert stefnir í þessum málum. Ég hefði heldur viljað að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins, hefði komið hér upp og látið orð falla um þetta mikla mál.

Hv. síðasti ræðumaður sagði: „Það eru öll laun lág.“ Það má út af fyrir sig vera rétt, en þau eru þá mismunandi lág. Við bjóðum fólki upp á það, íslenska þjóðfélagið, að vinna fyrir 20 þús. kr. á mánuði, fólki sem vinnur á berstrípuðum töxtum. Og ég segi: Ef ekki er hægt að hækka laun við þetta fólk eiga þingmenn sem eru með 70-80 þús. kr. ekki að fá neina hækkun. Þannig að ég geri greinarmun þarna. Þeir sem eru með 70-80 þús. kr. á mánuði verða að bíða á meðan verið er að rétta hag hinna sem ekki eru nema með 20 þús., ef þjóðfélagið á annað borð ekki þolir kauphækkun í gegnum allt kerfið. (GHelg: Hver er áætlaður framfærslukostnaður vísitölufjölskyldu, hr. þm.?) Það skiptir ekki máli hver er áætlaður vísitölukostnaður varðandi fjölskylduna, það gildir jafnt um manninn sem er með 20 þús. kr. á mánuði og hinn sem er með 70 þús. Það breytir ekki málinu þannig að sá samanburður segir ekkert í þeim efnum. Tuttugu þúsund króna maðurinn þarf jafnmikið til að lifa af og hinn sem er með 70 þús. í þeim efnum. Þú snýrð ekki dæminu við með því. Þessi munur er á launakjörum hér á landi. Og auðvitað þarf að breyta þessu.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að auðvitað á verkalýðshreyfingin líka sök hér á. Og það á ekkert að fría hana undan því. Það er ljóst að ekki hefur náðst samstaða um margyfirlýsta stefnu og fyrirheit um sérstaklega bætt kjör þeirra verst settu. Slíkar yfirlýsingar hafa margoft gengið út. En því miður hefur ekki, margra hluta vegna kannske, tekist að standa við þá. Ég er eigi að síður ekki úrkula vonar um að í komandi samningsgerð sjái menn eitthvað að sér. Það er ekki langt í það að samningar renni út og nýir hljóta að taka við. Ég vil a.m.k. í lengstu lög vona að menn sjái út úr myrkviðinu og reyni verulega að standa við gefin fyrirheit um sérstaklega og verulega hækkun til þeirra sem eru á berstrípuðum dagvinnutöxtum og hafa ekkert annað. Ef þjóðfélagið er þannig statt að það getur ekki borgað hærri laun til allra, verða þeir sem eru hærra settir að bíða.

Ég get vel hugsað mér að samið yrði um 35 þús. kr. kaup fyrir 8 stunda dagvinnu, verulegur hluti af bónusgreiðslunum yrði færður yfir á dagvinnutaxtana og þá erum við komin með nokkuð stóran hóp sem hefur fengið verulega bætt kjör. Ég get vel ímyndað mér að menn þyrftu kannske að hugsa þá hugsun til enda að setja einhvers staðar tölu, við skulum segja tvöföld 35 þús. kr. launin, þ.e. að menn þar fyrir ofan yrðu að bíða. Slíkt ástand varir auðvitað ekki lengi, það er mér ljóst. En þetta er líka siðferðileg spurning og kannske ekki síður. Það er siðferðileg spurning að reyna að breyta hugarfari þeirra sem eru betur settir til þess að styðja við bakið á hinum. Það vantar meira að fólk sé félagslega þroskað í þessum efnum. Það vantar líka innan verkalýðshreyfingarinnar. Menn þurfa að söðla um þar í skoðunum og láta verkin tala á annan hátt en þau hafa gert. Og ég vil vona að sú breyting eigi sér stað að menn geri betur í þessum efnum. Ég held að flestum sé a.m.k. orðið það ljóst að málið getur ekki gengið áfram eins og það hefur gert.

Ég sakna þess eigi að síður að hv. þm. Guðrún Helgadóttir minntist ekkert á ljósið í myrkrinu, Bolungarvíkursamningana á sínum tíma. Menn gleyma alltaf góðu hlutunum. Ég þykist vita að henni sé kunnugt um það að 95% af þeim sem fengu 30 þús. kr. lágmarkslaun í gegnum þá samninga eru kvenmenn og nú áttu hv. þm. Kvennalista að hlusta. Yfir 95% þeirra sem fengu 30 þús. kr. launin með Bolungarvíkursamningunum eru kvenmenn. Eftir þessu hefur lítið verið tekið og um þetta hefur lítið verið rætt, ekki einu sinni af Kvennalistakonum. En ég vil trúa að þær hafi ekki vitað þetta og þess vegna hafi þær þagað, en nú vita þær það.

Auðvitað þarf að gera betur í þessum efnum, það er öllum ljóst. Og ég hef persónulega enga trú á öðru en að það gerist í næstu samningum, að menn semji ekki um neitt fyrir neðan 30 þús. kr. Mér er sem ég sæi framan í mitt fólk vestur á fjörðum ef ætti að fara að bjóða því lægra kaup en það fékk í gegnum Bolungarvíkursamninga. Og til hvers hafa þeir þá orðið? Verða þeir ekki viðmiðun, einmitt sú viðmiðun sem Kvennalistakonur eru hér með frv. um í þinginu? Það er komið inn í samninga. Ég á eftir að sjá framan í þann mann sem sest að samningaborði fyrir verkalýðshreyfinguna og semur undir því marki. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm.? (Gripið fram í: Mikil er trú þín.) Já, og hún hefur dugað vel lengi. Svartnætti lagar ekki hlutina. Einstefnan ekki heldur. Ég er eigi að síður þessarar skoðunar. Og ég vildi gjarnan spyrja hv. þm., formann Verkamannasambandsins, hvort hann sé mér ekki sammála í þessum efnum. Hyggur hann t.d. að Verkamannasambandið muni semja um lægri laun í komandi samningum en þarna er um að ræða? Það kæmi mér á óvart ef slíkt gerðist. En að sjálfsögðu er best að fullyrða ekkert fyrir fram.

Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að BSRB er að liðast í sundur. Menn finna kannske margar skýringar á því. Ég óttast líka og hef löngu haldið því fram að eitthvað álíka kunni að gerast innan Alþýðusambandsins ef menn ekki sjá að sér, og kannske fyrr en seinna, ef menn ekki fara að hugsa rökrétt, horfast í augu við staðreyndir og vinna að því sem þarf að gera. Ég held að ef fram heldur sem horfir verði ekkert langt í að slíkt kunni að gerast.

En við skulum ekki einvörðungu skamma verkalýðsforustuna, verkalýðsfélögin eru fólkið líka og kannske fyrst og fremst það sem á að ráða ferðinni og getur ráðið ferðinni. Við skulum ekki gleyma þeim þætti, að það er fólksins að vísa leiðina til þess sem það vill í þessum efnum. (GHelg: Hvenær á það að gera það?) Það á að gera það í félaginu, á fundum. (GHelg: Á næturfundum?) Ég skal ekkert segja um það hvers konar fundir eru haldnir í stéttarfélögum sem hv. þm. vitnar til, en það eru ekki næturfundir á Vestfjörðum og ég kannast best við það svæði. Það er á venjulegum tíma. Yfirleitt er reynt að halda slíka fundi á þeim tíma sem fólk getur almennt mætt. Slíkt er nú lýðræðið þar. En hv. þm. hlýtur að kannast við eitthvað annað lýðræði í þessum efnum og væri þá gaman að fá það fram hvernig háttar til þar, á þeim bæ. Ég held að menn megi ekki skella allri skuldinni á forustuna. Menn verða líka að huga að því að fólkið hefur, ef það vill, mikil áhrif á þessi mál.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta. Kannske einfalda ég allt þetta dæmi. Stundum er líka hægt að flækja mál svo að enginn botni í þeim og æðimörgum hættir til þess. Mín skoðun er þessi: Það á að semja um 35 þús. kr. lágmarkslaun, færa 2/3 af bónusnum yfir á tímakaup og setja síðan hámark 70 þús. kr., þeir sem eru þar yfir verða að bíða. Þá hef ég þann fyrirvara: ef þjóðfélagið telur að það sé svo illa stætt að það geti ekki borgað meira.

Ég vil biðja bæði hv. þingkonur Kvennalistans og hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að minnast þess sem vel hefur verið gert. Gleymið því ekki þó karlmenn hafi þar átt hlut að máli.