13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mér finnst fara fram nokkuð undarleg umræða. Þessi deila er búin að standa yfir alllengi og það var á milli jóla og nýárs að það fóru fram í landinu samningar um fiskverð. Deiluaðilar vísuðu því þá til ríkissáttasemjara að þess yrði farið á leit að reynt yrði að hafa þau áhrif á þá fiskverðsdeilu að náð yrði heildarsamkomulagi um málið. Ríkissáttasemjari kom þeim tilmælum á framfæri við ríkisstjórnina og það var reynt að hafa þau áhrif á mál að heildarsamkomulag næðist um fiskverð. Það gerðist sem betur fer af ýmsum ástæðum og sérstaklega var það vegna þess að forustumenn fiskvinnslunnar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að það gæti gerst á gamlársdag. (KP: Forseti. Eru þetta þingsköp?) (Forseti: Þetta eru þingsköp.) Ég ætla aðeins að halda áfram. Ég skal ekki vera langorður, hv. þm. Karvel Pálmason. (KP: Ég var ekki að biðja um neitt.)

Síðan gerist það, eins og hér hefur komið fram, að það þurfti aftur að hafa afskipti af þessari deilu. Þá talaði ríkisstjórnin við alla deiluaðila og það bar öllum saman um að málið var komið í hnút. Á sunnudag var málið aftur komið í hnút og það lá fyrir að fundum yrði slitið og fundir yrðu ekki boðaðir á næstunni. Það var haldið áfram að ræða málið og að því loknu bar öllum deiluaðilum saman um, sama hvað er sagt í dag, að málið væri komið í hinn versta hnút og þeir sæju ekki fram á að það yrði tekið upp á næstunni.

Hér tala menn um að það séu engin vandamál. Það séu engin vandamál í Bandaríkjunum. Það séu einhverjar veitingahúsakeðjur sem þar sé verið að tala um. Er ekki ástæða til þess fyrir hv. þm. og þá sérstaklega sem eru í sjútvn. að málinu sé vísað til sjútvn. þannig að menn fái tækifæri til að tala við deiluaðila, þannig að menn fái að meta þau sjónarmið sem eru hjá þeim og meta málið í heild? Það væri vissulega gleðilegt að það væri komið meira sáttahljóð í málið og ég er fullviss um að sjómenn hefðu getað náð mjög góðum samningum í þessu sambandi. Ég er fullviss um það. Hitt er svo annað mál að þar eru margir aðilar, fjórir aðilar sem eiga hlut að máli og þeim tókst ekki að ná saman. En eftir að þm. hafa kynnt sér sjónarmið manna í þingnefnd væri vonandi að eitthvað hefði gerst þar. En er ekki rétt og nauðsynlegt að til þess að svo megi verða verði þessu máli tafarlaust vísað til þingnefndar þannig að þingnefndin geti tekið til við að kynna sér sjónarmið aðila í þessari mjög alvarlegu deilu sem mér þykir miður að menn skuli leyfa sér að gera lítið úr á Alþingi?