22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

53. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er komið í almenna umræðu, næstum því eldhús, um kjörin í landinu og launamál. Ég hef stundum hugleitt hvað væri varasamast fyrir íslenskt þjóðfélag eins og það stendur núna og í þeim heimi sem við lifum í núna. Þá er ég ekki að hugsa um kjarnorkusprengjuna, heldur svona efnahagslega séð, í efnahagsmálum. Ég hef yfirleitt komist að þeirri niðurstöðu að það sem væri varasamast af því sem blasir við okkur núna væri það að launin í landinu væru of lág, að lífskjörin væru of léleg. Ég segi að þetta sé varasamast vegna þess að ég held að veruleg hætta sé á því að ungt fólk flytjist burt og að þess sjái veruleg merki að ungt fólk flytji burt af landinu kjaranna vegna. Ég minnist þess að fyrir ári síðan eða svo hitti ég unga stúlku og spurði hvað hún væri að læra. Hún sagðist vera að læra til fóstru. Ég sagði: Hvernig stendur á því? Ég er að lesa í blöðunum að þar séu kjörin svo léleg að það vitlausasta sem menn geri sé að vera fóstra. Blessaður góði, svaraði hún, ég ætla ekkert að vinna hér. Ég fer til Noregs um leið og ég er útskrifuð. Og þetta sló mig heldur harkalega. Ég er hræddur um að þessi viðhorf séu orðin nokkuð rík meðal ungs fólks á Íslandi sem eru allt, allt önnur viðhorf en voru ríkjandi þegar ég t.d. var að koma út úr skóla. Því segi ég að það sé eitt það hættulegasta sem steðjar að Íslendingum ef lífskjörin hér, launakjörin hér, eru langtum verri en í löndunum í kringum okkur.

Fyrri kynslóðir töldu að það væri verulegur þröskuldur að komast til útlanda eða flytjast til útlanda. Unga fólkið núna telur það ekki. Það telur ekki að það sé neitt vandamál að flytjast til Noregs eða Svíþjóðar eða Danmerkur eða Bretlands. Það telur ekki að það sé neitt sem þurfi að bera ugg í brjósti yfir, það geti alveg verið í sambandi við ættingja sína og foreldra og þar fram eftir götunum engu að síður. Það óttast ekki tungumálið. Málakunnáttan er það góð að þetta er ekki sá þröskuldur sem það var áður. Ég held að þetta með launin sé þess vegna mjög mikið umhugsunarefni fyrir Íslendinga yfirleitt. Ofan á þetta bætist svo að við erum með ónýtt og ranglátt skattakerfi og ónýtt og ranglátt lífeyriskerfi sem verður ekki til þess að bæta myndina.

Ég segi t.d. að skattakerfið sé ónýtt og ranglátt, ekki einungis vegna allra þeirra skattsvika og undandrátta frá skatti sem liggja í augum uppi, heldur líka vegna þess að hér á Íslandi er venjulegu launafólki gert að vera í efsta skattþrepi og borga milli 60 og 70% af seinustu tekjum sínum til hins opinbera. Og þetta er mjög hátt hlutfall af venjulegum launatekjum. Hér er ekki um að ræða hátekjufólk, hér er um að ræða venjulegt launafólk sem er skipað í efsta skattþrep. Lífeyrissjóðsmálin skal ég ekki fjölyrða um. Til þess gefst tækifæri síðar.

Í þeirri launaumræðu sem hér hefur farið fram hefur auðvitað komið upp margt athyglisvert og í rauninni vilji þeirra þm. sem talað hafa til úrbóta. En það hlýtur að vera áhyggjuefni að verkalýðshreyfingar eru að brotna niður, að samkenndin milli stéttanna er að hverfa. Það sem virðist einkenna mjög launabaráttuna er samanburðurinn milli stétta: Ef einn fær eitt þá verður annar að fá það líka. Samkenndin er horfin. Þetta er orðin barátta milli þeirra sem ættu að vera samherjar. Þetta tel ég að sé mjög hættulegt fyrir verkalýðshreyfinguna og þetta tel ég reyndar að sé ein af skýringunum á því að menn þurfa að flytja frv. eins og þetta, nefnilega það að ákveðnir hópar dragast aftur úr af því að aðrir vilja ekki ljá þeim lið og finna ekki til samkenndar með þeim.

Ég skil svo sem ósköp vel að þm. geti týnt voninni eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir var að tala um áðan en það er akkúrat það sem við megum ekki gera. Við verðum einmitt að halda í vonina um endurbætur og þegar menn finna til máttleysis síns í þessum málum - ef ég má orða það svo - sem mér fannst nú gæta svolítið í ræðum hv. þm., held ég að við verðum að hafa í huga að ég tel a.m.k. að hlutverk þm. sé að hjálpa til við skoðanamyndun, viðhorfsmyndun í þjóðfélaginu yfirleitt. Og það er áreiðanlega eitt af lykilatriðunum til þess að við getum náð árangri í launamálunum almennt og í því að bæta launin sérstaklega hjá þeim sem standa mjög hallt og hafa lægst launin. Við megum þess vegna ekki týna voninni. Ég held að það sé gagnlegt að við höfum í huga að það er hlutverk okkar að hjálpa til við að leiða skoðanamyndunina í landinu.

Að lokum eitt orð um vinnutímann af því hv. þm. Guðrún Helgadóttir gerði hann að umræðuefni: Ég held að það sé hálfgerður kækur hjá Íslendingum að halda að með því að vinna myrkranna á milli afkasti þeir eitthvað meiru en með því að vinna skikkanlegan vinnudag og þetta smitar af sér inn í alla kjarasamninga. Þennan kæk þarf vitaskuld að leggja af vegna þess að mannslíkaminn, og mannshugurinn, skilar ekki nema ákveðnum afköstum og hann skilar ekkert meiru þó að hann liggi yfir vinnunni bæði nætur og daga.