19.01.1987
Neðri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál var lagt fram á síðasta þingi og var þá ekki afgreitt. Voru þar nokkrar umræður um þetta mál og m.a. ræddi ég nokkuð um efni þess. Ég held að ég hafi komist þannig að orði í sambandi við fylkjaskipunina að ef ekki fyndist önnur leið til þess að landsvæðin utan höfuðborgarsvæðisins næðu rétti sínum, sem ég tel að vanti mikið á að þau hafi, sé ekki um annað að ræða en að stofna slík fylki. Í þessu sambandi vil ég minna á það, sem ég hef að vísu gert nokkuð oft áður, að þegar var verið að ræða um frv. til stjórnarskipunarlaga, sem var samþykkt að mig minnir 1984, stóð þar í grg. að stjórnmálaforingjarnir sem fluttu frv. mundu beita sér fyrir því að gera ráðstafanir til þess að rétta hlut þeirra sem standa höllum fæti félagslega og efnahagslega.

Það hefur ekkert gerst í þessum málum að ég tel í þessi ár. Skýrsla frá hinni svokölluðu byggðanefnd var lögð fram á s.l. sumri, en því miður hefur ekki verið hægt að sjá að þar yrði lagt neitt fram til að rétta þennan aðstöðumun sem er í þjóðfélaginu. Þvert á móti hefur verið til umræðu hér eða í stjórnmálaflokkunum að breyta t.d. skiptingu aksturskostnaðar þannig að hlutdeild sveitarfélaganna yrði meiri en hún er í dag sem er sýnilegt og óvefengjanlegt að það mundi auka aðstöðumuninn ef hefði verið horfið að því ráði.

Í þessu frv. eru ýmis ákvæði sem ég vil taka sérstaklega undir. Önnur orka að vísu tvímælis og þarf að skoða mikið betur hvernig þau mundu verka í framkvæmd. T.d. er í 5. gr. frv. rætt um að forseti landsins þurfi að fá a.m.k. 50% greiddra atkvæða til að ná kjöri, þ.e. ef enginn frambjóðandi nær því hlutfalli eigi að kjósa aftur á milli þeirra sem flest atkvæði fá.

13. gr. er um það að ráðherrar skuli ekki sinna störfum á Alþingi, þ.e. þeir hafi ekki atkvæðisrétt. Auðvitað verða þeir að sinna þannig störfum að flytja sín mál og svara fsp., en þeir hafi ekki atkvæðisrétt og ef þeir verði ráðherrar taki varamaður þeirra við. Þetta hefur ýmsa kosti og m.a. þá kosti að þeir geta sinnt sínum störfum og eru ekki eins bundnir þinghaldinu og nú er.

29. gr. er um það hvernig skuli kosið til þings sem er auðvitað bundið fylkjaskipuninni. Ég set spurningarmerki við þetta. Í fyrsta lagi að það verði kannað eftir öllum leiðum hvort ekki er hægt að jafna aðstöðumuninn í þjóðfélaginu, hvort það sé ekki með öðru móti hægt að fullnægja betur réttlæti en að stofna þessi fylki vegna þess að þetta er og verður í reynd til að auka yfirbygginguna í þjóðfélaginu. En ég sé ekki að það séu nein merki þess að það sé verið að reyna aðrar leiðir.

Hér er rætt um að það verði allt að 31 þm. sem sé kosinn í fimm fylkjum og að fylkin hafi jafnan rétt, það séu kosnir þrír menn í öllum fylkjunum til annarrar deildarinnar. Það gerir að verkum að landsbyggðin stendur betur að vígi ef þetta fyrirkomulag væri tekið upp. Þetta er fyrirmynd í mörgum þjóðþingum.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, en ég held að þessi skipan sé allrar athygli verð. Þeir sem um þessi mál fjalla og eiga að endurskoða þessi mál öll saman og sú nefnd sem fær þetta frv. ættu að leggja sig fram um að benda þá á aðrar leiðir til að jafna aðstöðumuninn í þjóðfélaginu.

Í 31. gr. er talað um að þeir sem verða 18 ára á kosningaárinu öðlist kosningarrétt, ekki miðað við fæðingardag heldur ártal. Þetta er líka umhugsunarefni, en ég fyrir mitt leyti tek ekki að svo komnu máli afstöðu til þessa atriðis.

Í 40. gr. er talað um að Alþingi kjósi fastanefndir og Alþingi getur falið slíkum þingnefndum að kanna mikilvæg mál er almenning varða og veitt þeim rétt til að óska eftir skýrslum, munnlegum og skriflegum, frá opinberum stofnunum, einstökum starfsmönnum eða fyrirtækjum og er öllum skylt að verða við óskum nefndarinnar. Ef þetta ákvæði hefði verið í gildi í dag held ég að það hefði leyst einhvern vanda. Þar á ég við brottvikningu fræðslustjóra Norðurlands eystra. Mér er ekki kunnugt um hvaða ástæður liggja til þess að það var gert, en ef ekkert kemur fram annað en hefur birst í blaðagreinum held ég að hefði verið gott fyrir Alþingi að kanna það mál til hlítar. Ég held að það verði að krefjast þess að Alþingi geti farið ofan í svona mál sem valda eins miklum ágreiningi og raun ber vitni. Og þegar upp koma svona mál verður að krefjast þess, hver sem á í hlut, að hann geri fulla grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að víkja manni úr starfi.

62. gr., þ.e. um fylki, kom ég inn á áðan. Ég var og er enn í vafa um hvort þetta sé eina leiðin og vil láta kanna það. En ég hallast meira að því að menn hafi ekki vilja til að taka á þessum málum öðruvísi ef þeir hafa þá vilja á því að taka á þessum málum með fylkjaskipun.

Þetta er gömul tillaga. Það eru orðin ein 30 ár eða meira síðan ég man eftir að þessu máli var hér hreyft á Alþingi. Það gerðu þeir Karl Kristjánsson og Gísli Guðmundsson. Það er enginn vafi á því að fyrr á árum var almennur vilji fyrir því að taka upp slíka skipan í því augnamiði að landsbyggðin hefði meira með sín mál að gera en hefur verið og er í dag og mörgum finnst að sú þróun gangi í öfuga átt miðað við það sem stefnt er að, t.d. í þessu frv., og það sem landsbyggðarmenn yfirleitt óska eftir.

Í 65. gr. er talað um að í hverju fylki skuli vera einn aðalbanki, fylkisbanki, sem sé sameign banka og sparisjóða fylkisins. Fylkisbankinn sér um öll erlend viðskipti og bindiskyldu fylkisins. Þessi mál þarf að skoða mjög vel, hvernig á að koma þessu fyrir. Hitt er annað mál að ef landsbyggðin nýtur ekki í ríkari mæli afrakstursins af sinni framleiðslu, sínum hlut í þjóðarbúinu, verður að athuga hvort þetta muni leysa þann vanda.

Ég ætla mér ekki að halda langa ræðu um þetta málefni, en málið er mikilvægt. Ég hef sagt það í mörg ár að ef Alþingi Íslendinga leysir ekki þessi mál er engin spurning að það verður uppstokkun í öllum stjórnmálaflokkum sem nú eru. Það er ekki spurningin hvort það verður, það er spurningin hvenær það verður, ef ekki verður hlustað á þessi mál. Því er það áríðandi og er í sjálfu sér komið á elleftu stundu að hv. alþm. taki þessi málefni til yfirvegunar og athugunar nema þeir vilji láta þessi mál þróast áfram eins og ég tel að þau séu að gerast í dag og taka þá afleiðingunum af því. Það er enginn vafi á því að menn sætta sig ekki við þá skiptingu, hvorki launamun né aðstöðumun, og þess vegna er ekki nóg að flytja svona mál. Ef Alþingi ætlar að hundsa þetta aftur, taka ekki hvert atriði eða a.m.k. mikilvægustu, þýðingarmestu atriðin til könnunar og yfirvegunar og athuga hvort það eru aðrar leiðir til að ná því markmiði sem þau samtök sem sömdu þetta, þ.e. samtökin um jafnrétti milli landshluta, settu sér, þá mun sú þróun verða sem ég hef komið hér inn á.