19.01.1987
Neðri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Hér er vissulega mikið mál til umræðu á þskj. 184 um stjórnarskrá lýðveldisins og það sem hér hefur farið fram er umræða sem snertir málið ekki nema að nokkru leyti, en mér þótti rétt að koma upp vegna nokkurra athugasemda sem hér hafa komið fram.

Ég vil segja fyrst vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns að auðvitað má ræða sveitarstjórnarmálin út frá þeim skoðunum sem hann var að túlka, en ég er hræddur um að málið sé ekki svo einfalt í reynd eins og hann vill setja upp í þjálfuðu máli, er sjálfsagt búinn að flytja slíkar ræður vítt og breitt um landið. Staðleyndirnar eru ekki alveg svo einfaldar.

Ég ætla að byrja á því að ræða við hv. 5. þm. Austurl. af því að hann bar fram nokkrar spurningar til mín í sambandi við þessi mál. Ég vil fyrst spyrja hv. þm. hvort hann telji sig tala í umboði Alþb. þegar hann er að ræða um sveitarstjórnarmál. Ég er hræddur um að það sé ansi mikill skortur á því miðað við það sem fram hefur komið frá Alþb. um stefnuna í þeim málum.

Það er óhætt að fullyrða að það er alveg sama hvaða ræður hv. þm. flytur með miklum hávaða um landsbyggðarmál. Hans ræður eða ákvarðanir hafa aldrei flutt landsbyggðinni nokkurn skapaðan hlut. Ég held að það sé varla hægt að finna mál sem er hægt að kalla byggðamál sem hv. þm. hefur raunverulega komið fram. Það er kannske rétt lýsing á því, sem hér var bent á, að það fyrsta sem hans eigin flokksmenn á hv. þingi gera þegar hv. þm. biður um orðið er að forða sér út úr þingsalnum.

Í þessu tilfelli langar mig til að benda honum á leiðsögn í þessu máli sem hann ætti fyrir löngu að vera búinn að átta sig á þegar verið er að ræða um sveitarstjórnarmál og allan þann mikla vísdóm sem hv. þm. telur sig hafa á þeim málum og föstu skoðanir. Það vill svo til að Alþb. hefur sýnt það frumkvæði meðal stjórnmálaflokka að gefa út þingtíðindi eftir hvert reglulegt þing. Í þingtíðindum flokksins frá s.l. sumri, sem voru gefin út í júlí og er sjálfsagt til í þskj., kemur afstaða flokksins öðruvísi fram miðað við það sem hv. þm. hefur verið að halda fram nú og raunar áður í umræðum um þessi mál. Ég held að það væri hollt að lesa upp úr þessum þingtíðindum Alþb., með leyfi virðulegs forseta. Ég get gripið ofan þau:

„Nokkrir fyrrv. og núv. sveitarstjórnarmenn Alþb. sendu frá sér yfirlýsingu um sveitarstjórnarmál fyrr í vetur“, þ.e. á s.l. ári. Og þar segir m.a.: „Í stjórnarskránni er fjallað um rétt sveitarfélaga til að ráða eigin málum í einni setningu þar sem segir: Rétti sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum undir yfirstjórn ríkisins skal skipa með lögum. Þennan lýðræðislega rétt sveitarfélaga ber að varðveita hvort sem þau eru stór eða smá.“ Og svo halda þeir áfram: „Barátta fyrir virku lýðræði er einn af hornsteinum í starfi sósíalísks flokks. Hluti hennar er að vinna að því að það form sem menn velja stjórnsýslu sé þess eðlis að það skapi möguleika á virku lýðræði. Til að svo megi verða þurfa að verða tengsl milli ákvörðunartöku og ábyrgðar. Sveitarstjórnir eru grunneiningar í íslensku þjóðskipulagi.“ Þetta er það sem allir setja upp í sína stefnu. „Virkast hlýtur lýðræðið að vera ef þær hafa sem víðtækast sjálfsforræði. Gildir það jafnt um hvernig verkefnin eru framkvæmd og hvernig þau eru fjármögnuð. Sveitarfélögin þurfa að vera svo öflug að íbúar þeirra geti haft í raun mótandi áhrif á nánasta umhverfi sitt og byggt upp fjölbreytta félagslega þjónustu. Þess vegna er brýnt að koma í veg fyrir einhæfni einstakra byggða hvort sem um er að ræða þjónustubyggðir eða framleiðsluatvinnuvega, einhæfar atvinnubyggðir.

Þar til sameining sveitarfélaga hefur átt sér stað má nota þjónustusvæði sem grunneiningu. T.d. á Austurlandi hefur slík formleg eining verið mynduð til þess að hægt sé að leysa ákveðna þætti sameiningarmálanna, draga úr miðstýringu og komast hjá stofnun svæðisnefnda. Rætt hefur verið um að koma á þriðja stjórnsýslustigi, ýmist sem fylki, svæðisstjórn, héraðsstjórn, kjördæmisþingi eða annað. Þriðja stjórnsýslustigið stuðlar ekki að virkara lýðræði. Með héraðsstjórnum eða svæðisstjórnum færist ákvörðunartaka og ábyrgð frá því fólki sem ákvörðunin snertir. Lýðræðið eykst ekki með því að grunneiningar séu gerðar áhrifaminni og yfir þær séu sett ráð, jafnvel þótt þau ráð séu kosin á lýðræðislegan hátt. Slíkt fyrirkomulag veldur aðeins deilum um valdsvið og deilum um stjórn og framkvæmd á verkefnum og aukinni skriffinnsku.

Í dreifbýlinu þurfa sveitarfélögin að verða fjölmennari, verða öflugar félagslegar heildir. Fleiri þurfa að vera með í stjórnun og ákvörðunartöku í grunneiningu í sveitarfélögum. Það er leiðin til virkara lýðræðis. Leggja ber því áherslu á að stjórnsýslustigin verði áfram einungis tvö, landshlutasamtökin áfram frjáls hagsmunasamtök sveitarfélaga sem annist þau verkefni sem sveitarfélögin fela þeim.“

Þeir sem skrifa undir þetta álit til byggðarnefndar Alþb. eru hátt skrifaðir sveitarstjórnarmenn, forustumenn í vel metnum og vel reknum byggðarlögum. Fyrstur í flokki er Kristinn V. Jóhannsson, Neskaupstað, Ragnar Elbergsson í Grundarfirði, Margrét Frímannsdóttir á Stokkseyri, Skúli Alexandersson á Hellissandi, Jóhann Ársælsson á Akranesi, Kristinn Jón Friðþjófsson á Rifi og Logi Kristinsson í Kópavogi, fyrrv. bæjarstjóri á Neskaupstað.

Þetta skjal er opinbert og ekkert nema gott um það að segja. Það sýnir í hnotskurn hvernig rætt er um þessi mál vítt og breitt á okkar landi og skoðanir eru að sjálfsögðu skiptar sem eðlilegt er.

Ég vil segja við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og raunar einnig hv. 5. þm. Austurl. að nýju sveitarstjórnarlögin eru engin smábreyting frá því sem áður var. Nýju sveitarstjórnarlögin opna algerlega fyrir nýsköpun í sveitarstjórnarmálum á Íslandi eftir því sem fólkið í sveitarfélögum vill. Það hefur alla möguleika á því að taka upp þá stjórnarhætti sem menn vilja sameinast um á viðkomandi svæðum. Það er opið. Og ég vil segja það hér til upplýsinga að síðan þessi lög voru sett á síðasta ári og eftir að þau tóku að öllu leyti gildi við síðustu áramót hefur að mínu mati verið miklu meiri áhugi út um landið fyrir sameiningu sveitarfélaga en ég átti von á, ekki aðeins sameining sem er lögbundin í sveitarfélögum með færri en 50 íbúa heldur eru heilu sýslufélögin að óska eftir viðræðum við félmrn. um að sameinast í eitt sveitarfélag til að ná betri tökum á málum fyrir sín byggðarlög. Þetta er vissulega það sem menn eru að tala um. Þeir hafa í sveitarstjórnarlögunum nýju möguleika á því að skipa þessum málum þannig. (JBH: Megum við heyra nokkur dæmi um þetta?) Ég tel ekki ástæðu til þess á þessu stigi, en það eru umræður í gangi og fulltrúar félmrn. eru á fundum um landið þar sem þess hefur verið óskað.

Ég vil segja það vegna fyrirspurnar hv. 5. þm. Austurl., þar sem hann var að spyrja um nefnd, að það var gefin yfirlýsing um það í sambandi við afgreiðslu málsins að mynduð yrði samstarfsnefnd frá sýslumannafélagi, frá ráðuneyti og frá sambandi sveitarfélaga til að hafa umsjón með yfirtöku sveitarfélaga á sýslusjóðum eða málefnum sýslufélaganna. Sú breyting var gerð á hv. Alþingi við afgreiðslu málsins að þessari yfirtöku var seinkað þannig að sýslufélögin fá lengri tíma til að koma þessari skipan á. En fyrir árslok 1988 á þessu að vera lokið. Þessi nefnd er í burðarliðnum og það stendur ekki á því að hún fær að takast á við þetta verkefni nægilega snemma, enda er þessi þáttur laganna nýkominn í gildi.

Virðulegi forseti. Ég skal ljúka ræðu minni strax. Ég hefði getað talað lengi og hefði kannske gert ef aðstaða hefði verið til. En ég ætla að bæta því við í sambandi við ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar að auðvitað er alveg ljóst að þessari breytingu í sambandi við sveitarstjórnarkerfið og valddreifinguna í okkar landi fylgir að það verður að gera breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og í því eru starfandi nefndir. Einnig verður að gera breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga sem er núna til meðferðar í ráðuneytinu og hefði verið komin fram á hv. Alþingi ef hefði ekki verið tekin sú ákvörðun að gera a.m.k. tilraun til að breyta tekjuskattskerfi ríkisins og setja upp staðgreiðslukerfi, sem grípur inn í þessi mál því að skattheimta sveitarfélaga er jafnvel meiri en tekjuskattur ríkisins svo að þetta tvinnast saman.

Ég vil að lokum svara því sem hv. 5. þm. Austurl. spurði um í sambandi við húsnæðismálin og þær tillögur sem félmn. Alþingis vísuðu ekki til félmrh. heldur til milliþinganefndar í húsnæðismálum. Þessi milliþinganefnd er skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Hún fékk þetta mál til meðferðar og hún hefur verið með málið síðan til afgreiðslu. Ég sagði í haust, ég man ekki dagsetningarnar á þessu nákvæmlega, en ég sagði að ég vissi ekki betur en niðurstaða í starfi þessarar nefndar og svör hennar væru að koma á borðið og það var staðfest af formanni nefndarinnar þá. Því miður hefur það dregist, en mér skilst að það sé um það bil að verða að veruleika.

Umræðu frestað.