20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

241. mál, samgönguleiðir um Hvalfjörð

Fyrirspyrjandi (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var flutt hér tillaga á hv. Alþingi að því er varðaði samgönguleiðir um Hvalfjörð. Þar var gert ráð fyrir því að samgönguleiðir um Hvalfjörð yrðu metnar að nýju, en eins og kunnugt er hefur verið unnið í Hvalfirði að samgöngum og stefna í samgöngum verið framkvæmd á grundvelli nefndarálits sem út kom 1972.

Þessi umrædda þáltill, sem ég nefndi fékk þá meðferð hér á hv. Alþingi að henni var vísað til ríkisstjórnarinnar. Hins vegar hefur verið hljótt um framkvæmd hennar, þ.e. það hefur verið hljótt um það hvort samgönguleiðir um Hvalfjörð hafi verið metnar að nýju eins og tillagan gerði ráð fyrir. Af þeim sökum hef ég leyft mér að flytja svofellda fsp. til samgrh. á þskj. 258:

„Hyggst samgrh. láta meta hagkvæmni nýrra samgönguleiða um Hvalfjörð, svo sem:

1. jarðganga,

2. brúar,

3. ferju,

m.a. í ljósi tækniframfara í byggingu samgönguvirkja?"

Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa fsp. Hún er skýr og vænti ég svara frá hæstv. ráðh.