22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

53. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér hafa orðið þó nokkrar umræður um kjör láglaunahópanna og er það vel. Mér fannst þó þegar ég hlustaði á þessar umræður að ég endurlifði umræðurnar sem urðu þegar fyrst var byrjað að ræða þetta frv. fyrir fjórum árum síðan. Í sannleika sagt hefur ekki mikið breyst í kjörum láglaunahópanna síðan þá.

En ég stend upp til að svara hv. 7. landsk. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Mér er það að vísu þvert um geð að vera að agnúast við hana um mál eins og endurmat á störfum kvenna sem við erum báðar sammála um að þurfi að fara fram þó fyrr hefði verið. Hún nefndi að ekki væri eðlismunur á þeirri tillögu sem Kvennalistinn flytur, sem er um endurmat á störfum kvenna, og því frv. sem hér er til umræðu um endurmat á störfum láglaunahópanna. Vitnaði hún þá til þess að í því frv. sem hér er til umræðu væri fjallað í einum lið sérstaklega um hefðbundin kvennastörf og því væri ekki eðlismunur á þessum tillögum. Þetta er alrangt hjá hv. þm., alrangt. Ef maður les greinargerð með till. til þál. um endurmat á störfum kvenna, sem Kvennalistaþingmenn hafa flutt, vekur hún nokkra furðu, satt að segja. Ég tel að við verðum að vera samkvæm sjálfum okkur í þessari jafnréttisbaráttu og að við eigum að viðurkenna það líka í verki að það er til stór hópur karlmanna sem líka tilheyra láglaunahópunum.

Ég vitna, með leyfi forseti, í örfá orð í greinargerð þm. Kvennalistans. Þar segir:

„Tillagan nær eingöngu til þeirra sem hjá ríkinu starfa og er hugsuð sem skref í átt að gagngeru endurmati á störfum kvenna á vinnumarkaðnum.“ Af hverju mátti ekki segja skref í átt að gagngeru endurmati á störfum láglaunahópanna á vinnumarkaðnum?

Og áfram segir hér: „Nái hún fram að ganga á hún að geta komið öllum launakonum til góða.“ Af hverju er ekki ástæða til þess a.m.k. í greinargerð að minnast á karla sem stunda láglaunastörf?

Síðan er sagt í tillögunni: „Tekið skal fram að til kvennastarfa teljast þau störf þar sem konur eru a.m.k. helmingur þeirra sem störfin hafa með höndum. Þeir karlar sem slíkum störfum sinna njóta vitaskuld einnig þeirra kjarabóta sem það endurmat kvennastarfa sem hér er lagt til gæti haft í för með sér.“ Ég spyr: Hvað um störf þar sem karlmenn eru í meiri hluta, t.d. störf innan Iðju, Dagsbrúnarverkamenn og fleiri störf sem til má taka? Hvað með þær konur sem eru í minni hluta í láglaunastörfum sem karlmenn stunda? Eiga þær ekki að njóta kjarabóta? Verðum við ekki aðeins að staldra við og huga að því hvað við erum að gera þegar við erum að vinna að sameiginlegu markmiði sem við vissulega erum, að reyna að bæta kjör láglaunahópanna?

Það er þetta sem ég hafði fyrst og fremst við að athuga í þeirri tillögu sem Kvennalistinn hefur flutt, að ég tel að tillaga héðan frá Alþingi eða frv. eigi að ná til láglaunahópanna sem heildar en ekki að taka sérstaklega út að það eigi að endurmeta eingöngu kvennastörfin. Við lendum bara í ógöngum ef á að fara slíka leið.

Ég skal ekki tefja tímann, ég sé að klukkan er yfir fjögur. En ýmislegt sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur var athyglisvert. Ég veit ekki hvort það var tilviljun að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson yfirgaf deildina um leið og hún byrjaði að fjalla af miklum eldmóði um láglaunastörfin í þjóðfélaginu. Verkalýðshreyfingin fékk þar þung högg hjá hv. þm. og það var í raun og sannleik mikill áfellisdómur sem hv. þm. kvað upp yfir verkalýðshreyfingunni. Hún sagði að láglaunafólk ætti orðið ekki skjól í verkalýðshreyfingunni, ef ég skildi hana rétt, og það væru þá fyrst og fremst stjórnmálamenn sem launafólk gæti leitað til og átt skjól hjá. Ég þykist nokkuð viss um að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hefur heyrt þessi orð og mér finnst furðulegt ef hann lætur þessa umræðu fram hjá sér fara og svarar ekki slíkum áfellisdómi sem fram kom hjá hv. þm. sem snertir ekki bara hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, sem er í sama flokki og Guðrún Helgadóttir, heldur einnig t.d. forseta ASÍ. Þó að ýmislegt megi finna að verkalýðshreyfingunni og hún hafi ekki staðið sig sem skyldi í að bæta kjör láglaunahópanna í þjóðfélaginu tel ég að forseti ASÍ hafi viðurkennt, t.d. í blaðaviðtali í dag, að verkalýðshreyfingin bæri ábyrgð á lágum kjörum láglaunahópanna. Ég tel það vissulega skref í rétta átta að slík viðurkenning liggi fyrir. Og ég sagði það líka áðan að ábyrgðin er ekki bara verkalýðshreyfinganna, heldur líka stjórnmálamanna. Það mikilvægasta í þessu öllu er þó í lokin að verkalýðshreyfingin og stjórnvöld og stjórnmálamenn taki nú einu sinni höndum saman um að bæta kjör láglaunahópanna í þjóðfélaginu.