20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

241. mál, samgönguleiðir um Hvalfjörð

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á árunum 1967-1972 vann svonefnd Hvalfjarðarnefnd, sem skipuð var af samgrn., alhliða rannsókn á því hvernig hagkvæmast væri að leysa samgöngur um Hvalfjörð. Nefndin gerði athugun á mörgum valkostum og ítarlegast á þeim kostum sem helst komu til greina.

Niðurstöður nefndarinnar voru þær að vegagerð fyrir Hvalfjörð væri hagkvæmasti kosturinn, 15% afkastavextir, en næst kæmi ferja nálægt Grundartanga, en sú lausn gaf um 12% afkastavexti.

Frá útkomu skýrslu Hvalfjarðarnefndarinnar hefur í aðalatriðum verið unnið að vegagerð í samræmi við hana þó að enn séu langir kaflar óbyggðir og sumir þeirra mjög dýrir. Kostnaður við að ljúka vegi er talinn á núvirði um 650 millj. kr. Jafnframt hefur Akraborg verið rekin en nefndin tók ekki beina afstöðu til þess máls.

Á undanförnum árum hafa alloft verið fluttar á Alþingi till. um nýja athugun þessara mála. Má þar nefna tillögur á 102., 103., 104., og 107. löggjafarþingi. Flm. hafa oftast verið þm. Vesturlands, einn eða fleiri, en stundum hafa þm. annarra kjördæma bæst í hóp flm. Þessar till. hafa flestar ekki orðið útræddar, en vísað til ríkisstjórnanna hafi þær náð afgreiðslu.

Á s.l. ári lét stjórn Íslenska járnblendifélagsins hf. athuga nokkuð rekstur ferju sem gengi frá Hvalfjarðareyri að Grundartanga. Niðurstaða þeirrar athugunar var að slíkur rekstur væri arðbær, og er þá miðað við að rekstri Akraborgar yrði hætt. Er sú niðurstaða í samræmi við skýrslu Hvalfjarðarnefndar frá 1972 þó að annar valkostur væri þar talinn enn arðbærari.

Niðurstöður Hvalfjarðarnefndar eru byggðar á athugun og forsendum sem orðnar eru 15-20 ára gamlar. Ýmsar forsendur hafa breyst á þessum tíma, t.d. orkuverð, nýjungar í tækjum og tækni hafa komið til og lausnir sem þá voru lítt eða ekki hugsanlegar eru orðnar nokkuð algengar, t.d. jarðgöng neðansjávar. Þá ber þess að geta að Hvalfjarðarnefnd athugaði ítarlegast hefðbundnar lausnir, vegagerð og ferjurekstur, en miklu lauslegar dýrar óhefðbundnar lausnir, stórbrýr, rör á botni o.s.frv.

Þrátt fyrir það sem ég hef hér nefnt hef ég ekki í hyggju að hafa forgöngu um að láta meta hagkvæmni nýrra samgönguleiða um Hvalfjörð. Það er ljóst að athugun af þessu tagi mun taka nokkur ár og kosta milljónir króna. Nægir í því efni að benda á að gamla Hvalfjarðarnefndin var milli 5 og 6 ár að störfum og hefði viljað skila ítarlegri skýrslu en skortur á fjármagni var henni fjötur um fót.

Ég tel að nú eins og áður sé besti kosturinn vegur með varanlegu slitlagi fyrir Hvalfjörð. Enn er nokkuð eftir til að ljúka veginum eins og ég hef áður getið. Engum dettur í hug að hætta þeim framkvæmdum þó svo sérstök nefnd væri skipuð og bíða svo árum skipti eftir tillögum hennar. Því gæti svo farið að veginum með varanlegu slitlagi væri lokið þegar nefndin skilaði af sér. Að mínu mati er ekki tímabært að skipa slíka nefnd og nær að verja þeim milljónum króna, sem rannsóknir nefndarinnar mundu kosta, beint til vegaframkvæmda í Hvalfirði.

Ég vil svo bæta því hér við að vegáætlun verður til meðferðar hér innan ekki langs tíma. Þá gefst mönnum kostur á því við skiptingu þess fjármagns sem þá fer í viðkomandi kjördæmi að velja hvort menn vilji leita annarra leiða, um jarðgöng eða með öðru móti, yfir Hvalfjörð eða ekki. En ég tel ekki verjandi meðan búið er við þann þrönga kost sem nú er í framlögum til vegamála að hverfa frá því að leggja slitlag á veginn fyrir Hvalfjörð því það gæti þá tafið þá framkvæmd verulega. En hitt hlýtur að liggja ljóst fyrir, ef það er vilji Alþingis að fara aðra leið, þegar vegáætlun verður hér til umræðu og afgreiðslu.