20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

248. mál, yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Svarið við 1. lið er raunar einfalt. Það er já. Að vísu var landbrh. ekki á þeim ríkisstjórnarfundi þar sem tilmæli aðila vinnumarkaðarins voru lögð fyrir en ég hafði samband við hann símleiðis um kvöldmatarleytið og orðalag í svari ríkisstjórnarinnar var ákveðið í samráði við hann. Ég vil taka það fram að þegar þetta gerðist höfðu orðið umræður hér á hinu háa Alþingi daginn áður, ef ég man rétt, þar sem mjög greinilega kom fram að það var ekki samstaða á milli stjórnarflokkanna um að setja framleiðslustýringu á eggja- og kjúklingaframleiðslu, en um það hafði talast á milli stjórnarflokkanna að slíkt yrði ekki gert nema samráð eða samkomulag væri milli flokkanna um það, svo að það lá þá þegar fyrir. Um jöfnunargjald af innfluttum kartöflum vil ég líka segja það að við landbrh. höfðum áður rætt þau mál og hann hafði lýst þeirri skoðun sinni að það ætti að fara aðrar leiðir til þess að tryggja hagsmuni kartöfluframleiðenda og kem ég að því síðar.

Við 2. lið er svarið nei. Ég sá ekki ástæðu til þess að hafa samráð við samtök framleiðenda í þessum greinum þar sem það lá mjög greinilega fyrir að ekki yrði unnt að verða við þessum tilmælum í ríkisstjórninni.

Við 3. lið: Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa við loforð sem landbrh. mun hafa gefið alifuglaframleiðendum að morgni s.l. föstudags? Þarna er náttúrlega vísað til föstudags fyrir nokkrum vikum. En til þess föstudags sem þarna ræðir um skildi ég landbrh. svo að hann hefði eingöngu lofað að leggja málið fyrir ríkisstjórnarfund þriðjudaginn eftir þá helgi sem þarna er um að ræða. Og eins og ég sagði fyrr kom í ljós áður en til ríkisstjórnarfundarins kom að ekki yrði samstaða á þeim ríkisstjórnarfundi um að gefa út þessa reglugerð.

Ég vil svo taka það fram í þessu sambandi að haldið hefur verið áfram athugun á þessum málum, fyrst og fremst á vegum landbrh. M.a. hefur verið kannað hvort Framleiðnisjóður mætti veita þá ábyrgð sem var reyndar hornsteinn þeirrar framleiðslustýringar sem þarna var um að ræða. Lögfróðir aðilar telja að Framleiðnisjóður hafi ekki heimild til að veita slíka ábyrgð svo að það út af fyrir sig hefði gert fyrri hugmyndina ófæra. Hins vegar standa mál nú þannig að kjúklingaframleiðendur hafa að því er ég best veit komið sér saman um að koma reglu á sína framleiðslu þótt það verði kannske ekki kölluð framleiðslustýring. Þeir hafa þegar hafist handa við að losna við umframbirgðir úr landi. Þeir hafa sjálfir ákveðið að ráðstafa því sem þeir fá endurgreitt af fóðurbætisgjaldi til þess að gera þann útflutning mögulegan og að sjálfsögðu fá þeir endurgreidda tolla og þess háttar sem á þá framleiðslu fellur. Ég veit ekki betur en þar horfi heldur vel með samkomulag framleiðenda sjálfra og fagna ég því.

Með eggjaframleiðendur er hins vegar annað mál. Þar hefur ekki náðst heildarsamkomulag, jafnvel um það deilt hvort þeir sem vilja semja um framleiðslustýringu ráði við meiri hluta framleiðslunnar. Framleiðsluráð telur það að vísu vera svo, en þar hefur ekki náðst samkomulag. Þeir eru sjálfir með athuganir í samráði við stjórnvöld á leiðum til að koma í veg fyrir meiri háttar slys í þeirri framleiðslu, gjaldþrot og önnur vandræði sem ég held að enginn vilji yfir okkur kalla og mundi eflaust leiða til verulegrar hækkunar á eggjum svo að í samráði við þá er það reynt en alls ekki séð fyrir endann á því máli.

Síðan er spurt í 4. lið: Hvernig hyggst ríkisstjórnin tryggja hagsmuni kartöfluframleiðenda gegn innflutningi þegar jöfnunargjald af innfluttum kartöflum verður ekki á lagt? Það væri réttara að beina þessari fsp. til hæstv. landbrh. en að sjálfsögðu er það m.a. hægt með því að leyfa ekki innflutning fyrr en innlendar kartöflur eru þrotnar. Kannske er það skynsamlegasta leiðin því að álagningu þessa gjalds á innfluttar kartöflur var tekið illa, ef ég skildi rétt, bæði af kartöfluframleiðendum og neytendum og ég get ekki mælt með því að út í það verði farið. Mér sýnist hin leiðin, þ.e. takmörkun á innflutningi meðan þörf er á, vera skynsamlegri.

Um 5. liðinn vil ég segja að það var skýrt tekið fram í svari ríkisstjórnarinnar að þetta er ekki á hennar valdi heldur skv. lögum í höndum annarra. Hins vegar bentu þær athuganir sem við létum fara fram á þessu til þess að ástæða væri til að ætla að verðlag á landbúnaðarafurðum yrði nálægt annarri verðlagsþróun í landinu og til þess að tryggja það betur ákvað Alþingi við afgreiðslu fjárlaga að veita, ef ég man rétt, 125 millj. kr. til þess að greiða niður áburð, en samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum var hann líklegasti liðurinn til þess að valda of mikilli hækkun á landbúnaðarafurðum.

Um umrædda 12,74% hækkun á kjöti er það að segja að framleiðendur ákváðu sjálfir að fresta því a.m.k. Þar tel ég að þeir hafi tekið skynsamlega ákvörðun því að slík hækkun á kjöti yrði tvímælalaust til þess að draga mjög úr neyslu og beina yfir á annað kjöt. Ég skal ekkert segja hvernig því yrði mætt ef til kemur, en ég treysti því að menn fari varlega í slíka gífurlega hækkun á lambakjöti eins og aðstæður eru núna.

Ég vil aðeins segja það að lokum, herra forseti, að ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að það er ætíð mjög vafasamt að blanda slíkum málum inn í kjarasamninga sem viðkoma öðrum stéttum, ég get tekið undir það, en í þessu tilfelli var nánast um það að ræða að ríkisstjórnin svaraði því sem hún best vissi og ég hef nú rakið á hvaða forsendum þau svör voru byggð.