20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

248. mál, yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það hlýtur tvímælalaust að vera hagur allra launþega og neytenda í landinu að við búum við sem allra lægst vöruverð. En eru hagsmunir neytenda best tryggðir með því að frumskógarlögmál ríki á markaði? Eru það hagsmunir neytenda sem við tryggjum best með því að koma á einokun sem ég held að kunni að leiða af þeim kröfum eða þeim óskum sem aðilar vinnumarkaðarins settu fyrir stjórnvöld í sambandi við kjarasamningana í desember?

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason setti jafnaðarmerki á milli einokunar og stjórnunar. Það held ég að sé alrangt af hans hálfu. Ég er miklu hræddari við þá einokun sem kann að verða til ef það verða aðeins stórir aðilar sem verða einráðir í framleiðslunni, heldur en ef við getum komið á skynsamlegu skipulagi. Það er auðvitað ekki tilhlýðilegt að spyrja hv. þm., af því að hann á ekki að svara hér fsp., en eru það ekki hagsmunir launþega að starfsfólk í kjúklingabúum og kartöfluverksmiðjum hafi trygga atvinnu, en með þessu er starfsemi þeirra alveg örugglega teflt í tvísýnu? Eru það ekki líka hagsmunir launþega að halda atvinnu? Ég veit um byggðarlög sem byggja mjög mikið á starfsemi t.d. kjúklingabús og kartöfluverksmiðju og ef svo fer að þessari starfsemi verður að hætta vegna þess að frumskógarlögmál fær að ráða, þá er ég hræddur um að hagsmunir launþega og neytenda séu einnig í húfi.