20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

248. mál, yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Spurt var áðan eða öllu heldur fullyrt: Það er kjarni málsins að ef koma á framleiðslustjórnun á sauðfjárbúskap verði að gera það að því er varðar aðra kjötframleiðslu einnig. Ég vil nota þetta tækifæri til að benda mönnum á og vekja athygli á svari Vilhjálms Egilssonar, frambjóðanda Sjálfstfl. í Norðurlandi vestra, af þessu tilefni. Hann sagði: Framleiðslustjórnun á öðrum framleiðslugreinum kjötframleiðslu verður auðvitað þeim í hag en ekki neytendum, þ.e. ef það tekst að koma þessum greinum líka undir einokunarkerfi Framsfl. er það til þess fallið að hækka verð. Það verður andstætt hagsmunum beggja aðila, neytenda og bænda, en stærsta hagsmunamál bænda er að sjálfsögðu að lækka tilkostnað sem aðeins verður gert með því að koma samkeppni inn í einokunarkerfið.