20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

Fsp. um yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég finn mig knúinn til að vekja athygli á því að í umræðum um 8. dagskrármálið, 248. mál sem var verið að ræða áðan, var fsp. beint til eins þm. Annar hv. þm. var sakaður um að hafa haft rangt eftir fjarstöddum manni. Báðir þessir þm. óskuðu eftir að gera stutta athugasemd, annar til að svara því sem til hans var beint og hinn til að bera af sér þær sakir að hann hefði haft rangt eftir fjarstöddum manni, og báðum þessum hv. þm. var neitað um orðið og umræðunni lokið. Þetta hygg ég, herra forseti, ég er ekki að deila um úrskurð forseta, að sé í hæsta máta óvenjulegt.