20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Langur var lesturinn hjá hæstv. menntmrh. og ég verð að segja eins og er að litlu erum við nær og raunar lítils vísari þó að lengi væri lesið. Hér er ekki dregið í efa að hæstv. menntmrh. hafi haft vald til að gera það sem hann gerði. Það er ekki dregið í efa. Hins vegar eru ýmsir sem efast um réttmæti þess hvernig hann bar sig að við þetta og þykir heldur fruntalega að farið. Hæstv. ráðh. fór með langar tilvitnanir og margar og ég skal taka undir það að sumt af því orðbragði sem þar var viðhaft var svo sem ekki til fyrirmyndar, en hæstv. menntmrh. er nú enginn viðvaningur í þeim efnum eins og allir hv. þm. vita og satt að segja þótti mér með ólíkindum hve líkt þarna var oft í tilvitnuðum ummælum tekið til orða og hann sjálfur gerir í umræðum á Alþingi. Og þegar hæstv. menntmrh. talar um orðið sleggjuslátt og þóttist ekki skilja furðaði mig nokkuð því óneitanlega tekur hann býsna oft til orða á Alþingi með svipuðum hætti.

Ekki skulu menn heldur mæla því bót að embættismenn fari ekki að reglum og fylgi ekki fyrirmælum fjárlaga. Það dettur mér ekki í hug. Auðvitað eiga þeir að fylgja þeim reglum sem Alþingi setur og starfa innan ramma þeirra fjárveitinga sem til þeirra starfa koma héðan frá Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið. En einhver kynni að segja sem svo: Hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það. Ég hygg að enginn hæstv. ráðh. hafi gengið jafnlangt í því að fara á svig við fjárlög eins og hæstv. núv. menntmrh. Ég hygg að menn minnist þess þegar hann keypti eins og eina mjólkurstöð án þess að nokkurs staðar hefði verið leitað samráðs eða samþykkis við rétta aðila. Ég er ekki að mæla þessu bót. Það bætir ekki annað þegar menn fara ekki að reglum, en hins vegar skyldu menn varlega kasta steinum úr glerhúsi.

Ég varð líka svolítið hissa á því hvaða orðbragð hæstv. menntmrh. notaði um þá sem hafa aðrar skoðanir en hann í þessu efni. Hann talaði um hyski. Hvað þýðir hyski? Hyski þýðir fjölskylda. Ekki átti hæstv. ráðh. við það. Hyski þýðir líka illþýði. (Menntmrh.: Ég var að tala um Alþýðubandalagsforustu á Akureyri og þú mátt taka það til þín, hv. m., ef þú vilt.) Ég var ekki, hæstv. ráðh., að taka það sérstaklega til mín, en þegar menn nota orð eins og hyski héðan úr ræðustól finnst mér það vera umhugsunarefni hver sem í hlut á og þegar er ekki um annað að ræða en fólk sem hefur aðrar skoðanir en hæstv. ráðh. á ákveðnu máli finnst mér það til lítillar fyrirmyndar.

Mér fannst svo sem líka með nokkrum ólíkindum hvernig hæstv. ráðh. komst að orði þegar hann talaði um þörf barna fyrir sérkennslu annars vegar á Norðurlandi eystra og hins vegar í kjördæmi hans, Austfirðingafjórðungi. Þau ummæli þóttu mér ekki háreist, hæstv. menntmrh., og til lítils sóma og vona að hafi verið mælt í fljótræði, öllum getur orðið það á. En þau voru ekki eins og æðsti yfirmaður menntamála þessarar þjóðar á að tala, þau orð sem hann lét falla hér í þeim efnum úr ræðustóli áðan.

Ég skal virða það samkomulag sem gert var áður en þessar umræður hófust um að menn stilltu máli sínu í hóf. Raunar var ég þeirrar skoðunar að það hefði falið í sér að frummælandi og ráðherra töluðu svo sem kannske ekki mikið meira en hálfa klukkustund. Hv. málshefjandi fór a.m.k. að þeim tímamörkum, en hæstv. ráðh. talaði sennilega upp undir hálfa aðra klukkustund án þess að það skýrði þó mikið eða bætti miklu við.

Það er held ég fyrst og fremst það sem menn hafa gert athugasemdir við í þessu máli að mönnum þykja þetta fruntalegar aðfarir og farið að með nokkru offorsi. Hæstv. forsrh. segir í Degi í gær, með leyfi forseta: „Algerlega andsnúinn svona vinnuháttum," segir forsrh. um fræðslustjóramálið, „og ég á eftir að sjá hvernig hann stendur við stóru orðin. Ég skil þetta ekki og eins og ég sagði í ræðu minni áðan verður fjallað um þetta í ríkisstjórninni á þriðjudag.“

Hér segir einnig, með leyfi forseta:

„Mér varð mikið hugsað um það eftir að framkvæmdastjóra lánasjóðs var vikið úr starfi að það er vandmeðfarið, þetta vald. Að mínu mati má ráðherra alls ekki nota þetta vald nema hann sé reiðubúinn til að leggja á borðið þau rök sem hann hefur fyrir sinni ákvörðun. Þótt ég ætli ekki að gerast dómari í þessu máli verð ég að segja að ég er algerlega andsnúinn svona vinnuháttum.“

Ég vil taka undir þessi orð hæstv. forsrh.

Hæstv. menntmrh. er afar lagið að gera hlutina með þeim hætti að eftir er tekið og verður að miklu fjölmiðlafóðri. Rýmið í fjölmiðlunum hefur aukist að undanförnu og við það eykst sýnist mér í veldi sú umfjöllun sem mál á borð við þetta fá. Það er kannske umhugsunarefni.

Mér finnst það ámælisvert hvernig hæstv. menntmrh. hefur haldið á þessu máli. Mér finnst hann hafa gert það með klaufalegum hætti og furðulegum og nánast óskiljanlegum hætti. Þetta mál hefur verið látið hanga hér, ef svo mætti segja, uns það er orðið að heitu tilfinningamáli, uns það er orðið að máli sem er kannske einhvers konar prófsteinn á skólastefnu ef hún er þá til í þessu landi, kólastefnu í sérkennslumálum gagnvart landsbyggðinni annars vegar og gagnvart höfuðborgarsvæðinu hins vegar, suðvesturhorninu. Hvers vegna, og ég spyr hæstv. ráðh., var ekki farin sú leið að víkja umræddum starfsmanni frá um stundarsakir meðan þetta mál var rannsakað? Það hefði verið hin eðlilega og rétta málsmeðferð. En það sem hefur gert þetta mál að því sem það er nú orðið í fjölmiðlum og sjálfsagt þess vegna í vitund flestra, og það hefur ekki breyst við langa ræðu hæstv. ráðh. nú, er að mér finnst að hæstv. ráðh. hafi í rauninni ekki lagt fram nein gögn í þessu máli heldur hafi hann kosið að tala meira og minna í hálfkveðnum vísum og gefa í skyn að ekki væru öll kurl komin til grafar í málinu, hann ætti tromp á hendinni, hann ætti eitthvað það í handraðanum sem breytti öllum gangi þessa máls.

Ég verð að segja eins og er að ég heyrði það ekki í ræðu hæstv. ráðh. áðan og mér finnst það ámælisvert og mér finnst á það hafa skort að hæstv. menntmrh., æðsti yfirmaður skólamála í landinu, hafi lagt þetta mál fyrir skýrt og skilmerkilega í stuttu og greinilegu máli, hverjar þær ávirðingar væru sem gerðu að verkum að rétt væri að reka þann starfsmann sem hér um ræðir með þeim hætti sem gert hefur verið. Þetta finnst mér fyrst og fremst hafa á skort í málinu. Ég verð að segja alveg eins og er að sú langa ræða, sem ráðherrann flutti hér áðan, skýrði þetta mál ekki til mikilla muna. Þó að þar væri vitnað í ýmsar gamlar skýrslur og ummæli þar, sem betur hefðu kannske ekki verið sögð eða skrifuð, gat ég ekki heyrt að þar kæmi neitt það nýtt fram sem styddi rökum það, sem hæstv. ráðh. hefur hvað eftir annað gefið í skyn, að ýmislegt væri ósagt og margt ætti hann enn í pokahorninu til að réttlæta sinn málstað og það sem hann hefur gert.

Fjölmiðlafárið í kringum þetta mál hefur ekki skýrt það vegna þess að skýringarnar hefur skort. Það vantar að það komi fram sem hæstv. ráðh. hefur verið að gefa í skyn. Vegna þess og þar af leiðandi hygg ég að ýmsir hafi átt erfitt með að mynda sér skoðanir í þessu máli.

Eitt af því sem ég hef velt fyrir mér hér: Eru það embættismenn sem hafa ráðið ferðinni í þessu máli vegna langvarandi ósamkomulags hugsanlega? Var verið að leysa þetta mál með þeim hætti? Hefur ráðherra að öllu leyti fengið rétta mynd af málinu? Ég er ekki að segja að svo sé eða svo hafi ekki verið, en þetta eru spurningar sem vakna.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu með tilliti til þess að hér eru margir á mælendaskrá og skammur tími. Það væri ástæða til, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni, að hafa um þetta ýmis fleiri orð. En mér finnst engu að síður að þetta mál kalli enn á frekari skýringar en komu fram í ræðu hæstv. ráðh. og það er raunar sannarlega ærin ástæða til þess að fram fari sérstök rannsókn á þessu máli þannig að allar staðreyndir þess liggi ljóst fyrir og menn geti þá metið hvort ástæða var til að grípa til þeirra harkalegu aðgerða sem hæstv. ráðh. gerði.

Hann hefur gert það áður varðandi embættismann og eins og ég sagði í upphafi máls míns er honum lagið að gera hlutina með þeim hætti að eftir er tekið. Stundum getur það verið nauðsynlegt, en stundum getur það líka verið óheppilegt og stundum getur það verið gert á röngum forsendum.

Í mínum huga eru ekki efasemdir um að hæstv. ráðh. hefur valdið. Valdið er hans. En það eru verulegar efasemdir um að hann hafi beitt valdi sínu með réttum og skynsamlegum hætti í þessu máli og það finnst mér að þurfi að skoða betur og það finnst mér að rannsókn eigi að leiða í ljós.