20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég harma mjög hvernig þetta mál hefur þróast og að hæstv. menntmrh. skyldi taka á þessum málum eins og raun ber vitni. Ég efast ekkert um að hann hefur vald til þess. Hitt er annað mál, hvort það sé réttlætanlegt að nota slíkt vald undir þessum kringumstæðum. Ég verð að segja það að mér blöskraði þegar hæstv. ráðh. talaði um þetta „hyski“ og að fræðslustjóri Norðurlandskjördæmis eystra væri leiksoppur „verri manna“. Hverjir eru þessir verri menn? Er það fræðsluráð? Eru það skólastjórarnir? Hverjir eru þessir menn? Ég þekki marga af þessum mönnum. Ég þekki vel formann fræðsluráðs. Ég held að það sé ekki sæmandi hæstv. ráðh. að taka þannig til máls hér í hv. Alþingi.

Ég get viðurkennt það að sumt af því sem hann las upp hér áðan hefði ég ekki viljað setja á bréf, en hvort það réttlætir brottrekstur er annað mál. Ég er ekki svo fljótur að átta mig á öllum þeim lestri sem hæstv. ráðh. las hér upp og ætla ekki að setja mig í dómarasæti um hvernig framsetning var á þessu máli, en ég efast um að sá stíll eða það orðbragð eða hvað við viljum kalla það réttlæti slíka aðgerð. Það má minna hæstv. ráðh. á það að hann er svolítið hvatvís sjálfur stundum í orði oft, eða var, hér í þessum ræðustól. Ég ætla ekki að ræða þessi mál á þennan veg frekar.

Það sem þetta mál snýst fyrst og fremst um er: Á að mismuna nemendum? Við mig hafa talað ýmsir sem eiga börn sem þurfa á þessari kennslu að halda og þeir segja: Ef svo fer fram sem horfir, þá neyðumst við til þess að fara þangað sem slík kennsla er veitt. Og hvert er það? Það er til Reykjavíkur. Þess vegna er ég eiginlega undrandi á því ef hæstv. ráðh. hefur sett sig nógu vel inn í þessi mál. Ég bara trúi því ekki að hann hafi gert það. Það væri frekar hægt að segja um hans starfsmenn að það séu þar verri menn á bak við sem hafa komið honum í þessa stöðu. Ég bara trúi því ekki að hæstv. ráðh. hafi visvítandi staðið þannig að málum að hann sé að mismuna og það fólki úti á landsbyggðinni.

Ég er nú sjaldan sammála hv. síðasta ræðumanni. En margt af því sem hún sagði hér áðan gæti ég gert að mínum orðum. Sé það rétt sem hún upplýsir að t.d. séu það 25 þús. kr. meira sem kemur á hvern nemanda á Austurlandi en í Norðurlandi eystra, þá tala þessar tölur bara sínu máli. Fræðslustjóri er náttúrlega skyldugur og fræðsluráð til að reyna að halda þannig á málum að þessi börn, sem þannig eru greind, fái svipaða kennslu og er hér. Það er því nokkuð erfitt fyrir þm. utan af landi sem vilja minnka aðstöðumuninn í þjóðfélaginu, og ég veit að a.m.k. fram að þessu hefur hæstv. menntmrh. verið einn af þeim mönnum, það er hart undir því að sitja að horfa á þessar tölur. Það er hart.

Ég skildi nú aldrei hæstv. ráðh., þó að kannske eigi ekki að blanda því inn í þessi mál hér, með skólaaksturinn. Þetta með skólaaksturinn, ef það hefði náð fram að ganga, þá var með því verið að auka aðstöðumuninn í þjóðfélaginu þó að sumir hverjir hafi talið, og það er haft eftir hæstv. ráðh., að því sé öfugt farið. Ég hef rætt við marga oddvita núna í hinum strjálbýlli og fátækari hreppum. Ég veit hvað þeir segja um það og hvaða dóm þeir leggja á þetta. Ég átti von á öðru frá hæstv. menntmrh. en hann tæki svona á málum og ég trúi því ekki að hann hafi bara sett sig nógu vel inn í þessi mál, líklegra að það séu aðrir sem hafi leitt hann út í þetta.

Ég held að þetta mál sé ekki búið. Þetta er réttlætismál og séu þessar upplýsingar réttar, ég vil ekkert dæma um það, sem hv. þm. fór hér með áðan, ef þær eru réttar, þá er málið ekki gott, hæstv. menntmrh.

Ég ætla ekki fara að halda hér uppi löngu máli. Ég vil bara spyrja hæstv. menntmrh.: Er þess að vænta að ráðherrann reki skólastjórana og yfirkennarana í Norðurlandsumdæmi eystra? Ég hygg að þeir séu samábyrgir í þessu máli. Hann getur ekki rekið fræðsluráðið því það er kosið af heimamönnum.

Þetta er vont mál og ég endurtek að ég harma stöðu þessara mála. Ég skora á hæstv. ráðh., ég hef reynt hann að mörgu góðu um ævina, að hann endurskoði þetta mál, sé það rétt, sem ég held, að hann hafi farið út í þetta án þess að athuga málið til hlítar.