21.01.1987
Efri deild: 33. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi biðjast velvirðingar á því að ég varð þess valdandi að fundur gat ekki verið hér með eðlilegum hætti s.l. mánudag, en við því gat ég því miður lítið gert.

Ég mæli fyrir frv. til l. um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla, en frv. þetta var lagt fram á Alþingi skömmu fyrir jólaleyfi þm.

S.l. aldarfjórðung hefur fiskverð verið ákveðið með samningum kaupenda og seljenda á vettvangi Verðlagsráðs sjávarútvegsins eða með eins konar gerðardómi í yfirnefnd ráðsins. Það er engin tilviljun að verðákvörðun hér á landi hefur verið með

þessum hætti. Aðstæður og staðhættir hafa skapað þetta verðlagskerfi. Þessar aðstæður einkennast af því að fiski er landað í fjölda hafna víðs vegar um land þar sem eru fáir eða jafnvel aðeins einn kaupandi og seljendur hafa ekki átt í aðrar hafnir að venda nema með ærnum tilkostnaði. Mjög víða fara saman eignarhald að útgerð og fiskvinnslu og því ekki um það að ræða að verð ráðist af samningum óháðra aðila og er eigendum oft hagkvæmast að landað sé í heimahöfn við sem lægst verð vegna hlutaskiptanna. Fram til þessa hafa því ekki verið forsendur hér á landi fyrir frjálsri verðmyndun á fiski með hliðstæðum hætti og gerist í ýmsum þéttbýlli löndum Evrópu.

Hin síðari ár hefur grundvöllur hins fasta verðkerfis hins vegar verið að breytast á ýmsan hátt. Stórbættar samgöngur á landi hafa gert fiskflutning milli hafna mögulegan í auknum mæli. Aukin burðargeta skipa hefur gert þau síður bundin við heimahöfn en áður var. Seljendum hefur opnast auðveldari aðgangur að mörkuðum erlendis, bæði vegna þess að með stærri skipum er fremur hægt að sigla til erlendra hafna og ekki síður með ferskfiskútflutningi í gámum. Jafnframt þessu hafa upplýsingar um verð og sölumöguleika, jafnt á erlendum mörkuðum sem innanlands, stórbatnað með bættri upplýsingatækni. Allt þetta hefur orðið til þess að veikja stöðu fiskkaupenda og gert það raunhæft að huga að breytingum á hinu hefðbundna verðlagningarkerfi.

Á grundvelli þessara breyttu aðstæðna samþykkti Alþingi fyrri hluta árs 1985 ný lög um Verðlagsráð sjávarútvegsins þar sem ráðinu var veitt heimild til að gefa verð á einstökum fisktegundum frjálst, enda hlyti sú ákvörðun einróma samþykkt í ráðinu. Á s.l. hausti var þessari heimild beitt varðandi ákvörðun loðnuverðs. Eftir nokkra byrjunarörðugleika verður ekki annað séð en þessi tilraun ætli að takast vel og er þess að vænta að sú reynsla sem fengist hefur af þessari tilhögun á loðnuverði leiði til þess að heimild verðlagsráðslaganna til að gefa verð frjálst verði beitt í auknum mæli, sérstaklega þegar óvissa ríkir á mörkuðum. Þær breyttu forsendur í markaðsmálum á ferskum fiski sem ég rakti hér að framan hafa einnig orðið til þess að umfjöllun um stofnun uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla hefur verið mikil að undanförnu.

Sumarið 1985 lagði samband fiskvinnslustöðvanna til að sérstaklega væri kannað hvort unnt væri að koma á uppboðsmarkaði til reynslu á afmörkuðum svæðum. Eftir athugun í sjútvrn. og nokkrar umræður um málið innan sjávarútvegsins skipaði ég síðan hinn 9. apríl s.l. nefnd til að fjalla um málið. Var hlutverk nefndarinnar að kanna hvort unnt væri tímabundið og til reynslu að koma á fót uppboðsmarkaði fyrir fisk hér á landi. Yrði niðurstaða könnunarinnar jákvæð skyldi nefndin jafnframt kanna rekstrarlegar forsendur og athuga hvort aðilar fyndust sem tilbúnir væru til að leggja fram fé til stofnunar og reksturs tilraunamarkaðar með fisk á afmörkuðum landsvæðum. Þar sem óvíst væri hvort slíkur staðbundinn markaður hentaði víða hér á landi var nefndinni jafnframt falið að kanna möguleika á því að koma á fót einhvers konar fjarskiptaneti fyrir fiskviðskipti þannig að verðmyndun á fiski gæti átt sér stað með tilliti til fjarskipta. Í nefndina voru skipaðir Gunnlaugur M. Sigmundsson, formaður, Ágúst Einarsson, Gísli Jón Hermannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Halldór Árnason, Óskar Vigfússon og Ríkarð Jónsson.

Nefndin skilaði áliti í októbermánuði s.l. og er álit nefndarinnar prentað sem fskj. með frv. því sem hér er til umræðu. Leggur nefndin til að komið verði upp tilraunamarkaði með fisk þar sem verðmyndun er frjáls. Telur nefndin að nokkur landsvæði uppfylli þau skilyrði sem séu forsenda slíks markaðar en að tilraun beri að gera með slíkan markað á Faxaflóasvæðinu. Í skýrslu nefndarinnar er síðan fjallað um fyrirkomulag, rýmisþörf, æskilega stærð, stofnkostnað, rekstrarkostnað og rekstrarform slíks markaðar. Sé ég ekki ástæðu til að rekja þau atriði hér, en vísa til nál. í fskj. I.

Í framhaldi af fréttum um niðurstöðu nefndarinnar hafa síðan borist fregnir af því að verið sé að undirbúa stofnun fiskmarkaðar víða um land. Ég verð að segja að mér finnst nóg um það kapp sem hlaupið hefur í menn til framkvæmda í þessu máli. Menn hafa árum saman rætt um að æskilegt sé að koma á fót uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla hér á landi. Ég tel að úr því þurfi að fást skorið hvort þetta sé vænlegur kostur og það verði ekki gert nema gerð sé tilraun með slíkan markað í fyrstu.

Ég tel einnig að með afnámi sjóðakerfisins á s.l. vori hafi skapast möguleikar til að slík tilraun sé gerð með raunhæfum hætti. Ég er því sammála niðurstöðum nefndarinnar um að slíka tilraun beri að gera. Ég held hins vegar að meta þurfi niðurstöður þessarar tilraunar áður en lengra er haldið á þessari braut. Það er geysileg breyting á verðlagningarkerfi fyrir sjávarafla sem hér er verið að tala um, raunar bylting. Hún kann að hafa víðtæk áhrif á ýmsum sviðum, t.d. varðandi uppbyggingu og skipulag fiskvinnslunnar, þróun fiskverðs, byggðamál og svo mætti lengi telja. Ég held því að við verðum að fara varlega í þessu máli og meta niðurstöðu tilraunarinnar áður en lengra er haldið.

Í frv. því sem hér er til umræðu er skapaður lagalegur grundvöllur til stofnunar uppboðsmarkaðs fyrir sjávarafla í tilraunaskyni. Lagt er til að lögin séu tímabundin og falli úr gildi í árslok 1988. Með því er tryggt að mál þessi komi á ný til skoðunar og ákvörðunar á Alþingi þegar nokkur reynsla er fengin af þessu verðlagningarfyrirkomulagi.

Samkvæmt frv. þarf sérstakt leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla. Er það í samræmi við það sem tíðkast í erlendri löggjöf um slíka markaði, t.d. í Danmörku. Í ljósi hins víðtæka áhuga sem virðist vera fyrir stofnun uppboðsmarkaða sýnist óhjákvæmilegt að hafa stjórn á því hversu margir markaðir eru settir á fót og að markaðir verði ekki stofnsettir annars staðar en þar sem viðskiptalegar forsendur eru til slíks, m.a. hvað varðar nægilegan fjölda kaupenda og seljenda. Þá er einnig nauðsynlegt að fastmótaðar reglur gildi um starfsemi hvers einstaks markaðar, t.d. um það hvenær skip þurfi að tilkynna afla á markað, hvort skip sé bundið við slíka tilkynningu, hvenær landað skuli og hvaða reglur gildi um framkvæmd uppboðsins sjálfs. Er í 4. gr. gert ráð fyrir að leyfishafi skuli leita samþykkis ráðherra fyrir slíkum starfsreglum áður en rekstur hefst og að slíkum starfsreglum verði ekki breytt nema að fengnu samþykki ráðherra.

Í 2. gr. eru sett sömu skilyrði um heimild hlutafélaga til að reka uppboðsmarkað og gilda samkvæmt lögum nr. 39/1922 um rétt til að reka fiskvinnslu á Íslandi. Jafnframt eru sett skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt og fasta búsetu einstaklinga sem stofnsetja vilja markað, sem og um fjárræði og búsforræði.

Með 3. gr. eru tekin af tvímæli um að þær reglur sem gilda um hreinlæti, húsnæði og meðferð afla í fiskvinnslustöðvum gildi einnig um uppboðsmarkað eftir því sem við getur átt.

Með 5. gr. er lögð upplýsingaskylda á rekstraraðila uppboðsmarkaðar. Er nauðsynlegt, bæði vegna hagsmuna kaupenda og seljenda, að frammi liggi upplýsingar um verð og aflamagn. Þá er í greininni kveðið á um skyldu rekstraraðila uppboðsmarkaðar til að gefa Fiskifélagi Íslands og öðrum opinberum aðilum upplýsingar.

Með 6. gr. er lögð skylda á rekstraraðila uppboðsmarkaðar til að standa skil á uppboðsandvirði hins selda afla til seljanda og sjá um skil á greiðslum vegna hans inn á greiðslumiðlunarkerfi sjávarútvegsins. Er þetta í samræmi við tillögur fiskmarkaðsnefndarinnar. Samkvæmt ákvæðum laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins hvílir skylda til að skila fé inn í greiðslumiðlunarkerfið almennt á kaupanda, en fari afli í gegnum uppboðsmarkað er mun eðlilegra að rekstraraðili markaðarins annist þessar greiðslur. Samkvæmt almennum reglum greiðslumiðlunarlaganna miðast greiðslur inn í greiðslumiðlunarkerfið við samanlagt hráefnisverð aflans, sé landað til vinnslu innanlands, en brúttósöluverðmæti ísfisks sem seldur er í erlendri höfn.

Með 3. mgr. 6. gr. er lagt til að sú sérregla verði sett varðandi uppboðsmarkaðinn að greiðslur vegna greiðslumiðlunarinnar miðist við uppboðsandvirði að frádregnum kostnaði af uppboðinu.

Í 7. gr. er lagt til að við sölu á uppboðsmarkaði gildi ekki það lágmarksverð sem ákveðið er af Verðlagsráði sjávarútvegsins. Er þetta í samræmi við tillögur meiri hluta fiskmarkaðsnefndarinnar. Þetta er eðlileg regla þar sem gæði fisks, framboð og eftirspurn eiga að ráða verði á uppboðsmarkaði.

Loks er í 8. gr. kveðið á um að löggilda skuli einn starfsmann uppboðsmarkaðar til að annast framkvæmd sjálfs uppboðsins.

Með frv. þessu er stefnt að því að lögfesta einfaldar meginreglur um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla og marka slíkum uppboðum lagaramma án þess að kæfa þau í frumskógi opinberra reglna. Með því eru skapaðar forsendur til að gerð sé tilraun með nýtt verðlagningarkerfi á fiski hér á landi. Nauðsynlegt er að slík tilraun eigi sér stað þannig að úr því fáist skorið hvort þetta sölufyrirkomulag henti hér á landi. Hins vegar verður að hafa hugfast að hér er aðeins um tilraun að ræða. Nái frv. þetta fram að ganga kemur málið til skoðunar að nýju innan tveggja ára og verður þá unnt að meta framhald þess í ljósi fenginnar reynslu.

Ég vil að lokum leggja til, virðulegur forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.