21.01.1987
Efri deild: 33. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Frv. til laga um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla er frv. sem beðið hefur verið eftir og þrýst á að kæmi fram. Það hafa fæðst hugmyndir um það í hinum ýmsu byggðum að koma á uppboðsmarkaði, en skort hefur lagasetningu til að það væri unnt.

Ég vil í upphafi segja að ég er í aðalatriðum sammála frv., það er einfalt og leggur ekki of miklar kvaðir á þá sem að þessu munu standa. Það væri miður ef svo væri gert og er rammi til þess að byggja á. Vera má að í nefndarstörfum komi fleira í ljós, en ég tel að skynsamlegt sé að hafa þennan lagaramma svo knappan sem raun ber vitni.

Hvað varðar uppboðsmarkað á ég von á að í framtíðinni verði minna um það en mann grunar að fiskur verði keyrður upp í hús til uppboðs heldur fari þessi viðskipti fram meira og minna í gegnum fjarskipti og ég hygg að svo sé þróunin í öðrum löndum. Það er deilt um hvernig með þessi mál skuli fara og margir hafa athugasemdir fram að færa við það ef fyrirhugað er að geyma aflann eða setja hann inn í hús. Þær röksemdir sem færðar eru fram í því eru þær sem hv. 4. þm. Vesturl. ræddi um hér áðan og varða rýrnun á fiskinum. En ég hygg að hægt sé að komast hjá því ef ýtrasta tækni er notuð til þessara hluta.

Þessa markaði er hægt að setja hvarvetna á landinu svo framarlega sem menn uppfylla þau skilyrði sem um getur í 2. gr. Við skulum vænta þess að menn á Suðurnesjum og Snæfellsnesi uppfylli þau skilyrði að vera fjárráða eða hafa forræði á búi sínu þótt menn gruni það, ef svo heldur áfram sem horfir að skip og bátar streymi a.m.k. frá Suðurnesjum, að erfitt verði að uppfylla þessi skilyrði. Hitt er annað að ég vona að svo verði ekki.

Það var vísað áðan til annarra þjóða. Yfirleitt er það að svona uppboðsmarkaðir eru þar. Ef rætt er um Noreg og Nýfundnaland má geta þess að sums staðar í Noregi eða á flestum stöðum eru uppboðsmarkaðir og einnig á Nýfundnalandi, en hafa verður í huga að í þessum löndum eru fiskveiðar nokkurs konar atvinnubótavinna sem við getum lítt jafnað okkur við.

Menn velta fyrir sér hvernig þessi markaður kunni að verka. Ég held því fram að hann geti orðið til mikilla bóta í ýmsum tilvikum. Okkur er öllum kunnugt um að fiskur er mikið fluttur út í gámum núna eða beint eftir öðrum leiðum. Ég veit að t.d, í desember s.l. skorti fisk í frystihúsunum hér suðvestanlands, en skipin sigldu grimmt til annarra landa með fiskinn. Þar fékkst mjög lágt verð og ég hygg að það hafi ekki borgað sig að selja á erlendum markaði eftir þeim leiðum sem var gert þar, í gámum. Ég hygg að frystihúsin hefðu getað boðið í þennan fisk ef hann hefði verið á uppboðsmarkaði og fengið fiskinn og vinnuna hingað heim í stað þess að útgerðin þyrfti að lúta því verði sem var erlendis, mjög lágt verð, undirverð ef svo mætti segja.

Það mætti taka ýmsa aðra þætti til og rökstyðja að það sé ástæða til að setja upp markaði til að vera í takt við tímann, en ég læt það vera í þetta sinn, mun geyma það til 2. umr. og í nefnd. Ástæða væri líka til að ræða um fiskveiðistefnuna sem birtist í sinni verstu mynd suður á Suðurnesjum sem eru að missa sín aflaskip annað. Það mætti rekja það hvers vegna það er, hvers vegna sú þróun hefur orðið, hvers vegna sjávarútvegur er að brotna niður á þessum svæðum, en tími vinnst ekki til þess núna. Ég held að ég geymi frekari umræður þar til síðar.