21.01.1987
Neðri deild: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það leyndi sér ekki í umræðunum í fyrradag að það er skammt til kosninga. - Ég hefði viljað hafa hv. 5. þm. Austurl., Hjörleif Guttormsson, hérna við umræðuna.

Ég sagði í upphafi máls míns að það væri auðséð að stutt væri í kosningar. Hv. þm. lét sér það sæma að segja að ég væri á móti þriðja stjórnsýslustiginu. Ég vil í því sambandi lesa niðurlag ræðu minnar, sem ég hef hérna fyrir framan mig, með leyfi forseta.

„Ég hef sagt það í mörg ár að ef Alþingi Íslendinga leysir ekki þessi mál er engin spurning að það verður uppstokkun í öllum stjórnmálaflokkum sem nú eru. Það er ekki spurningin hvort það verður, það er spurningin hvenær það verður ef ekki verður hlustað á þessi mál. Því er það áríðandi og er í sjálfu sér komið á elleftu stundu að hv. alþm. taki þessi málefni til yfirvegunar og athugunar, nema þeir vilji láta þessi mál þróast áfram eins og ég tel að þau séu að gerast í dag og taka þá afleiðingunum af því. Það er enginn vafi á því að menn sætta sig ekki við þá skiptingu, hvorki launamun né aðstöðumun, og þess vegna er ekki nóg að flytja svona mál. Ef Alþingi ætlar að hundsa þetta aftur, taka ekki hvert atriði eða a.m.k. mikilvægustu, þýðingarmestu atriðin til könnunar og yfirvegunar og athuga hvort það eru aðrar leiðir til að ná því markmiði sem þau samtök sem sömdu þetta, þ.e. samtökin um jafnrétti milli landshluta, settu sér, þá mun sú þróun verða sem ég hef hér komið inn á.“

Hvað segir þetta? Ég treysti mér ekki til að segja að eitt eða annað atriði sé það rétta í þessu efni. Ég vil ekki segja að það sé eina leiðin að stofna fylki. Það getur verið um annað að ræða í því sambandi, annað stjórnsýslustig sem e.t.v. kæmi að svipuðu gagni. En ef Alþingi athugar ekki þetta frv., og heyrist ekkert frá því nú, þá lít ég svo á að það sé enginn vilji fyrir því eða skilningur til að hlusta á þetta mál og þá mun ég alveg án umhugsunar leggjast á sveif með þeirri hugmynd, að vísu mun ég reyna að breyta einhverju sem felst í þessu frv., m.a.s. um fylkjaskipan ef við finnum ekki í sameiningu aðra leið til að ná þessu marki.

Hv. 5. þm. Austurl. ræddi um þá landbúnaðarstefnu sem hefði ríkt hér síðustu ár, en hann minntist ekki á það sem gerðist í þeirri ríkisstjórn þar sem hann var ráðherra fyrir Alþb. og þá afstöðu sem hans flokkur tók í sambandi við málefni landbúnaðarins. Ég vil minna hann á t.d. mánaðamótin júlí og ágúst 1982 þegar það var skilyrt af hálfu Alþb. að ef tekið yrði á verðbólgumálunum þá yrði að draga úr útflutningsbótum til landbúnaðarins. Hvað hefði það þýtt ef fallist hefði verið á þetta miðað við þá miklu þörf sem var þá fyrir hendi í sambandi við uppbætur til að flytja út landbúnaðarafurðir?

Í sambandi við lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins og fleira, sem við breyttum 1979, þá lagði ég það til við þáv. landbrh. að breyta jarðræktarlögunum á þann veg að það yrði tímabundið í fimm ár dregið úr styrk til ýmissa framkvæmda en að bændur héldu þessu fjármagni næstu fimm ár til þess að byggja upp eitthvað annað vegna þess að þá blasti við að draga yrði úr framleiðslu hinna hefðbundnu búgreina. Hvernig var svo staðið við þetta? Frv. var flutt. Það fór í gegnum þingið. Fyrsta árið var staðið við þetta. Hver var þá fjmrh. í þeirri ríkisstjórn? Það skyldi þó ekki hafa verið Alþýðubandalagsmaður? Þetta var sem sagt svikið og þess vegna var sá tími ekki notaður til þess að byggja upp eitthvað annað á þessum árum. Hv. þm. var ráðherra í þeirri ríkisstjórn og hefði getað haft áhrif á þessi mál. En niðurstaðan varð sú að við fengum ekki þetta fjármagn. Þetta var svikið og því fór sem fór. Þó það séu ekki miklir fjármunir, rúmar 100 milljónir eða eitthvað á annað hundrað milljónir, sem hefðu fengist með þessu, a.m.k. miðað við núgildandi verðlag, annars hef ég ekki upphæðina hér við hendina, voru þetta verulegir fjármunir þá og hefðu getað bjargað nokkuð miklu.

Nú stendur þannig á að ekki náðist samkomulag um að draga úr framleiðslunni á lengri tíma eins og bent var á og barist var fyrir, þ.e. til ársloka 1990. Ég ætla ekki að fara að lesa upp hér og nú úr framsöguræðu minni um það mál, en þar kemur fram að ég óttaðist það sem nú er orðið að veruleika að bændur og þeir sem landbúnað stunda misstu svo miklar tekjur að það væri í raun verið að svelta þá út af jörðunum. Þetta er orðin staðreynd, því miður, og það er engin leið að bjarga þessu máli öðruvísi en að breyta til á þann veg að þetta taki lengri tíma og að eitthvað annað verði byggt upp, einhver önnur framleiðsla í strjálbýli, a.m.k. áður en lengra er gengið. Það er búið að ganga of langt að mínum dómi í að skerða þessa framleiðslu.

Ég ætla ekki að fara út í þau mál frekar. Það gefst sjálfsagt tími til þess hér síðar. En það er rétt hjá hv. 5. þm. Austurl. að landsbyggðin stendur frammi fyrir miklum vanda og raunar þjóðin öll. Hitt vil ég að komi fram sem satt er að Alþýðubandalagsmenn eru ekki engilhreinir í þessu máli.

Ég ætla ekki að fara út í þetta málefni frekar. Ég rakti nokkur atriði í fyrri ræðu minni sem ég vildi láta skoða betur og íhuga. Ég tek það aftur fram að ef nefnd sú sem fær þetta til umfjöllunar leggst á þetta frv., þá er það áreiðanlegt að ýmsir taka það svo að ekki sé áhugi á að leita annarra leiða í þessu efni og þá er búið að sýna sig að það er ekki vilji fyrir að fara aðrar leiðir eða ná þessu marki með öðrum hætti, og þá er ekki um annað að ræða en að styðja þetta frv. í meginatriðum og þar með fylkjaskipunina.