21.01.1987
Neðri deild: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær miklu efnislegu umræður sem hafa átt sér stað um þetta frv. Ég held að það sé hárrétt sem kemur fram hjá seinasta ræðumanni, hv. 7. landsk. þm., að þverpólitísk samstaða þarf að sjálfsögðu að verða um mál eins og þetta þó það sé pólitískt á vissan hátt í eðli sínu. Ég leit svo á í upphafi, þegar ég ákvað að leita eftir því að fá hreina afstöðu Samtakanna um jafnrétti milli landshluta um það efni hvort þeir vildu að ég flytti þetta mál eða ekki, að þá hefði ekki verið grundvöllur til þess að ná slíku fram. En mér sýnist að við séum komin í dag mörgum skrefum lengra en menn voru þá í umræðum. Og það verður að segjast eins og er að í þeirri byggðanefnd sem ég átti sæti í fyrir Framsfl. var mér það mikið gleðiefni að kynnast m.a. afstöðu Kvennalistakvenna í þessu máli þar sem þær sýndu meiri víðsýni til landsbyggðarinnar en ég hafði hreinskilnislega búist við þar sem þar var um að ræða þm. úr Reykjavík. En það segir nú ekki allt um afstöðu manna hvar þeir eru kosnir. Það vitum við í svo mörgum málum.

Hér er verið að tala um hluti sem munu vissulega móta stefnu í okkar þjóðfélagi á marga vegu. Verði frv. samþykkt þýðir það það að stjórnunin færist að verulegu leyti nær fólkinu í héruðin sjálf og ég er sannfærður um að það yrði til þess að mjög margir einstaklingar nýir kæmu fram á sjónarsviðið og hefðu afskipti af gangi mála í stjórnmálaflokkunum.

Ég valdi þann kostinn að flytja þetta frv. óbreytt og geri það enn. Ég tel engu að síður og hef ávallt talið að fyrir liggi að það séu ýmis atriði sem sjálfsagt væri að reyna að leita samkomulags um hvort ekki væri hægt að fá breiðari samstöðu og ná þeim fram með því að breyta einu og öðru sem í frv. er. Viss meginatriði verða þó ekki sett út úr frv. Ég lít svo á að það sé sjálfsagður hlutur að kosið sé beinni kosningu til fylkisþinga og tel að það orðalag sem er í frv., að það sé hægt að hafa misjafnan fjölda eftir sveitarfélögum, útiloki alls ekki að kosið sé beinni kosningu, en ég spyr samt sjálfan mig að því hvort það þurfi að líta svo á að fjöldi sveitarfélaganna komi því máli yfir höfuð nokkuð við. Ég er ekki viss um að það sé rökrétt að líta svo á að fjöldi sveitarfélaganna eigi að koma því máli við því það er verið að tala um sjálfstætt millistig. Það er ekki verið að tala um fulltrúa um millistig fyrir sveitarfélögin, heldur sjálfstætt millistig. Og það er einmitt þetta atriði sem hefur staðið alveg í sveitarstjórnarmönnum og valdið gífurlegum misskilningi.

Þegar skýrsla byggðanefndar kemur út þá brjótast ýmsir aðilar fram á ritvöllinn og það eru gefnar út yfirlýsingar sem taka afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem þar birtist. M.a. lýsir hæstv. forsrh. því yfir eftir að hafa lesið skýrsluna að hann sé hlynntur þriðja stjórnsýslustiginu. Kveðjurnar sem komu aftur á móti frá samtökum sveitarfélaga voru á annan veg og lýsa verulegum misskilningi með það sem verið er að gera. Það er eins og þeir hafi litið svo á að þetta þriðja stjórnsýslustig væri úthugsað til þess að taka af þeim verkefni og minnka þeirra valdsvið. Hugsunin á bak við þriðja stjórnsýslustigið er fyrst og fremst sú að færa verkefni frá ríkinu en ekki sú að minnka verkefni sveitarfélaga frá því sem nú er.

Það er athyglisvert að jafnvel félmrh. er með vissar vangaveltur um það í þeirri umræðu að menn séu e.t.v. að rjúfa það að hér sé ein þjóð í einu landi ef þetta verði gert, og skyldi nú engan undra þó að menn snerust gegn frv. ef þeir litu svo á að það væri verið að stefna að því að í þessu landi byggju kannske fimm þjóðir. Ég segi fyrir mig að auðvitað mundi ég greiða atkvæði gegn hvaða frv. sem ég teldi að hefði það markmið að það ættu að búa í landinu fimm þjóðir og ég trúi ekki öðru en svo sé með þm. alla. En slíkar hugmyndir eru náttúrlega fyrst og fremst á misskilningi byggðar.

Á fjórðungsþingi Norðlendinga, sem Dagur segir frá 2. sept. 1986, var rætt um þriðja stjórnsýslustigið og það er orðað svo í þeirra ályktun, með leyfi forseta:

„Þingið telur brýnt að sett verði löggjöf um millistjórnsýslustig sem sæki vald sitt til kjósenda í beinum kosningum. Þetta stjórnsýslustig fái sjálfstæða tekjustofna og hafi umsjón með þorra þeirra verkefna sem nú eru í höndum ríkisvaldsins og eðlilegt að fela lýðræðiskjörinni heimastjórn.“

Þarna er kveðið hreint á um að það er ekki af þeirra hendi verið að tala um að færa eigi verkefnin frá sveitarfélögunum til þriðja stjórnsýslustigsins og það er heldur ekki hugsun þeirra sem standa að samningu þessa frv. að það sé tilgangurinn.

Það kemur aftur á móti fram að sjálfstæðismenn hafa sumir hverjir lagst gegn þriðja stjórnsýslustiginu og það kemur einnig fram að framsóknarmenn hafa sumir hverjir einnig lagst gegn þriðja stjórnsýslustiginu. Það er alveg ástæðulaust að leyna þessu. Þetta eru þær staðreyndir sem blasa við. Ég tel þó að í báðum þessum flokkum sé vaxandi skilningur á því að sé þeirri stefnu fram haldið óbreytt sem nú er, þá styrkist miðstjórnarkerfið jafnt og þétt með þeim afleiðingum sem við höfum orðið vitni að, að þegar um 90% nýrra starfa verða til í þjónustu og jafnhátt hlutfall hennar er á vegum ríkisins, þá er ríkisvaldið fyrst og fremst að segja við þá menntuðu æsku sem er að koma inn á vinnumarkaðinn: Gott og vel, við skulum ráða ykkur í vinnu ef þið starfið hér á þessu svæði.

Sumir hafa litið svo á, og enn vil ég undirstrika það, að höfuðborgarsvæðið sem slíkt hefði ekki þörf fyrir þriðja stjórnsýslustigið. Hér er um gífurlegan misskilning að ræða. Á þessu svæði er þörf á yfirstjórn. Mistökin sem blasa við í skipulagsmálum vegna þess hvernig sveitarfélögin skipta upp þessu landsvæði á milli sín sem er í nágrenni við Reykjavík, mistökin sem blasa við í skipulagsmálum eru svo stór að það dylst engum sem kynnir sér það að hluti af umferðarvandamálum þessa svæðis eru beinlínis tilkomin vegna þess að það hefur ekki verið til þriðja stjórnsýslustigið sem hefur tryggt það að samgöngukerfið tæki nægilega mikið tillit til staðreynda.

Ég verð að segja það einnig að umræðan sem átti sér stað um Borgarspítalann var alveg táknræn fyrir þetta efni. Þar kemur það fram að Reykjavíkurborg er búin að byggja upp þjónustu. Ríkisvaldið tekur þá köldu og ég mundi segja ófyrirleitnu ákvörðun að ákveða að viðkomandi spítali skuli rekinn með hundraða milljóna kr. halla. Þegar slíkir hlutir gerast, þá hljóta stjórnendur Reykjavíkurborgar að spyrja: Hvers vegna á Kópavogur ekki að taka þátt í þessum rekstri? Hvers vegna á Seltjarnarnes ekki að taka þátt í þessum rekstri? Hvers vegna á Garðabær ekki að taka þátt í þessum rekstri? Þ.e. nágrannasveitarfélögin og Mosfellssveitin. Auðvitað þarf þarna að koma til þriðja stjórnsýslustigið og tryggja að það séu ekki ákveðin sveitarfélög sem raunverulega spili á það kerfi að höfuðborgin þarf að byggja upp fyrir sína þegna.

Mér finnst að menn gleymi því í umræðunni um þessi mál að við okkur blasir sem staðreynd svo stórkostleg byggðaröskun vegna þess kerfis sem við búum við og höfum komið upp, svo stórkostleg byggðaröskun að það er hægt að setja það upp í línurit hvenær sum svæði Íslands munu tæmast af fólki, svæði sem aftur á móti er hægt að sanna með tölfræðilegum rökum, efnahagslegum rökum að skila miklum fjármunum til samfélagsins. Ég trúi því ekki að menn álíti það einhvern fjandskap við höfuðborgarsvæðið þegar menn líta svo á að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt, beinlínis efnahagslega hættulegt fyrir þjóðina ef hún stendur þannig að hlutunum að þessi svæði haldi áfram að tapa sínu fólki.

Þegar ákveðið var að fara út í ný kosningalög var því lýst yfir af formönnum stjórnmálaflokkanna að þeir væru reiðubúnir að taka á þessum vanda. Þeir skipuðu nefnd sem hefur skilað samhljóða áliti þar sem það er undirstrikað að verði ekki snúist gegn miðstýringunni þá verði þessu ekki breytt. Það kemur mjög vel fram í þeirri nefnd að sé farið að búa til þau risasveitarfélög sem þyrfti að gera á landfræðilega vísu, þá erum við að brjóta niður lýðræðið í reynd, þá erum við að skapa þá firringu að við erum fjær því að hafa valdið hjá fólkinu en í dag. Þess vegna á að fara í það að sameina sveitarfélögin þar sem þau sjálf eru reiðubúin til þess og þar sem landfræðilegar forsendur eru fyrir slíkum hlutum. En til þess að taka á þeim stóru verkefnum sem þarf að taka á úti á landi til að skapa möguleikana á að koma þar upp þeim þjónustukjörnum og þeim þjónustustörfum sem við þurfum að koma út á landsbyggðina, þá verðum við að koma á þriðja stjórnsýslustiginu. Allt annað er misskilningur. En ef formenn stjórnmálaflokkanna sameinuðust nú um þá skoðun sína að þetta væri bara vitleysa sem nefndin hefði lagt til, þá hljóta þeir sjálfir að verða að koma með tillögur um hvað eigi að gera. Það vill svo til að grunnhugmyndir Samtaka um jafnrétti milli landshluta og niðurstöður þeirra manna sem settir voru í byggðanefndina eru nákvæmlega sömu niðurstöðurnar.

Þess vegna verð ég að segja það að mér finnst það ákaflega leiðinlegt, svo ekki sé meira sagt, þegar ég les það í Tímanum að hæstv. félmrh. hikar svo mjög í þessu máli, og þar er sett upp sem fyrirsögn: „Okkur mun því aðeins vegna vel að hér búi ein þjóð í einu landi“. Það er bara ekkert á dagskrá að stuðla að því að það búi fleiri þjóðir í landinu en ein - og verður ekki á dagskrá mér vitanlega. Hér er um grundvallarmisskilning að ræða. Og það er líka um grundvallarmisskilning að ræða ef menn telja að það séu sveitarstjórnir eða Samband ísl. sveitarfélaga sem eigi að vera grunnaðilinn í því að taka afstöðu til þess hvort hér eigi að vera tvö stjórnsýslustig eða þrjú. Það er verið að tala um að færa verkefnin frá ríkinu. Það er ekki verið að tala um að færa verkefnin frá sveitarfélögunum. Það er verið að tala um að reyna að styrkja sveitarstjórnarstigið það mikið að það ráði við þau verkefni í öllum aðalatriðum sem því hafa verið afhent.

Ég segi fyrir mig, ég tel að það eigi að stefna að því að þriðja stjórnsýslustigið taki yfir sjúkrahúsareksturinn í landinu t.d. Hvers vegna ekki? Hvers vegna á þriðja stjórnsýslustigið ekki líka að taka yfir grunnskólana í landinu? Hvaðan kemur mönnum sú kenning að hægt sé að stjórna þeim betur héðan á Norðurlandi heldur en að það sé gert á Norðurlandi? Og hvaðan kemur mönnum sú kenning að það svæði sem hér er og kýs sína fulltrúa þurfi aðstoð frá þm. utan af landi til þess að segja fyrir um það hvernig eigi að stjórna grunnskólum í Reykjavík? Þetta er eins og hver önnur vitleysa! Að ég tali nú ekki um þegar atkvæðagreiðslur hafa gengið um það að ríkisvaldið eigi að segja fyrir um það hvað þjónustustofnanir sveitarfélaganna eigi að taka í gjald fyrir ýmsa þjónustu sem þær eru með og hafa frjálsar og af fúsum vilja komið sér upp, þá er eins og Alþingi eigi að vera einhver verndari fyrir almenna borgara til þess að snarvitlaus sveitarstjórn, sem fólkið hefur sjálft kosið yfir sig ráðist ekki á fólkið! Hvers lags vitleysa er þetta? Auðvitað hlýtur sveitarstjórnin að vera einfær um að taka ákvarðanir um sína gjaldskrá. Auðvitað hlýtur hún að gera það í þágu fólksins alveg eins og hún kom viðkomandi þjónustu af stað í þágu fólksins. Og auðvitað hlýtur það að vera grundvallaratriði í því sambandi að gera sér grein fyrir því að við komum ekki valdinu til fólksins nema við förum í það að færa eitthvað af því sem Alþingi hefur undir höndum í dag. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann mundi ekki vilja fresta ræðu sinni. Það er augljóst af mælendaskrá að umræðunni getur ekki lokið á þessum fundi og forseti þyrfti nauðsynlega að geta tekið fyrir fjórða dagskrármálið og hefur því í hyggju að fara fram á það við hv. ræðumann að hann fresti ræðu sinni til næsta fundar.) Það er sjálfsagt að verða við óskum forseta.

Umræðu frestað.