22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

217. mál, auðlindaleit í landgrunni Íslands

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Till. sú til þál. sem fyrir liggur á þskj. 232, 217. mál, um auðlindaleit í landgrunni Íslands, varðar málefni sem eru mjög mikilvæg, sérstaklega ef tekið er tillit til lengri tíma. Af hálfu iðnrn. hefur verið unnið nokkuð að þessum málum. M.a. hefur verið starfandi nefnd um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir allt frá árinu 1980. Eitt af ætlunarverkum nefndarinnar skv. skipunarbréfi var að semja drög að reglum um hagnýtar rannsóknir á auðlindum landgrunnsins í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 41/1979, en það er sú lagagrein sem flm. vitna til í grg.

Núverandi aðstæður í efnahagsmálum í heiminum, hið lága verð á málmum og lágt orkuverð hafa leitt til þess að minni áhugi sýnist vera meðal fyrirtækja að kanna auðlindir hafsins, a.m.k. á landgrunninu umhverfis Ísland. Þær þreifingar sem átt hafa sér stað vegna auðlindaleitar hafa ekki enn leitt í ljós mikinn áhuga erlendra aðila. Hins vegar er rétt og nauðsynlegt að reglur verði settar. Ekki er heldur óeðlilegt að vilji Alþingis komi fram með afstöðu til þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu.

Rétt er að minna á að á árunum 1982 og 1983 var unnið í iðnrn. frv. til laga um eignar- og umráðarétt auðlinda hafsbotnsins. Frv. var lagt fram sem stjfrv. á 105. löggjafarþinginu. Í frv. er kveðið á um að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á og í hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær. Einnig er í frv. ákvæði um að enginn megi leita að, taka eða nýta efni á eða í hafsbotninum nema að fengnu leyfi iðnrh. Frv. var vísað til ríkisstjórnarinnar.

Í minni ráðherratíð sem iðnrh. hef ég ekki talið rétt að flytja þetta mál óbreytt auk þess sem ég tel reglugerðarheimildir samkvæmt frv. of rúmar. Frv. þetta var flutt sem þmfrv. á 108. löggjafarþinginu, 116. mál á þskj. 128, og aftur á þessu þingi, 107. mál á þskj. 110. Í því þskj. er gerð nánari grein fyrir vinnu að máli þessu í iðnrn. á liðnum árum. Enn fremur fylgir þskj. samningur sá sem gerður var milli Íslands og Noregs um landgrunnið á milli Íslands og Jan Mayen á árinu 1981. Samkvæmt þessu er ljóst að veruleg undirbúningsvinna liggur þegar fyrir í iðnrn. og hafsbotnsnefnd þess sem getur verið grundvöllur að frekari vinnu að þessu máli. En ég fagna því að þetta mál skuli tekið upp hér á hv. Alþingi og er því meðmæltur að Alþingi taki afstöðu til meginatriða í þessari þáltill.

Ég vil geta þess að frá því að þessi till. var lögð fram hefur verið haldinn fundur á vegum ráðherranefndar Norðurlandanna, sem var haldinn hér í Reykjavík fyrir nokkru síðan, um olíu- og gasvinnslu á vestanverðum Norðurlöndum. Þar var megináherslan lögð á að ræða málið frá sjónarmiði Grænlendinga, Íslendinga og Færeyinga.

Þá má geta þess að Orkustofnun er að koma sér upp tölvubúnaði til greiningar á setlagamælingum þannig að það er óhætt að segja að ekki þurfi að vinna frekari vinnu um þennan þátt erlendis eins og verið hefur.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa langt mál um þetta en er meðmæltur till. eins og hún er lögð fram. Ég vona að árangur geti verið í samræmi við óskir flm., en ég vil þó láta þess getið að það er starfandi sú ráðgjafarnefnd sem ég minntist á og hefur ýmist verið kölluð verkefnisnefnd iðnrh. eða ráðuneytisins eða hafsbotnsnefnd og í henni eru auk formannsins Guðmundar Pálmasonar, sem hv. frsm. minntist á, Gunnar G. Schram, frá Rannsóknaráði Jón Eiríksson eðlisfræðingur, Gunnar Bergsteinsson frá Landhelgisgæslu og Kjartan Thors frá Hafrannsóknastofnun.