22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

225. mál, kennsla í ferðamálum

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem ég flyt á þskj. 241 um stofnun ferðamálaskóla. Með leyfi hæstv. forseta vildi ég lesa tillögutextann sem er stuttur og ég vona hnitmiðaður, en hann hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hraða undirbúningi að stofnun ferðamálaskóla þar sem veitt verði menntun í þeim greinum sem tengjast alhliða ferðamannaþjónustu svo að ekki þurfi lengur að sækja nám í þessari ört vaxandi atvinnugrein til annarra landa.“

Það má segja að tillögutextinn skýri sig sjálfur og það sé því óþarfi að hafa um þessa till. mörg orð eða þær ástæður og þá nauðsyn sem liggur að baki henni.

Við höfum á síðustu mánuðum og síðustu misserum hlýtt á umræðu í þjóðfélaginu sem mjög hefur farið mikið fyrir, ekki síst í fjölmiðlum, um nýjar atvinnugreinar hér á landi. Þar hefur margt verið talað um nauðsynina á að byggja upp nýjar atvinnugreinar eins og fiskeldi, lífefnaiðnað, loðdýrarækt og annað slíkt. Það er rétt og sjálfsagt þegar þjóð sem Íslendingar stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að vexti hinna hefðbundnu atvinnugreina eru takmörk sett af náttúrlegum orsökum á að menn beini sjónum sínum til nýrra átta og velti því fyrir sér hvernig unnt er að auka þjóðarauðinn og tekjur einstaklinganna með því að leggja stund á nýjar atvinnugreinar. En mér hefur þótt sem stundum gleymdist í þessari umræðu og út undan yrði sú atvinnugrein sem lengi hefur verið stunduð hér í landi og þegar hefur sannað tilverurétt sinn, en er kannske af öllum þeim atvinnugreinum sem hér er um að ræða sú sem á sér mesta vaxtarmöguleikana í dag. Það er íslenskur ferðamannaiðnaður. Þessi tillaga beinist að því hvernig við getum sem best eflt þessa atvinnugrein og búið þannig að henni að megi nýtast í framtíðinni.

Í þessari atvinnugrein er um að ræða um 3500 stöðugildi. Það er meiri mannfjöldi, ívið fleira fólk en starfar í öllu íslenska bankakerfinu, og þykir mönnum nú nóg um umfang þess. Engu að síður veitir ferðaþjónusta fleiri landsmönnum atvinnu en bankastarfsemi. Maður sér það af þeirri tölu einni hvílíkur vöxtur hefur verið í þessari atvinnugrein á síðustu árum og hve mikilvæg hún er. Við getum einnig séð það af öðrum upplýsingum. Ef við lítum á þær tekjur sem við höfum af þessari atvinnustarfsemi sést að ferðaþjónusta skilar mun meiri arði í þjóðarbúið en menn gera sér almennt ljóst. Á síðasta ári voru gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum í kringum 4 milljarðar kr. og þá er ekki tekið tillit til hinna svonefndu duldu gjaldeyristekna. Hvað er þetta stór tala, hvað þýða 4 milljarðar kr. í gjaldeyristekjur ef við berum það saman við aðra þætti, aðrar stærðir í atvinnulífi okkar Íslendinga?

Hér er um að ræða gjaldeyristekjur sem eru u.þ.b. 7% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar. Kannske sést enn betur hve mikilvæg þessi starfsemi er af því að þessar tekjur jafngilda um 40% af útflutningstekjum af öllum frystum fiskafurðum landsmanna. Af þeim tölum sést hve gildur þáttur í þjóðarbúskapnum ferðamannaþjónustan er þegar orðin.

En hér er raunverulega ekki um þetta eitt að ræða, stórbætta gjaldeyrisstöðu sem af þjónustu við erlenda ferðamenn leiðir. Aðrar atvinnugreinar hafa einnig hag af henni. Má þar nefna auknar tekjur flugfélaganna, eins og menn þekkja, ekki síst á síðasta ári, gisti- og veitingastaða, sérleyfis- og hópferðaaksturs, leigubifreiðaaksturs, framleiðslu og sölu matvæla, minjagripa og fatnaðar svo að nokkuð sé talið. Þess vegna eru erlendir ferðamenn nokkurs konar viðbót við neytendur landsins á öllum þessum sviðum.

Það liggja nokkurn veginn glöggar tölur fyrir um það að hingað komu á síðasta ári um 115 þúsund erlendir ferðamenn. Á því leikur ekki vafi að sé hér rétt á málum haldið og mótuð ákveðin og markviss ferðamálastefna, þá getur erlendum ferðamönnum farið mjög fjölgandi á næstu árum. En þá vaknar þessi spurning: Hvernig erum við í stakk búnir til að annast störf í þessari atvinnugrein? Á síðustu misserum hefur farið mikil alda um þjóðfélagið að því er varðar byggingu nýrra gistihúsa, nýrra hótela. Mörg eru þegar í byggingu og ekki nema gott eitt um það að segja. Þar hafa menn staðið að verki af miklum stórhug og mikilli bjartsýni og vonandi ekki reist sér hurðarás um öxl. En á hinn bóginn má segja að það er skortur á menntunarskilyrðum fyrir alla þá fjölmörgu sem starfa og vilja starfa í framtíðinni í þessari atvinnugrein. Ekki síst á það við um ungt fólk sem er að svipast um á atvinnumarkaðnum.

Það er markmið þessarar þáltill. að vekja athygli á nauðsyn þess að koma hér innanlands á stofn ferðamálaskóla þar sem ungt fólk og aðrir sem áhuga hafa á framtíðarstörfum í ferðamálum geta sótt sér menntun í þessari vaxandi framtíðargrein. Málum er nefnilega svo háttað, þótt undarlegt megi virðast, að enginn slíkur skóli er til enn þann dag í dag hér á landi. Við sjáum alltaf öðru hvoru í dagblöðum auglýsingar frá norskum skólum, svissneskum skólum og skólum annars staðar í ýmsum löndum, ferðamálaskólum þar sem verið er að bjóða upp á slíkt nám og höfða vitanlega til Íslendinga sem vilja afla sér menntunar á þessu sviði. Hér er um erlenda einkaskóla að ræða, oft mjög dýra einkaskóla, en engu að síður hefur það ekki hamlað því að margir Íslendingar hafa lagt leið sína til Sviss og annarra landa til þess að afla sér menntunar á þessu sviði. Vitanlega eigum við að koma slíkum skóla á fót hér innanlands. Við eigum að koma á fót almennum ferðamálaskóla, þar sem auk gisti- og veitingareksturs yrðu kenndar aðrar greinar sem að móttöku og þjónustu við ferðamenn lúta.

Ég ætla ekki að gleyma eða draga dul á að það starfar nú þegar í landinu og hefur starfað í mörg ár skóli sem sinnir mjög mikilvægum þætti þessa máls. Það er Hótel- og veitingaskólinn. Þar hefur verið unnið mjög gott verk við menntun í þeim greinum sem heyra undir þann skóla. Það er þó ekki nema hluti af ferðamálum sem því tengjast, en mjög mikilvægur hluti. Sá skóli hefur búið við ákaflega slæma starfsaðstöðu til þessa og verið á hinum verstu hrakhólum með alla sína starfsemi. Það er þó vonarglæta á síðustu vikum og mánuðum, sem hefur brugðið á loft í þeim efnum, þ.e. að þeim skóla verði búið nýtt húsnæði í Kópavogi og byggt þar yfir hann fullnægjandi hús.

Árið 1983 var gerður samningur milli menntmrn. og bæjarstjórnar Kópavogs um skólahald á framhalds- og grunnskólastigi þar í bæ. Í þeim samningi er m.a. gert ráð fyrir að komið verði upp skóla í matvælagreinum þar, í Kópavogi, en skóla í matvælagreinum skortir einnig hér á landi. Hagkvæmt yrði að tengja saman Hótel- og veitingaskólann, sem þegar starfar, og nýjan skóla í matvælafræðum. Nefnd, sem hefur fjallað um þessi mál, hefur gert ráð fyrir að við Menntaskólann í Kópavogi verði komið upp bóknámssviðum, gestamóttökubraut og leiðsögubraut sem tengjast þá verknámi í framtíðinni á matvæla- og hótelsviði. Þetta eru enn aðeins fyrirætlanir en þetta eru tillögur undirbúningsnefndar.

Með þessum hugleiðingum hefur ákveðið undirbúningsstarf þegar verið unnið og það er greinilega bæði hagkvæmt og skynsamlegt að tengja nám í ferðamálum við Hótel- og veitingaskólann sem verða mun í Kópavogi þegar viðunandi húsnæði hefur fengist.

Það er dýrt og það tekur tíma að byggja nýjan stóran skóla. Þess vegna ber mjög að fagna því að við fjárlagagerðina nú í desember var tekið inn í fjárlögin heimildarákvæði fyrir ríkisstjórnina til þess að taka lán til að innrétta leiguhúsnæði fyrir Hótel og veitingaskólann í Kópavogi. Þá gæti hann flust þangað sem allra fyrst úr því algjörlega óviðunandi húsnæði sem hann býr við nú. Jafnframt hefur menntmrh. myndarlega og af venjulegum skörungsskap tekið af skarið og lýst því nýlega yfir að ekki komi til greina að flytja þann skóla til Laugarvatns, en um það höfðu verið ýmsar bollaleggingar uppi á haustdögum. Framtíðarstaður þess skóla verður því í Kópavogi.

Það er eðlilegt að tengja námið í ferðamálum, þ.e. nýjan ferðamálaskóla, Hótel- og veitingaskóla Íslands og jafnframt gæti bóknámið farið að verulegu leyti fram í Menntaskólanum í Kópavogi. Meginmálið er einfaldlega þetta: Við þurfum að búa betur að menntun þeirra ungu Íslendinga sem vilja hasla sér völl í þessari mikilvægu og ört vaxandi atvinnugrein landsmanna allra.

Að lokinni umræðu um þessa þáltill., herra forseti, legg ég til að henni verði vísað til menntmn.