22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

225. mál, kennsla í ferðamálum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um stofnun ferðamálaskóla og hefur flm. hennar nú gert glögga grein fyrir máli sínu. Till. gengur í þá átt að ríkisstjórninni verði falið að hraða undirbúningi að stofnun ferðamálaskóla þar sem veitt verði menntun í þeim greinum sem tengjast alhliða ferðaþjónustu svo að ekki þurfi lengur að sækja nám í þessari ört vaxandi atvinnugrein til annarra landa.

Það er hafið yfir allan vafa að ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem um þessar mundir er í mestum vexti af öllum greinum atvinnulífs hér á landi. Frsm. gerði skilmerkilega grein fyrir mikilvægi ferðaþjónustunnar að því leyti sem hún skilar meiri tekjum og gjaldeyri í þjóðarbúið en margir gera sér ljóst. En til þess að við getum tekið á móti erlendum ferðamönnum og veitt þeim upplýsingar um land okkar og leiðbeint þeim á allan veg, þá þarf menntun. Þess vegna er hér rætt um að stofna ferðamálaskóla.

Ferðaþjónustan er margþætt. Til þess að gegna henni eins vel og full þörf er á verður að sinna ýmsum greinum hennar. Það er ekki nóg að geta búið til góðan mat fyrir hina erlendu gesti. Sá sem leiðbeinir þeim þarf ekki síst að vita þó nokkuð mikið um sitt eigið land. Ég er ekki að segja að menn þurfi að vera hámenntaðir en a.m.k. að kunna vel til verka.

Mér dettur í hug saga sem endur fyrir löngu var sögð af Grími bónda á Bessastöðum. Það bar eitt sinn við að nokkrir franskir sjómenn hittu hann og ræddu við hann og töluðu að sjálfsögðu við hann á sínu eigin móðurmáli, frönsku. En Grímur svaraði þeim reiprennandi á sama máli því hann var vel mæltur á frönsku. Þeir urðu alveg undrandi þegar bóndi úti á Íslandi kunni svo vel að svara spurningum þeirra á þeirra eigin móðurmáli svo þeir inntu hann eftir því hvort margir bændur á Íslandi töluðu svo góða frönsku. „Ja, ég er nú með þeim lakari," svaraði Grímur.

Það er hafið yfir allan vafa að almenn menntun hefur verið, og er vonandi enn hér á landi, einnig út um hinar dreifðu byggðir, í góðu lagi. Nú er ekki nema gott eitt um það að segja að stofna skóla bæði í Reykjavík og Kópavogi og hér á höfuðborgarsvæðinu. En landið er meira en höfuðborgin þó góð sé og flestir þeir sem koma hingað vilja sjá landið. Þeir vilja sjá meira en bara höfuðstaðinn Reykjavík.

Þegar rætt er um hvar ætti að velja slíkri menntastofnun aðsetur, þá vil ég leyfa mér nú þegar á þessu stigi að nefna einn stað. Það er Reykholt í Borgarfirði. Allir Íslendingar þekkja Reykholt. Það er einn af frægustu sögustöðum okkar. Það er kirkjustaður frá fornu fari. Þar hefur verið skólasetur um langan tíma og er enn í dag. Frægð þessa staðar erlendis hefur ekki síst haldið uppi einn af frægustu rithöfundum og skáldum okkar á öllum tímum, Snorri Sturluson. Og það er þess vegna sem Norðmenn bera mikla virðingu fyrir þessum stað. Hann er helgur í augum þeirra margra. Reykholtsstaður er og ákjósanlegt skólasetur frá mörgum sjónarmiðum séð fyrir utan það sem nú er nefnt. Þar er jarðhiti, þar er náttúrufegurð og staðurinn er mjög vel í sveit settur.

Enn eitt, að nú er uppi umræða um héraðsskólana. Það þarf að velja þeim stað í skólakerfi landsins og fela þeim verkefni til frambúðar. Við megum ekki láta héraðsskóla okkar molna niður og visna upp. Við verðum að ætla þeim ný hlutverk og bæta verkefnum á námsskrá þeirra í samræmi við kröfur nútímans. Að vísu hefur Héraðsskólinn í Reykholti, sem er búinn að starfa mjög lengi, ævinlega verið vel sóttur og er raunar enn. En það hillir undir breytta tíma í þeim efnum. Aðsókn er að fjara út að héraðsskólum í þeirri mynd sem þeir hafa verið reknir á undanförnum árum af eðlilegum ástæðum.

Ég skal ekki ræða þetta mál lengur nú en aðeins ítreka það að ég tel Reykholt í Borgarfirði mjög ákjósanlegan stað fyrir ferðamálaskóla. Og af því að ég minntist hér áðan á Grím Thomsen, þjóðskáld Íslendinga, þá sakar ekki að geta þess að hann var lengi, árum saman, þingmaður Borgfirðinga.