14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að réttast sé að við höldum okkur við efnið í þessu máli. Ég verð að segja að mér þótti það heldur galgopalegt þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var kominn út í geiminn og farinn að ræða um stjörnustríðsáætlunina í sambandi við þennan einfalda samning um flutninga á sjó. Ég veit að vísu að skipafélagið heitir Regnboginn og regnboginn er á himinhvolfinu, en ekki hefði mér dottið það í hug sem tilefni til þess að fara til stjarnanna og gera að umræðuefni og hnútukastsefni háalvarlegt mál sem reyndar hefur verið á dagskrá hér undanfarna daga.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fór allmörgum orðum um þennan samning, en ég var lengi að bíða eftir afstöðu hans. Hún kom í lokin, nefnilega á þá lund að hann væri andvígur þessum samningi, ekki síst vegna þess að skv. honum yrðu Íslendingar efnahagslega háðir Bandaríkjamönnum og dvöl hersins. Þetta þýðir vitaskuld að hv. þm. vill að Rainbow sé með þessa flutninga því að með þeim hætti yrðum við í þessu máli ekki á nokkurn hátt háðir hinum efnahagslegu hagsmunum sem hann gerði að umtalsefni. Mér kom á óvart að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson taldi að það væri farsælast fyrir Íslendinga að íslensk skipafélög ættu engan þátt í þessum flutningum, að íslenskir sjómenn hefðu enga atvinnu af þessum flutningum og í rauninni hefði það verið forkastanlegt fyrirkomulag þegar Eimskip og Hafskip önnuðust þessa flutninga. Engin önnur ályktun verður dregin af þeim málflutningi sem var uppi hafður af hálfu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.

Ég er algerlega á öndverðum meiði. Ég tel að það sé rétt og skynsamlegt að íslensk skipafélög og íslenskir sjómenn hafi atvinnu, eins og þeir hafa haft alveg þangað til þetta skipafélag kom til sögunnar, af því að stunda þessa flutninga og það sé öryggisatriði fyrir okkur Íslendinga að við séum þátttakendur í þessum flutningum.

Hv. þm. reyndi að tortryggja ákvæði í samningnum þar sem gert er ráð fyrir að þar sem önnur eða eldri ákvæði ganga í berhögg við þennan samning skuli þau víkja. Þetta er auðvitað lykilatriði samningsins. Þetta er það ákvæði sem tryggir að lögin frá 1904 í Bandaríkjunum skuli ekki gilda. Ég held að allmikið ímyndunarafl þurfi til að láta sér detta í hug að þessi samningur, sem fjallar um flutninga á sjó, skuli jafnframt vera um gin- og klaufaveiki, en það gaf hv. þm. Hjörleifur Guttormsson í skyn. Ég held að málflutningur af þessu tagi sé ekki viðeigandi í þessu máli. Hv. þm. hefði hreinlega getað sagt: Ég vil ekki þennan samning. Ég vil ekki að íslensk skip séu í þessum flutningum. Ég vil að Rainbow Navigation sé með þessa flutninga áfram. Ég vil ekki að íslenskir sjómenn hafi heldur neina atvinnu af þessu - því að sú var í rauninni afstaða þm.

Ég get tínt fleira til, herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hneykslaðist á því að í þessum samningi skuli vera tenging við það hvort hér sé her eða við afstöðuna, eins og hann orðaði það, til þess að hér sé her, hann var mjög hneykslaður á þessu. Auðvitað er þessi samningur tengdur því hvort hér er her. Þetta fjallar um flutninga til varnarliðsins og ef hér er enginn her þarf að mínum dómi ekki flutninga til varnarliðsins. Ég geri varla ráð fyrir að hv. þm. hafi verið að hugsa um að við ættum að halda áfram flutningunum jafnvel eftir að varnarliðið væri farið. Nei. Hin afstaðan hlýtur að hafa verið sú, sem hann hafði í huga, að við ættum ekki að standa í þessum flutningum og það kemur þá heim og saman við það sem virtist vera lokaniðurstaða hans.

Hv. þm. var líka hneykslaður á því að Íslendingar hefðu skyldum að gegna, þegar þeir hefðu þennan samning, til þess að annast flutninga til varnarliðsins. Ég held að skyldurnar séu samt svo frávíkjanlegar að ef okkur reynist það ofraun, sem ég ætla nú ekki að muni gerast, að Íslendingar treysti sér ekki til þessa, skila þeir engu tilboði og þá eru ákvæði um það í samningnum hvernig með skuli fara. Hér eru því ekki lagðar á okkur þær byrðar að við getum ekki risið undir þeim.

Mér þótti líka ósanngjarnt hjá hv. þm. þegar hann fjallaði um ósanngjörn tilboð og las einungis þann hluta ákvæðisins sem sneri að ósanngjörnu íslensku tilboði, en í samningnum eru nákvæmlega sams konar orð, að sjálfsögðu, um það ef ósanngjarnt bandarískt tilboð berst og ekki er önnur tilboð að hafa. Og það verður að teljast eðlilegt að slíkt ákvæði sé í þessum samningi.

Ég er sem sagt gjörsamlega á öndverðum meiði við hv. þm. Hjörleif Guttormsson. Ég tel að hér hafi verið stigið mikilvægi skref, fundin lausnarleið í máli sem er búið að angra okkur nokkuð lengi og vera okkur til óþæginda og sem við höfum öll verið mjög óánægð með. Ég er sannfærður um að þjóðin í heild er ánægð með að fengist hafi lyktir í þessu máli og sigur unninn með þeim hætti sem hér hefur orðið.

Ég get getið þess að hinn 24. sept. s.l., um það leyti sem þessi samningur var gerður, birtist grein í Chicago Tribune undir yfirskriftinni: Shultz skrifar undir samning við Ísland til þess að sefa músina sem öskraði. Hér er auðvitað verið að vitna til sögunnar um músina sem öskraði eða „the mouse that roared“ og sjálfsagt hafa ýmsir hér lesið söguna eða séð kvikmyndina sem gerð var á þeim grundvelli.

Í þessari grein segir, með leyfi hæstv. forseta, m.a. og í lauslegri þýðingu minni hér á staðnum: Afkomendum hinna djörfu víkinga, sem uppgötvuðu Norður-Ameríku, Íslendingunum og landhelgisgæslu þeirra með fimm lítil varðskip, tókst að sigra hið máttuga Bretaveldi í þremur þorskastríðum þar sem deilt var um rétt til þess að veiða fisk. Þeir unnu sem sagt í hvert einasta skipti. - Síðan er vitnað í Derwinsky sem við könnumst við og haft eftir honum: Ef við leysum ekki þetta vandamál munu Bandaríkin lenda í þorskastyrjöld.

Það segir líka í þessari grein að Íslendingar hafi sent ströng mótmæli jafnskjótt og Rainbow Navigation tókst að komast inn í þessa flutninga en að það hafi tekið þau mánuði að berast til nokkurs sem eitthvað átti undir sér í utanríkisráðuneytinu. Og síðan, þó að utanríkisráðuneytið samþykkti að hér yrði að taka á málunum, neituðu flotamálaráðuneytið og varnarmálaráðuneytið að taka á því og héldu því fram á sameiginlegum fundum ráðuneytanna að litla Ísland mundi ekki þora að takast á við Bandaríkin. Þegar á hinn bóginn bandarískir embættismenn hjá NATO bentu á að það ætti að taka hótun Íslands alvarlega hvikaði varnarmálaráðuneytið en Elizabeth Dole flutningamálaráðherra stóð enn fast á sínu vegna hagsmuna 25 bandarískra sjómanna. Að lokum um seinustu helgi, segir hér, samþykkti Hvíta húsið og öryggismálaráð Hvíta hússins að gera samning um málið - og það er sá samningur sem við höfum fyrir framan okkur.

Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á hversu nálægt sannleikanum þessi frásögn er, en hún er eftir nokkuð virtan dálkahöfund sem heitir Michael Killian. En ég held engu að síður að nokkur vísbending felist í þessari frásögn af músinni sem öskraði, nokkur vísbending sem við getum tekið til okkar eða lært af. Þessi frásögn sýnir okkur, held ég, veitir okkur innsýn í það hvernig valdakerfið er í Bandaríkjunum og það kostar átak að fá raunverulega áherslu sinna mála, að koma skoðunum sínum á framfæri. Málin komast kannske ekki eins greiðlega áfram þar eins og okkur grunar. Reyndar var það svo í sögunni um músina sem hraut að mótmælin frá því litla landi týndust á bak við ofn og þess vegna lagði það litla land í styrjöld við Bandaríkin eins og þið sjálfsagt munið. Ég ætla ekki að halda því fram að okkar mótmæli hafi týnst á bak við ofn, en þetta sýnir okkur að völdin eru í fyrsta lagi ekki á einum stað og það er yfir marga þröskuldi að fara. Það sannar okkur jafnframt að þegar við stöndum saman og látum vel í okkur heyra og okkur tekst að gera aðilum eins og þeim bandarísku í þessu tilviki alveg fullljóst að okkur sé full alvara náum við árangri rétt eins og við gerðum í þorskastríðinu.

Ég tel, herra forseti, að það sé mjög ánægjulegt að þessi samningur er kominn á og ég lýsi yfir stuðningi okkar Alþýðuflokksmanna við þennan samning og samþykkt hans á þinginu.

Ég vil að lokum einungis koma á framfæri sjónarmiði sem við Karl Steinar höfum áður komið á framfæri við utanrrn. eða fyrrv. utanrrh. Geir Hallgrímsson í sérstöku bréfi um það að þess verði gætt í útboðsskilmálum að ekki fari minni flutningar um Njarðvíkurhöfn eftir að breyting hefur á orðið en verið hafa að undanförnu. Þessi tilmæli ítreka ég vegna þess að það skiptir auðvitað miklu máli fyrir atvinnuástandið sem við vitum að er einmitt veikt á þessu landsvæði.

Herra forseti. Við Alþýðuflokksmenn styðjum þann samning sem lagt er til að verði samþykktur og munum greiða fyrir því að hann fái skjóta afgreiðslu.