22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

225. mál, kennsla í ferðamálum

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka þeim hv. tveimur þm. sem hér hafa tekið til máls í umræðum um þessa till. fyrir orð þeirra og liðsinni við þennan tillöguflutning. Ég vil ekki fara að deila um staðsetningu slíks skóla við minn ágæta vin, hv. 1. þm. Vesturl. Meginatriðið er að slíkri skólastofnun verði komið á fót sem fyrst.

Vers númer tvö er síðan að taka ákvörðun um það hvar þeirri menntastofnun verður valinn framtíðarstaður. Við höfum ýmsar skoðanir í þeim efnum, ég og hv. 1. þm. Vesturl., en ég held að þær séu ekki á nokkurn hátt ósamrýmanlegar og kem ég þar einmitt að orðum hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur.

Þótt hér verði um einn sérskóla að ræða eða fagskóla, sem ég tel að alls ekki eigi að starfa á háskólastigi og ég tel best settan í nánu sambýli við Hótel- og veitingaskóla Íslands, þá er ekkert því til fyrirstöðu að námsbrautir við menntaskóla og fjölbrautaskóla víðar á landinu bjóði upp á nám, fyrst og fremst þá bóklegt nám, í ýmsum greinum ferðamála. Hér er nefnilega um ákaflega víðtækt svið að ræða og hótel- og veitingaþjónustan er ekki nema einn hluti þess, þótt ferðamaðurinn verði auðvitað því ánægðari því betra sem hann fær að borða. En það eru fjölmörg önnur atriði sem koma hér til greina.

Það er rekstur ferðaskrifstofa sem er sérhæft fag og ákaflega mikill áhugi á. Einkafyrirtæki gekkst nýlega fyrir námskeiði hér í bæ um útgáfu flugfarseðla. Ég held að það hafi tífalt fleiri skráð sig á námskeiðið en komust þar að og sýnir það hve gífurlega mikill áhugi er einmitt á störfum á þessu vaxandi sviði. Það er gestamóttaka í sambandi við hótelrekstur. Það er leiðsögn ferðamanna. Þar er um að ræða námskeið fyrir leiðsögumenn í dag, en í þeirri grein mætti vera miklu víðtækari menntun. Það er þekking á náttúru landsins. Það er þekking á sögu landsins og það er vitanlega almenn tungumálakunnátta. Það er svo fjölmargt sem kemur einmitt hér til greina sem kenna mætti á hinum ýmsu námsbrautum víða um land og þarf alls ekki að binda við einn sérskóla.

Hins vegar er það ekki vansalaust þegar um er að ræða svo mikilvæga atvinnugrein, atvinnugrein sem ég tel að eigi sér hvað mesta vaxtarmöguleika á næstu árum, að hún eigi sér ekki sinn skóla. Við þurfum að eiga vel menntað fólk, fólk sem ekki þarf að sækja menntun sína út fyrir landsteinana og fara í rándýra einkaskóla erlendis. Við eigum að sjá fyrir þörfum þess hér heima á okkar eigin landi.

Ég vil ítreka þakkir mína til þeirra þm. sem til máls hafa tekið í þessari umræðu. Ég veit að þeir ráðherrar sem þessi mál heyra undir munu þegar hafa hugleitt þessi efni. Í sjálfu sér má velta því fyrir sér hvort hér þyrfti að vera um algeran ríkisskóla að ræða, hvort hér gæti ekki risið skóli sem væri að nokkru leyti á vegum ríkisins, eins og Hótel- og veitingaskólinn, en jafnframt á vegum þeirra aðila sem í ferðamálaiðnaðinum starfa sjálfir. Þar höfum við mjög gott og merkilegt fordæmi um rúmlega ársgamlan skóla, Útflutnings- og markaðsskóla Íslands, sem rekinn er í sameiningu af Stjórnunarfélagi Íslands að 90% hluta og Útflutningsráði Íslands, sem er 10% eigandi skólans. Hér eru það sem sagt hinir svonefndu hagsmunaaðilar, þ.e. þeir aðilar sem á þessum vettvangi starfa, sem reka þennan skóla. Skólastarfið hefur gengið mjög vel. Þarna er ekki um ríkisskóla að ræða heldur eingöngu einkaframtaksskóla ef svo mætti kalla það. Og mér finnst mjög vel koma til athugunar í þessu efni að hér gengju einkaaðilar og ríkið til samvinnu einmitt um stofnun þess ferðamálaskóla sem svo sárlega vantar í þetta þjóðfélag.