22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Brottvikning fræðslustjóra á Norðurlandi eystra hefur vakið æðimikla athygli og fátt verið annað meira um rætt en þetta mál. Hæstv. ráðh. hefur reynt að telja mönnum trú um að af illum hvötum væru andstæðingar hans að gera úr þessu pólitískt mál, menn væru að blása út þetta mál af pólitískum ástæðum. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðh. um að þetta mál á ekki að vera pólitískt mál, enn síður flokkspólitískt. Það hefur heldur enginn haldið því fram, eins og hann réttilega nefndi hér áðan, að um einhvers konar pólitíska ofsókn sé að ræða og það verður alls ekki með neinum rétti sagt að viðbrögð manna við aðgerðum ráðherra hafi verið pólitísk í eðli sínu. Við höfum séð að gagnrýnendur ráðherrans hafa komið úr öllum hinum pólitísku stjórnmálaflokkum, bæði þeirra sem sitja á þingi og þeirra sem ekki gera það. Það hafa fyrst og fremst verið skólamenn sem hafa gagnrýnt ráðherrann og satt best að segja er ráðherrann sá eini sem hefur reynt að gera þetta mál pólitískt - og vildi ég nú krefjast þess að hann sé hér viðstaddur og hlýði á mál manna þegar hann á sjálfur í hlut. (Forseti: Hæstv. ráðherra hafði samráð við forseta um að víkja örskamma stund af fundi. En hann er í húsinu. Óskar þm. eftir að það verði gerð gangskör að því að fá ráðherra þegar í stað?) Eindregið. (Forseti: Þá verða gerðar ráðstafanir til þess.)

Herra forseti. Ég get engan veginn unað því að hæstv. ráðh. taki bróðurpartinn af ræðutíma Alþingis um þetta mál, bæði á þriðjudag og svo aftur í dag, með tveimur ræðum sem eru samanlagt orðnar nokkuð langar, en víki svo sjálfur af fundi þegar menn vilja ræða hans mál, og fagna ég því að hann skuli kominn aftur í salinn. (Forseti: Það skal ítrekað, sem forseti sagði rétt áðan, að hæstv. ráðh. fór í samráði við forseta úr þingsal augnablik.) Já, já, ég var ósköp einfaldlega að gera grein fyrir því hvers vegna ég hef óskað eftir því að ráðherrann kæmi og hlýddi á mitt mál.

Ég sagði áðan að það væri engan veginn hægt að segja að þetta væri pólitískt mál vegna þess að hann hefur verið gagnrýndur í þessu máli af stjórnmálamönnum úr öllum flokkum og fyrst og fremst af skólamönnum víðs vegar um land, sérstaklega á Norðurlandi. Sá eini sem hefur reynt að gera þetta mál pólitískt er bersýnilega ráðherrann sjálfur sem hefur talið sér henta að reyna að fylkja sínum flokksmönnum bak við sig með því að tala um að málið sé pólitískt. Hann hefur t.d. ítrekað reynt að telja fólki trú um að þetta sé eitthvert sérstakt upphlaup okkar Alþýðubandalagsmanna og gekk jafnvel svo langt á þriðjudaginn var að kalla Alþýðubandalagsmenn sem gagnrýnt hafa hann í þessu máli „hyski“. Ég held að það þurfi ekki að fara frekari orðum um að viðleitni hans af þessu tagi dæmir sig sjálf. Ráðherrann er áreiðanlega nógu glöggskyggn til að átta sig á því að með svo hvatvíslegu orðalagi hefur hann fyrst og fremst gert sjálfum sér mikinn grikk.

Ég er ekki staðinn hér upp af flokkspólitískum ástæðum. Það vil ég taka fram. Hins vegar veit ég að aðgerðir ráðherrans hafa vakið mikla óánægju í mínu kjördæmi. Mér er ljóst að aðgerðir hans tengjast mjög skólamálum á Norðurlandi, en um leið er þetta beinlínis mannréttindamál einstaklings sem telur sig misrétti beittan. Ég tel því að málið sé þess eðlis að okkur þm. beri skylda til að átta okkur á því og reyna að svara því hver er undirrót þess áreksturs í stjórnkerfinu sem hér hefur átt sér stað. Voru viðbrögð ráðherrans eðlileg í þessu máli eða voru kannske viðurlög hans við þessum meintu brotum í algjöru ósamræmi við málsatvik?

Ég vil segja fyrst að brottrekstur skipaðs embættismanns úr starfi er afar hörð og óvenjuleg aðgerð. Enn harðari verður aðgerð af þessu tagi þegar hún kemur til framkvæmda á samri stundu. Maðurinn er sviptur launum og starfsaðstöðu og fær ekki réttindi embættismanns eins og kveðið er á um í lögum að verja sig jafnhliða því sem honum sé vikið frá störfum um stundarsakir. Ég held, svo ég víki nánar að þessu, að sjaldan eða aldrei sé gripið til svo hörkulegra aðgerða sem þessarar nema embættismaður sé beinlínis staðinn að glæp og sá glæpur sé svo svívirðilegur að það þyki ekki hæfa að embættismaðurinn haldi starfi sínu áfram. En auðvitað dettur engum í hug að svo standi á í þessu máli. Eins er það augljós skylda ráðherra þegar hann grípur til hörkuúrræða sem þessara að þá komi hann og rökstyðji mál sitt opinberlega tafarlaust, sé tilbúinn með gögn sem sýni og sanni að embættismaðurinn hafi brotið þann veg af sér að óhjákvæmilegt hafi verið að reka hann tafarlaust. En þetta hefur ráðherrann ekki gert eins og menn þekkja.

Flestar ávirðingar sem ráðherrann hefur tínt til gegn þessum manni eru bersýnilega nokkuð komnar til ára sinna. T.d. er sú ávirðing sem hann hefur hvað mestum tíma eytt í að lýsa, var m.a. að lýsa hér í seinustu ræðu sinni. Hún varðar leigumála og kostnað sem ekki hafi verið heimild fyrir. (Menntmrh.: Það er aukaatriði.) Já, en ég er bara að benda á að sú ávirðing sem hann er hér að eyða hvað mestum tíma í að lýsa er orðin sex ára gömul í dag og reyndar alls ekki úr stjórnartíð hans heldur úr stjórnartíð fyrrv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar, var fjármálalegs eðlis og varðaði því kannske miklu frekar þann sem hér stendur á þeim tíma en að núverandi ráðherra geti farið að tína hana til verkum sínum til stuðnings.

Það er ljóst að hæstv. ráðh. hefur ekki fundið neitt refsivert athæfi sem hægt er að benda á að þessi maður hafi drýgt. Hann hefur engin lögbrot framið. Ég vek á því athygli að hann hefur engin lögbrot framið. Hann hefur ekki verið staðinn að fjármálalegu misferli af neinu tagi. Það liggja ekki fyrir ásakanir á einn eða neinn hátt að um fjármálalegt misferli hafi verið að ræða. Og það sem merkilegra er: Því er ekki haldið fram þegar gripið er til þessara hörðu aðgerða að um hafi verið að ræða siðferðilegt brot af neinu tagi. Yfirleitt er um gamlar ávirðingar að ræða og allar af því tagi að þær verða hvorki flokkaðar undir refsivert athæfi, lögbrot né siðferðilegar ávirðingar.

Ég vil hins vegar taka skýrt fram að ég er alls ekki að halda því fram hér að ekki megi finna ávirðingar í störfum þessa manns. Ég held að margt bendi til þess að þessum embættismanni hafi orðið ýmislegt á í messunni. Ég er ekkert að draga neina fjöður yfir að ýmislegt sem fram hefur komið í þessu máli bendir til þess að yfirboðarar mannsins hafi haft nokkra ástæðu til að gremjast vissar athafnir hans, en ég bendi á að það er altítt að ráðherrum lyndi ekki við embættismenn og þar er oft og tíðum um beggja sök að ræða. Ég get fúslega tekið undir að embættismenn mega ekki standa gegn löglegum ákvörðunum ráðherra og ríkisstjóra því þá verður landið stjórnlaust. Það kæri ég mig ekki um. Ég er hins vegar fyrst og fremst að draga fram, og nú bið ég hæstv. ráðh. að taka vel eftir, að hann og aðrir ráðherrar verða að gæta sín á því að beita ekki miklu harðari viðurlögum við agabrotum en efni standa til. Það er ekkert komið fram í þessu máli sem réttlætir það mikla harðræði sem þessi embættismaður hefur verið beittur og því er fyllsta ástæða, bæði fyrir mig, fyrir annan fyrrv. menntmrh. og fyrir svo marga aðra sem hér hafa talað, að fara fram á það við hæstv. ráðh. að hann taki þetta mál til endurskoðunar og finni þá lausn (Menntmrh.: Hvaða um dómstóla?) sem hann og við aðrir getum talið sæmandi vegna þess að þessi ábending, sem hæstv. ráðh. vék seinast að, að senda málið til dómstóla, er auðvitað algjörlega út í hött eins og hann veit manna best sjálfur og ég satt að segja hef sjaldan orðið jafnundrandi, að ég segi ekki hneykslaður, að hæstv. ráðh. skuli koma í ræðustól og eyða löngum tíma, 10, 15, 20 mínútum í að rökræða það að auðvitað sé það eina sjálfsagða leiðin í málinu að senda það til dómstóla, engin önnur leið komi til greina, hann ætti engra annarra kosta völ eins og hér kom margsinnis fram áðan hjá honum. Auðvitað veit ráðherrann fullkomlega jafnvel og aðrir hv. þm. að lög gera ekki ráð fyrir þessari leið sem hann hefur valið. Þau gera ráð fyrir allt annarri leið. Henni er mjög nákvæmlega lýst í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar er um það fjallað mjög ítarlega hvernig ráðherra á að fara að í máli eins og þessu og hæstv. ráðh. veit það. Þó hann þykist ekki vita það veit hann að sjálfsögðu hvað stendur í þessum kafla laganna. Þó hann sé að reyna að telja almenningi trú um að hann hafi valið einu leiðina sem tiltæk var veit hann sjálfur að í III. kafla laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er kveðið á um hvernig ráðherra á að fara að þegar hann vill taka hendinni til og lítur svo á að embættismaður hafi brotið af sér. (Menntmrh.: Hvað stendur í 11. gr. um embættismenn ríkisins?) Og nú vil ég fara yfir það með hvaða hætti gert er ráð fyrir því að með sé farið. Ég skal víkja að 11. gr. sem hæstv. ráðh. vék hér að áðan, en þar er einmitt gert ráð fyrir að hægt sé að víkja málinu til dómstóla eftir að þessi leið, sem ráðherrann vill ekki fara, hefur verið reynd og hefur verið farin. Það segir beinlínis í 11. gr. sem hæstv. ráðh. er núna að vitna til:

„Nú er stöðumissir úrskurðaður óréttmætur“ Þetta er sem sagt í lagagrein eftir að búið er að lýsa hinni leiðinni. - „og fer þá um bætur til aðila eftir úrskurði dómstóla nema hlutaðeigendur hafi komið sér saman um annað“ o.s.frv. (Menntmrh.: Ég skal ná í lagasafn.) Já, það held ég að væri betra fyrir hæstv. ráðh.

Ég tel alveg einsýnt að úr því að hæstv. ráðh. grípur til þess ráðs að halda hér langa ræðu um að þessi leið hans sé sú eina sjálfsagða hljóti fleiri en hann að standa í þessari trú. Ég sé mig því alveg tilneyddan til að vekja sérstaka athygli á þeirri leið sem ráðherrann átti að fara og bar skylda til að fara. Í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

„Það stjórnvald er veitir stöðu veitir og lausn frá henni um stundarsakir. Rétt er að veita starfsmanni lausn um stundarsakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við lögleitt boð eða bann yfirmanns síns“ - Það er væntanlega það sem hæstv. ráðh. telur einmitt að þessi embættismaður hafi gert. - „eða óvandvirkni í starfi sínu, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg eða ósamrýmanleg því starfi. Þó skal veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er veitt lausn um stundarsakir samkvæmt þessari málsgrein.“

Fyrst á hæstv. ráðh. - já, við skulum víkja að þessu á eftir - að veita embættismanninum áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt. Það er mjög óljóst hvort hæstv. ráðh. hefur gegnt þessari skyldu sinni, en jafnvel þótt hann hafi gert það ber honum skylda til að fara síðan þá leið sem ég er hér að rekja. Þetta er eina aðferðin sem lögin um réttindi og skyldur gera ráð fyrir að notuð sé þegar embættismanni er vikið úr stöðu nema þannig standi á, eins og ég lýsti áðan, að maðurinn sé staðinn að svo svívirðilegum glæp að það þyki vanvirða við embætti hans að hann sé á nokkurn hátt tengdur því lengur. En það liggur ekki fyrir í þessu máli eins og allir þekkja.

Í þessum kafla segir í 8. gr., með leyfi forseta: „Nú hefur starfsmanni ríkisins verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi og skal þá þegar mál hans rannsakað af kunnáttumönnum eða fyrir dómi að hætti opinberra mála ef ástæða þykir til svo að upplýst verði hvort rétt er að veita honum lausn að fullu eða Láta hann aftur taka við starfi sínu. Úrslit um stöðuna skulu ráðin strax og lokaniðurstöður rannsóknar eru kunnar.“

En hæstv. ráðh. fór ekki svona að. Hann hljóp yfir þetta stig málsins og vék manninum strax úr starfi að fullu, svipti hann launum, svipti hann öllum þeim réttindum sem lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna kveða á um að hann eigi að njóta þegar svona stendur á. Hæstv. ráðh. var síðan að reyna að blekkja menn áðan með því að segja: Hvernig er þetta með sjómanninn sem skipstjórinn vill ekki hafa á skipi sínu? Á ekki nákvæmlega það sama yfir embættismanninn að ganga? Auðvitað er afskaplega fávíslega spurt þegar þannig er spurt vegna þess að löggjöfin er bara á annan veg. Löggjöfin er þannig að embættismenn ríkisins njóta þessara sérstöku réttinda að það er gert ráð fyrir að mál þeirra séu sérstaklega rannsökuð ef um það er að ræða að víkja þeim frá störfum og ég geri ráð fyrir að þeir sem þetta sömdu á sínum tíma og þeir sem þessi lög styðja í dag, þar á meðal hæstv. ráðh., geri sér fulla grein fyrir því að þetta er ekki að ástæðulausu sett í lög. Þetta er sett í lög til að koma í veg fyrir að geðþóttafullar ákvarðanir ráðherra verði til þess að þessum embættismanninum eða hinum, sem ráðherra mislíkar við, sé varpað á dyr. Þessi lög eru einmitt sett til að koma í veg fyrir að ráðherrar beiti aðgerðum af því tagi sem hæstv. ráðh. hefur beitt. Það er talið ósköp einfaldlega nauðsynlegt að verja æðstu embættismenn ríkisins fyrir geðþóttafullum ákvörðunum af þessu tagi, bæði af pólitískum ástæðum og af ýmsum öðrum ástæðum, frekar en alla í þjóðfélaginu. Ég viðurkenni að það njóta ekki þessa réttar allir í þjóðfélaginu, en það eru vissar ástæður fyrir því að það er talið alveg sérstaklega nauðsynlegt að vissir þegnar þjóðfélagsins, sem gegna háum embættum, njóti þessa réttar þannig að stjórnkerfinu sé ekki raskað með óeðlilegum hætti vegna geðþóttafullra ákvarðana ráðherra gagnvart embættismönnum sem honum mislíkar við.

Ég þarf ekki að rekja þessar lagagreinar að öðru leyti. Þá vil ég nefna 9. gr. sem minnir á í hverju þessi réttindi eru fólgin enn frekar:

„Meðan lausn um stundarsakir stendur nýtur starfsmaður hálfra fastra launa þeirra sem stöðu hans fylgja, embættishúsnæði og jarðnæði ef um er að ræða heldur hann, enda komi þau fríðindi til reiknings samkvæmt mati í þeim launum er hann fær. Nú fellur niður lausn um stundarsakir og skal starfsmaður þá fá greiddan þann helming hinna föstu launa er hann hefur verið sviptur. Nú tekur sá sem lausn hefur fengið um stundarsakir aftur við starfi sínu og skal þá lita svo á um starfsaldur sem hann hafi gegnt starfanum óslitið.“

Ég vil svo víkja að 11. gr. sem kemur í þessum kafla um lausn úr stöðu, en þar segir:

„Jafnan skal starfsmanni sem víkja skal úr stöðu veittur kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun er tekin ef þess er kostur. Rétt er þeim er vikið er úr stöðu að bera málið undir úrlausn dómstóla, enda færi rannsókn slíks máls að hætti opinberra mála. Stefna skal fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.“

Ég geri ráð fyrir að það sé þetta ákvæði sem hæstv. ráðh. var að benda mér á. Það er alveg ljóst að embættismenn geta vikið máli sínu til dómstóla, en ég geri ráð fyrir að menn geri sér fyllilega grein fyrir því að það er gert ráð fyrir að sú leið sem lögin eru hér að lýsa sé fyrst farin og þegar ljóst er að ráðherrann telur sig endanlega verða að víkja manninum úr stöðunni á embættismaðurinn þess kost að fara til dómstólanna með málið.

Hæstv. ráðh. segir bara: Hann getur farið í mál nú þegar. Auðvitað er það alveg rétt, en hann hefur bersýnilega svipt manninn þeim rétti sem lög kveða á um.

Svo kemur hæstv. ráðh. áðan og þykist vera að bjóða eitthvert kostaboð, hann vilji af sérstökum mannúðarástæðum, skilst manni, milda aðgerðir sínar með því að fara til fjmrh. og fá aukafjárveitingu til að hægt sé að greiða manninum laun í þrjá mánuði. Ég vil segja það frá mínu sjónarmiði séð: Mér finnst þetta alls ófullnægjandi. Mér finnst þetta ekki vel boðið. Mín ósk og mín krafa er sú sama og flestra annarra að það sé farið að lögum í þessu máli, að það sé farið að lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, maðurinn sé ekki sviptur þeim rétti sem þar kveður á um. Ég tel að engin önnur lausn komi til greina eða geti talist viðunandi.

Ég vil svo að lokum víkja örlítið að því að það er kannske engin furða þótt í máli af þessu tagi geti komið upp árekstur eins og við stöndum hér frammi fyrir. Við verðum að horfast í augu við að starf fræðslustjóra er nokkuð óvenjulegt í stjórnkerfinu. Annars vegar er fræðslustjórinn embættismaður og erindreki ráðuneytis. Hann er í raun og veru að stjórna útibúi ráðuneytis í umdæmi sínu og hann hefur á hendi yfirstjórn skólamála fyrir hönd ráðuneytisins í viðkomandi umdæmi. Hann er þar að auki settur eða skipaður af ráðherra. En hann er líka sem fræðslustjóri annað og meira en þetta. Hann er ráðinn að tillögu fræðsluráðs umdæmisins og hann er framkvæmdastjóri fræðsluráðsins. Þetta fræðsluráð er ekki hluti af ríkiskerfinu. Það er hluti af allt öðru kerfi, þ.e. af kerfi sveitarfélaganna sem í þessu tilviki hafa komið sér upp samtökum sem nefnast Fjórðungssamband Norðurlands. Það er það samband sem kýs fræðsluráð þannig að það er ljóst að fræðslustjóri á sér tvo húsbændur. Hann á annars vegar þann húsbónda sem skipar hann eða setur og það er ráðherra, en hann á líka húsbónda sem kemur úr allt annarri átt. Það er fræðsluráðið sem hefur átt hlut að ráðningu hans með því að hafa tillögurétt um ráðninguna og sem gerir hann að sínum framkvæmdastjóra þegar hann starfar.

Í störfum sínum tekur fræðslustjórinn þátt í sameiginlegri stefnumótun í fræðsluumdæminu og það er alveg ljóst að á þennan hátt hlýtur hann að vefjast meira eða minna inn í þá kröfugerð sem fræðsluráðið hefur uppi hverju sinni og verður beinn eða óbeinn aðili að henni. Ég held að það þurfi ekki að fara mörgum frekari orðum um að fræðslustjórarnir eru settir í þessa sérkennilegu stöðu í stjórnkerfinu. Þeir eru í raun og veru settir báðum megin borðs.

Ég held að það sé varla hægt að finna neina stöðu í stjórnkerfinu sem er sambærileg við stöðu fræðslustjóra að þessu leyti. Það má að vísu koma með dæmi eins og t.d. þau að héraðslæknirinn er settur af ráðherra í sitt starf, en hann starfar hins vegar með sjúkrahússtjórnunum. Við þekkjum vel að hann tekur oftast málstað sjúkrahússtjórna og sjúkrahúsanna gegn sínum ráðherra og kemur fyrst og fremst fram sem þrýstingsaðili af hálfu þeirrar stofnunar sem hann vinnur fyrir. Ég viðurkenni hins vegar að þetta er ekki að öllu leyti sambærilegt vegna þess að honum eru ekki fyrst og fremst falin stjórnsýslustörf þegar hann er skipaður héraðslæknir heldur er hann fyrst og fremst að starfa að heilsugæslu. Þess vegna segi ég að fræðslustjórastarfið er dálítið sérstætt og það þarf engan að undra að hagsmunaárekstur geti orðið til eins og hefur einmitt orðið í þessu máli. Ég viðurkenni hins vegar að menn hafa misjafnlega gott lag á að valda sínu starfi þegar hagsmunaárekstrar af þessu tagi rísa og það má vel vera að ýmsir fræðslustjórar hafi haft betra lag á því að sigla milli skers og báru með tvo húsbændur yfir sér en einmitt þessi fræðslustjóri hefur gert. Sumir hafa meira lag á því að forðast vandamálin en aðrir. Það er alveg ljóst af því sem fram hefur komið í þessu máli að þessi fræðslustjóri hefur ekki fyrst og fremst litið á sig sem sáttasemjara í deilum fræðsluráðs og ráðuneytisins. Hann hefur fyrst og fremst lent í fararbroddi hreyfingar skólamanna á viðkomandi svæði og talið trúnað sinn við fræðsluráð jafnvel þýðingarmeiri en erindrekstur fyrir ráðuneyti. Hann hefur hins vegar réttilega bent á að þörf væri leiðréttingar fyrir þetta fræðsluumdæmi. Það er ljóst, eins og hér hefur komið fram, og dugar ekki fyrir hæstv. ráðh. að vera með nein undanbrögð af því tagi sem hann var með t.d. í seinustu ræðu sinni, að fjármagni til sérkennslu í landinu er misskipt. Hann veit það sjálfur og viðurkennir það. Því er misskipt og það er ekkert óeðlilegt að fræðsluráð Norðurlandskjördæmis eystra reyni að sækja sinn rétt í hendur ráðuneytisins og í hendur ríkisvaldsins. Hann þarf ekkert að vera undrandi á því að fræðslustjórinn, sem er framkvæmdastjóri fræðsluráðsins, taki undir kröfu fræðsluráðsins og reyni að sækja rétt Norðlendinga gagnvart ríkisvaldinu. Hann er í þessari sérkennilegu stöðu að hann hefur tvo húsbændur yfir sér og það hljótum við að taka með inn í myndina þegar við metum störf þessa manns og það hvort honum hefur orðið stórvægilega á í starfi sínu eða ekki.

Ég viðurkenni, eins og ég hef þegar sagt, að það má vel vera að finna megi ýmsar ávirðingar í störfum þessa manns, en kjarni málsins er bara sá að þær eru engin þeirra svo stór eða mikilvæg að á nokkurn hátt verði réttlátt þau viðbrögð og viðurlög sem ráðherrann hefur beitt. Það tel ég að sé kjarni þessa máls.

Þetta mál er í óþægilegum hnút. Það hefur þegar valdið miklum vandræðum á Norðurlandi eystra. Það sér ekki fyrir endann á því hvernig það leysist. Ég viðurkenni að það mátti heita örlítið sáttahljóð í upphafi þessarar umræðu þegar hæstv. ráðh. bauð það fram að maðurinn fengi þriggja mánaða laun. Þar var ráðherrann að draga nokkuð í land og ég fagna því að ráðherrann gerir sér grein fyrir að hann getur ekki látið það standa sem hann lét standa fyrir viku, en ég skora mjög eindregið á hæstv. ráðh. að brjóta odd af oflæti sínu og taka þetta mál til endurskoðunar. Hann verður að horfast í augu við að það erum ekki bara við Alþýðubandalagsmenn sem höfum gagnrýnt hann í þessu máli. Það hafa stjórnmálamenn úr öllum stjórnmálaflokkum gert og skólamenn vítt og breitt um Norðurland. Hann verður að gera sér grein fyrir að í þessu máli hefur hann gripið til harðari viðurlaga en eru við hæfi. Ég skora því endanlega á hann að taka þetta mál til endurskoðunar.