22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Satt að segja nenni ég ekki að leggja mörg orð í belg um meintar ávirðingar hins brottrekna fræðslustjóra, enda tel ég mig ekki hafa forsendur til þess. Þau mál þekki ég ekki af öðru en af málflutningi hæstv. ráðh. og annarra þeirra þm. sem hér hafa talað. Það sem á skortir er auðvitað að fyrir liggi skrifleg greinargerð frá hæstv. ráðh. þar sem hann leggur öll gögn á borðið, þar sem menn geta treyst því að það mál sem hann fer með sé ekki valið af hans embættismönnum, hans ráðuneyti eða honum sjálfum, það sé vitnað í það sem honum hentar. Það hefðu verið lágmarksvinnubrögð að slík skýrsla lægi hér fyrir úr því að þetta er gert að umræðuefni á Alþingi. Mig langar heldur til að spyrja í lok þessarar umræðu: Hvað má af þessu læra?

Menn hafa verið sakaðir um pólitískan trumbuslátt í þessu máli. Ég tók ákaflega vel eftir því þegar hæstv. ráðh. sagði: Ef háseti um borð í skipi steytir görn framan í karlinn í brúnni fær hann jafnaðarlega umsvifalaust að taka pokann sinn. Ef verkamaður biður verkstjórnarmann sinn aldrei þrífast og fer sínu fram er hann látinn fara og þykir ekki mikið, verður ekki mikill hávaði af í þessu þjóðfélagi. En svo spyr hæstv. ráðh., og það er rétt spurning í tilefni af þessu máli: Ef stuggað er við embættismanni, ef vandað er um við embættismann eða embættismaður látinn fara ætlar allt vitlaust að verða. M.ö.o.: hæstv. ráðh. gefur í skyn að það sé sitt hvað Jón eða séra Jón. Embættismennirnir njóti forréttinda. Af þessu má kannske álykta sem svo að hæstv. ráðh. vilji hér með slá sig til riddara sem krossfara gegn ofvernduðum mandarínum kerfisins og sá verknaður hans að reka umræddan fræðslustjóra eða að reka framkvæmdastjóra lánasjóðsins sé til marks um vilja hans í því efni. En þá spyr ég: Stjórnmálamaður og ráðherra, sem í alvöru að tala vill ganga til verka við að koma lögum yfir embættismenn, setja skorður við því að mandarínar kerfisins fari sínu fram utan við lög og rétt, hvernig hagar hann sínum vinnubrögðum? Er nóg að reka einn framkvæmdastjóra lánasjóðs og er nóg að reka einn fræðslustjóra í Norðurlandsumdæmi eystra? Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að þetta er það sem hæstv. ráðh. hefur gert. Og nú spyr ég um árangur. Hvaða árangri hefur hæstv. ráðh. náð í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna í kjölfar brottreksturs umrædds framkvæmdastjóra sem rekinn var? Auðvitað vænir enginn maður hæstv. ráðh. um að hann láti sér það eitt nægja að koma fram vilja sínum, væntanlega rökstuddum, við einhverja einstaka embættismenn. Auðvitað vill hann meira. Hann vill ná árangri við að breyta stjórnskipan og stjórnsýslureglum, koma lögum og reglum á hlutina. Auðvitað vakti það fyrir hæstv. ráðh. að breyta í grundvallaratriðum reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna, tryggja fjárhagslegan grundvöll sjóðsins. Hefur það tekist, hæstv. ráðh.?

Þetta mál er búið að velkjast innan búðar hjá stjórnarliðinu fram og aftur á annað ár. Menn hafa lesið í blöðum að þeir eru komnir í hár saman um málið, en hingað til, og nú lýsi ég því yfir sem formaður í einum stjórnmálaflokki, hef ég ekki svo mikið sem séð enn þá þetta hið mikla leyndarskjal sem heitir frumvarpsdrög hæstv. ráðherra um breytingarnar. M.ö.o.: í kjölfar brottreksturs á framkvæmdastjóranum hefur ekkert gerst. Það situr allt við það sama. Hann hefur egnt gegn sér námsmenn. Hann hefur vakið upp margar spurningar. Hann hefur gert samstarfsflokkinn stjörnuvitlausan. En hann hefur engum árangri náð. Hann hefur engu breytt. Hver er að slá pólitískar trumbur? Og ég spyr nú. Ég ætla ekki að setjast í dómarasæti yfir Sturlu Kristjánssyni. Ég hef engar forsendur til þess. Ég er ekki aðili að dómsvaldinu. Mér þykir það raunverulega miður að hafa orðið að sitja klukkustundum saman undir umræðum sem ég get með engu móti lagt að jöfnu við einhver dómsskjöl eða að öll kurl séu komin til grafar eða allir málavextir hafi hér verið fram bornir, enda ólíku saman að jafna. Málsaðilar hinir eru fjarstaddir. En ég spyr: Til hvers hefur þetta leitt?

Það var tekin líkingin af karlinum í brúnni sem rekur einn frá borði fyrir uppsteyt. En hvað gerir útgerðarmaðurinn þegar þannig hagar til að það er ekki bara hásetinn sem er látinn fara, það er 1. og 2. stýrimaður, það er 1. og 2. vélstjóri, það er bátsmaðurinn og það er öll áhöfnin sem fer í land? Ætli Ögurvíkingurinn í embætti menntmrh., sem jafnframt hefur eitthvað fengist við útgerð, mundi ekki fara að hugsa: Nú, hver andskotinn - afsakið orðbragðið, herra forseti - hafa ekki verið einhverjir alvarlegir samskiptaörðugleikar hjá þessum „skipper“ við sína áhöfn og ætli hann yrði ekki að fara að endurskoða hug sinn?

Það hlýtur auðvitað að vera markmið ráðherra að koma ekki aðeins lögum yfir ákveðna embættismenn sem honum þykja brotlegir heldur að gera einhverja þá grundvallarbreytingu sem m.a. tryggir frið um þann verknað og þar með að áhöfnin, fræðsluráðið, skólastjórarnir, kennararnir, skólahaldið, nemendurnir í Norðurlandi eystra skilji að þetta er ekki geðþóttaákvörðun, skilji að hæstv. ráðh. styðst við rök, að hann er ekki með meinbægni við einhvern ákveðinn embættismann. Hann er að gegna skyldum sínum. Hvers vegna þá, hæstv. ráðh., er ekki skrifleg greinargerð hér um þetta mál? Hvers vegna, hæstv. ráðh., var ekki farið með hana í Norðurlandskjördæmi eystra? Eru menn ekki sæmilega máli farnir aðrir en hæstv. ráðh., sem er önnum kafinn, í þessu ráðuneyti sem gætu hafa farið með þessar skýringar fyrir mönnum í tæka tíð? Ef þessi vinnubrögð hefðu verið viðhöfð er þá ekki trúlegt að það hefði skapast einhver friður um þessa ákvörðun eða var kannske aldrei meiningin að vinna þannig? Var kannske einhver að slá pólitískar trumbur í nafni þess að hann væri krossfari gegn kerfinu, en ekki með ofsóknir á hendur einstökum embættismönnum, m.ö.o. að slá sig til riddara í almenningsálitinu sem vissulega er tortryggið á margt í þessum embættisrekstri og vill gjarnan strangt húsbóndavald á æviráðnum embættismönnum?

Ég spyr enn um vinnubrögð, herra forseti. Sá maður sem spyr: Ætla alþm. úr þessum ræðustól að slá skildi fyrir embættismenn sem neita að fara að lögum, sem fara umfram fjárlagaheimildir? Og svar mitt er að sjálfsögðu nei. Að sjálfsögðu ekki. Og menn kunna að segja sem svo: Það er aukaatriði að það er hægt að fara um allt kerfið og sýna fram á að það er víða pottur brotinn í þessu kerfi. Auðvitað er það þegar ég spyr: Hvað má læra af þessu máli ef spurt er um fjárlög. Ég vildi vísa hæstv. ráðh. á að lesa ágætt erindi sem Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur og frambjóðandi Sjálfstfl. í Norðurlandi vestra flutti á ráðstefnu hagfræðingafélags og bar saman fjárlög lögð fram í upphafi árs og niðurstöðutölur fjárlaga s.l. hálfan annan áratug og sýndi fram á hversu gersamlega marklaust plagg þetta er, hversu gersamlega ónothæft þetta er sem hagstjórnartæki, sýndi fram á hvernig mandarínar í þessu kerfi hafa að engu fyrirmæli fjárlaga. Ég nefni sem dæmi fyrirskipanir gefnar um mitt ár eða eftir að fjárlög hafa verið samþykkt um 5% niðurskurð í rekstri. Það er hægt að fara um allan ríkisreikninginn og sýna fram á að hver stofnunin á fætur annarri tekur ekkert mark á þessu. Fyrirmæli um það að stöðva óhæfilega yfirvinnu. Lítið í öll ráðuneytin. Farið ofan í saumana á því. Ekkert mark á því tekið.

Eða ráðherrana sjálfa sem eru auðvitað ábyrgir fyrir því hver yfir sínu ráðuneyti og þeim stofnunum sem undir heyra að farið sé eftir þessum fjárlögum og eru uppvísir að því að láta líðast að það er eins og ekkert hafi gerst.

Svo kemur hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og segir að þetta séu ekki gild rök. Er það meginsök þessa umrædda og brottrekna fræðslustjóra að hann fór 4% fram úr fjárlögum á sama tíma og menntmrn. fór fjórum sinnum 4% fram úr fjárlögum, þ.e. 17%? Ja, maður, líttu þér nær. Eitt brot réttlætir ekki annað, alls ekki. Menn eiga ekki að taka það svo. Ég er bara að spyrja. Er þetta þá fremur geðþóttaákvörðun, er þetta pólitískur trumbusláttur fremur en skipulögð vinnubrögð stjórnmálamanns og ráðherra sem ætlar sér að taka þetta kerfi í gegn? Hvernig vinnubrögðum mundi slíkur stjórnmálamaður beita? Ég spyr sjálfan mig. Og ég segi: Hann hefði auðvitað snemma í upphafi ferils þessarar ríkisstjórnar gert gangskör að því að fá samkomulag á hinu háa Alþingi um að afnema þá forsmán að embættismenn séu æviráðnir. Það eru leifar frá liðinni tíð úr dönsku kansellíi 19. aldar að embættismenn eða starfsmenn hins opinbera þiggi embætti sín að léni og sitji síðan náðuglega sem áskrifendur að kaupinu sínu, oft og tíðum sem grjótpálar gegn jafnvel stefnu viðkomandi stjórnvalda. Auðvitað á að afnema þetta kerfi. Auðvitað hefði hæstv. ráðh. átt að beita sér fyrir því að það yrði enginn opinber starfsmaður ráðinn nema eins og réttur og sléttur háseti um borð eða verkamaður, þ.e. ekki með æviráðningu heldur til skamms tíma, ráðinn til reynslu, ráðinn til skamms tíma, metinn af verkum sínum, hækkaður í tign ef hann stendur sig vel, látinn fara ef hann stendur sig illa, færður til. Auðvitað hefði hæstv. ráðh. átt að beita sér fyrir þeirri stjórnsýslureglu, sem ætti að vera almenn, að menn yrðu færðir til í störfum, ráðuneytisstjórar, deildarstjórar og mandarínar yfir sérstökum ríkisstofnunum, því að það á enginn að sitja sem eilífur augnakarl í embætti. Það er vitlaust stjórnunarprinsipp, leiðir til stöðnunar, leiðir til fúsks í rekstri, leiðir til þess að ákvarðanir komast seint og illa í gegnum kerfið.

Ég spurði áðan: Hvað getum við lært af þessu máli? Ég spyr: Er hæstv. ráðh. alvara? Eigum við að taka það alvarlega að þessi tvö dæmi um brottrekna embættismenn séu staðfesting á því að hér höfum við loksins ráðherra sem vill ganga skipulega til verks við að breyta úreltum stjórnsýslureglum og tryggja að stjórnsemi, agi og ábyrgð í opinberum rekstri verði með öðrum hætti en nú er? Mér sýnist það ekki vera svo. (Menntmrh.: Hvað með Rafmagnsveitur ríkisins? Hvað með Orkustofnun?)

Ég minnist þess að hæstv. ráðh. hefur á sínum tíma sem iðnrh. látið gera úttektir. (Menntmrh.: Sparað 103 millj. í vinnulaunum í RARIK á einu ári.) Gott. Gott er það. (Menntmrh.: Ég fækkaði um 29 stöður hjá Orkustofnun.) Já, þetta er þakkarvert, góð dæmi og góð byrjun, herra ráðherra, en betur má ef duga skal.

Nú vil ég nefna til sögunnar eitt af því að ég spurði: Hvað getum við lært af þessu máli? Menn hafa stundum verið að tala um hagsmunaárekstra í hinu opinbera kerfi og ég spyr: Er ekki hinn brottrekni fræðslustjóri raunverulega fórnarlamb kerfis sem þarf að endurskoða í grundvallaratriðum? Hvað á ég við? Ég á við þetta: Menntmrn. lítur á fræðslustjóra sem eins konar inspector scholae, þ.e. eftirlitsmann sinn gagnvart t.d. fjárreiðum. Af hálfu heimamanna hins vegar, af hálfu fræðsluráðs, og hann er líka framkvæmdastjóri þess, er ætlast til þess að fræðslustjórinn sé nánast eins og talsmaður heimamanna í héraði fyrir hagsmunum héraðsins gegn þessu hinu sama menntmrn. Er þetta skynsamleg stjórnskipan?

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hérna sé komið að þýðingarmiklum spurningum um miðstýringu í menntakerfinu eða valddreifingu. Það er allt of mikil miðstýring í íslenska menntakerfinu og talsvert lamandi og það þekkja allir menn sem fengist hafa við kennslu og reyndar skólastjórn. (Menntmrh.: Ég er sammála.) Þakka. Ég hefði þess vegna kosið að hæstv. ráðh. hefði notað t.d. sinn tíma í þessu ráðuneyti til að taka fyrir og rannsaka slík grundvallaratriði. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að færa aukin völd heim í héruð, ekki aðeins í skólamálum heldur í fleiri málum. Hins vegar væri jafnsjálfsagt að menntmrn. sem slíkt hefði fjármálalegan inspector sem færi um öll umdæmin. En hitt kerfið, sem við nú búum við, er óhæft, að sú krafa sé gerð til eins og sama starfsmannsins að hann þjóni tveimur herrum. Það getur hann ekki og það gengur ekki upp. Að þessu leyti held ég, miðað við það sem ég hef heyrt af þessum umræðum, að hinn umræddi fræðslustjóri hafi raunverulega orðið fórnarlamb kerfis sem þurfi að endurskoða í grundvallaratriðum.

Hér hefur verið talað um samskiptaörðugleika þessa umrædda embættismanns við ráðuneytið. Ég er enginn dómari í því, hef enga hugmynd um þau mál, veit ekkert um þau. Ég spyr hins vegar: Bendir það ekki til þess, viðbrögð manna heima í héraði, fræðsluráðsformannsins, fræðsluráðsins, starfsfólksins í fræðsluskrifstofunni, skólastjóranna, kennaranna, að það skorti talsvert mikið á eðlileg samskipti milli ráðuneytis hæstv. ráðh. og þeirra manna sem starfa eiga úti á vígvellinum? Svo að ég taki dæmi af karlinum í brúnni: Ef áhöfnin færi öll í land við það að einn er rekinn bendir það til þess að eitthvað sé spunnið í hásetann sem leiddi til þess að allir fóru í land og þá bendir það til þess að það sé eitthvað að hjá karlinum í brúnni. Ég held að þetta dæmi gefi til kynna, þó að ég viti það ekki, að það séu alvarlegir samskiptaörðugleikar af hálfu menntmrn. við fólk. Ég bendi á að úr því að heimamenn bregðast svona við gefur það auðvitað til kynna að þeir eru ekki trúaðir á röksemdir hæstv. ráðh. eða ráðuneytis eða þeir þekki það ekki nægilega vel. Hvers vegna var ekki lögð fram skrifleg grg.? Hvers vegna voru embættismennirnir ekki gerðir út af örkinni? Hvers vegna var ekki talað við þetta fólk? Hvers vegna er maðurinn allt í einu látinn fjúka og svo standa menn frammi fyrir þeim afleiðingum að kennslustarf í fjórðungnum er lamað? Hvers vegna er síðan fylgt eftir með því að sproksetja menn, jafnvel fólk í heilum landsfjórðungi?

Ég skal segja eins og aðrir hafa hér sagt að ég hef mikla biðlund með ráðherranum þó að það fjúki í hann. Það er allt í lagi. Samt sem áður er þess að geta að þetta mál er mjög viðkvæmt mál vegna þess að það varðar ekki aðeins persónu einhvers manns sem var brottrekinn. Það varðar líka spurninguna um það: Verður einhver friður um fræðslustarf og kennslustarf í þessum fjórðungi? Voru vinnubrögðin rétt? Út frá þessum sjónarmiðum eru menn alls ekkert sannfærðir um að öll kurl séu komin til grafar. Ég spyr: Hæstv. ráðh. flutti hér langa ræðu og hann fór fram og aftur með óskipulegum hætti nokkuð svo í gögn og þuldi þau upp. Eru ekki fleiri gögn í málinu? Þarf ekki að leggja fram miklu fleiri gögn? Af hverju er mönnum ekki gefinn kostur á því að fá þann texta að lesa sem heitir skýrsla um málið og af hverju var sú skýrsla ekki kynnt rækilega heimamönnum áður?

Herra forseti. Auðvitað er það illt ef svona viðkvæmt mál verður fyrst og fremst í meðförum Alþingis og pólitíkusa að einhverju pólitísku trumbuslagverki þar sem menn reyna að slá keilur, koma höggi á andstæðinga eða slá sig til riddara eða setja sig á háan hest sem einhverja sérstaka verndarengla barna í þessu tiltekna kjördæmi. Ég blæs á þessa hræsni alla saman. Þetta er illt, en þetta er svona og þetta er afleiðingin af því að vinnubrögðin voru röng.

Við hæstv. menntmrh. erum báðir aldir upp á slóðum Fóstbræðrasögu og í þeirri frægu sögu segir af garpinum Þorgeiri Hávarssyni með hið litla og harða hjarta. Einhver frægasta sagan af honum er sú að eitt sinn fór hann þar hjá sem maður laut nokkuð fram á staf sinn og garpinum þótti freistingin of rík og sterk til þess að standast freistinguna að láta ekki öxina falla. Og aðspurður hvort hann hefði átt nokkuð sökótt við þennan mann svaraði garpurinn að bragði: Nei, en hann stóð svo vel við höggi.

Það er búið að reka tvo framkvæmdastjóra og það má vel vera að þeir hafi legið vel við höggi en það er ekki búið að breyta því kerfi sem leiðir af sér hagsmunaárekstra af því tagi sem ég var að lýsa hér áðan. Það er ekki búið að breyta því kerfi sem felur í sér að embættismenn sitja æviráðnir í embættum eins og mandarínar og hafa embætti sín að léni. Það er ekki búið að breyta þeim stjórnsýslureglum að það þyki eðlilegur hlutur að opinberir starfsmenn séu færðir til. Það er það sem við þurfum að læra af þessu máli. Sá sem ætlar að ganga til verks við að breyta úreltu, óskilvirku og oft seinvirku og þunglamalegu kerfi á Íslandi getur ekki látið sér nægja þegar honum þykir mælirinn fullur og skekinn að skeyta þá skapi sínu á einhverjum tveimur mönnum. Hann verður að gera meira. Hann verður að leggja fram tillögur um hvernig hann hyggst koma í veg fyrir að þetta gerist í framtíðinni. Hann verður að breyta kerfinu sjálfu sem elur af sér þetta. Og ég lýk máli mínu með því að vísa til þess að hér eru ráðherrar, hæstv. forsrh., sem er að vísu ekki hér í salnum, sem núna þegar nær dregur kosningum, eftir að hafa setið í ráðherrastólunum síðan 1978, kvarta hástöfum undan því að koma málum ekki fram, ríkisstjórnendur fái ekki ákvarðanir framkvæmdar. Af hverju ekki? Jú, vegna þess að embættismenn sitja á fleti fyrir og gera sig digra. Forsrh. er þar af leiðandi ákaflega hissa. Hann kvartar sáran undan t.d. stofnun eins og Seðlabanka sem byggði sér höll fyrir 6-700 millj. kr. fyrir nokkrum árum og aðspurðir héðan hvaðan þeim kæmi féð og ráðstöfunarréttur svöruðu mandarínar þess kerfis: Ykkur kemur það ekkert við. Við byggjum fyrir okkar eigið fé. Við héldum að við ættum þennan banka. Hæstv. forsrh. segir þá bera að vanrækslu í þýðingarmiklu máli. Hann segir að þeir séu berir að því að fyrir þeirra vanrækslu séu engin okurlög hér í landi. En síðan er ekkert gert. Og þegar hæstv. forsrh. síðan fer einhverjum hálffeimnislegum orðum um embættisfærslu kollega síns, hæstv. menntmrh., er svarið að sá maður ætti bara að leita fyrir sér í skemmtanabransanum. Er þetta mynd af stjórnkerfi manna sem vinna skipulega, vinna samkvæmt áætlun og eru að vinna saman, alvörustjórnmálamenn? Ég tók eftir því að hæstv. menntmrh. sagði í sjónvarpsþætti: Þetta er ákaflega góður og samstilltur ráðherrahópur. Já, mikil ósköp!