26.01.1987
Neðri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Svo háttar um bæði þau mál sem hv. þm. nefndi að þau eru til meðferðar í viðkomandi ráðuneytum, annað hjá hæstv. fjmrh. og hitt hjá hæstv. viðskrh. Að þeim er unnið þar af fullum krafti. Að máli um staðgreiðslukerfi skatta er unnið m.a. í samráði við ýmsa aðila í þjóðfélaginu, t.d. fulltrúa sveitarfélaganna, og jafnframt tekið tillit til þeirra óska sem fram komu frá aðilum vinnumarkaðarins. Grundvallarhugmyndir, sem að baki liggja, hafa verið kynntar og ræddar í þingflokkum ríkisstjórnarinnar.

Ég get því miður ekki svarað því hvenær frv. verður tilbúið þótt ég viti að að því er unnið mjög ötullega. Ég skal koma þeim óskum til hæstv. fjmrh. að stjórnarandstaðan fái að kynnast málinu svo fljótt sem hann sér tök á því. Ég er hv. þm. sammála um að til að auðvelda meðferð þess máls á þingi er sú málsmeðferð að öllum líkindum nauðsynleg með tilliti til þess hve skammur tími er til stefnu. Ég mun því ræða þetta við hæstv. fjmrh.

Um bankamálið svonefnda er svipað að segja. Það hefur að vísu haft miklu lengri aðdraganda og málsmeðferð en er núna í athugun hjá stjórnarflokkunum eftir að mistókst að koma á fót þeim einkabanka sem Seðlabankinn lagði til að gert yrði. Það var tillaga hans nr. eitt. Er nú verið að athuga sameiningu Útvegsbanka og Búnaðarbanka og ýmis atriði í því sambandi. Ég geri ráð fyrir að niðurstaða af þeirri athugun liggi fyrir allra næstu daga. Sömuleiðis get ég upplýst hv. þm. um það að samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum liggur í raun flest allt fyrir í því máli ef það verður niðurstaðan að sameina Útvegsbanka og Búnaðarbanka. Frv. ætti því að geta verið tilbúið mjög fljótlega. Ég vil ekki heldur nefna dagsetningar í þessu sambandi en hæstv. viðskrh. og allri ríkisstjórninni er að sjálfsögðu ljóst, eins og hv. þm., að það er afar aðkallandi og reyndar óhjákvæmilegt að málefni Útvegsbankans verði afgreidd á þessu þingi.