26.01.1987
Neðri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

294. mál, umboðsmaður Alþingis

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð til að fagna þeirri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem felst í því frumkvæði að flytja frv. til laga um umboðsmann Alþingis svo og frv. til laga um stjórnsýslu. Það er enginn vafi í mínum huga að þetta er bæði löngu tímabært og kærkomið frv. Ég furða mig eiginlega á því að jafnsjálfsagt mál skuli ekki hafa fengist samþykkt fyrr á Alþingi. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því fyrr en ég las þessi frv. bæði að þetta mál hefði verið svo lengi í meðförum þingsins.

Eftir tæpra fjögurra ára setu á Alþingi geng ég ekki gruflandi að því að það er mjög nauðsynlegt að slíkur aðili starfi í tengslum við þingið vegna þess að á tæpum fjórum árum hafa okkur þingkonum Kvennalistans borist fjölmörg erindi sem sannarlega ættu miklu meira erindi til umboðsmanns Alþingis eða einhvers sem hefði svipaðan starfa með höndum en til okkar, jafnvel þó við höfum reynt að leysa þau eftir bestu getu. Þess vegna vona ég að þetta frv., og bæði frv. reyndar því þau styðjast hvort við annað, verði samþykkt á þessu þingi. Við munum sannarlega stuðla að því eins og við best getum. Við eigum ekki sæti í allshn., en ég vil fara fram á það að önnur hvor okkar þingkvenna sem sitja hér í Nd. fái að fylgjast með afgreiðslu þessa máls sem áheyrnarfulltrúi.