27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2536 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

Fjarvistir þingmanna

Forseti (Helgi Seljan):

Út af orðum hv. 5. þm. Vestf. vil ég upplýsa hann um að ég hef lesið 34. gr. og átti reyndar þátt í að ganga frá henni í núverandi þingsköpum. Sá sem nú gegnir störfum forseta hefur ekki rannsakað svo ástæður þeirra sem beðið hafa um fjarvistarleyfi. Í raun og veru hefur sá sem hér stendur meiri áhyggjur af þeim sem ekki mæta og biðja ekki um fjarvistarleyfi því að meginskylda manna ef þeir geta ekki mætt af einhverjum ástæðum er sú, eins og hv. þm. kom inn á, að biðja um fjarvistarleyfi ef þeir af einhverjum ástæðum geta ekki sótt þingfundi.

Ég hef ekki rannsakað ástæður hvers og eins þeirra þm. sem hér hafa beðið um fjarvistarleyfi. Ég reikna með því að það séu góðar og gildar ástæður í hvívetna. Um það hefur verið deilt í hve ríkum mæli menn skuli taka inn varamenn þegar farið er út til stuttrar dvalar, tveggja, þriggja daga eða eitthvað svoleiðis, og jafnvel verið gagnrýnt á Alþingi, en hins vegar veit ég að hv. 2. varaforseti Sþ. muni verða mér hjálplegur að koma þessum skoðunum áleiðis til aðalforseta Sþ. þegar hann kemur frá útlöndum.