27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

Fjarvistir þingmanna

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur borið við og þó sjaldan að ég hef orðið veðurtepptur og ekki komist til þings. Það verður ekki vandtalið ef eftir verður leitað, en ég hef tilkynnt forseta slíka hluti eða reynt að koma boðum þar að lútandi.

En varðandi það hvort þm. eigi að vera erlendis og óska eftir fjarvistarleyfum hlýtur hugsunin að beinast að því hvaða regla gildi um ráðherra. Það fer enginn ráðherra úr landi með sitt vald. Hver og einn einasti verður að skilja það eftir hér áður en hann yfirgefur landið. Svo einfalt er það mál. Þyki hv. 3. þm. Vestf. það torskilin fræði vil ég í einföldu máli segja honum að ég fæ ekki séð að það geti verið rökrétt að önnur regla eigi að gilda um þm. Það er ekki einkamál ráðherra hvort hann verður að skilja valdið eftir í landinu eða hafa það með sér til útlanda. Og þegar þingsköp voru samin á sínum tíma hvarflar það ekki að mér að mönnum hafi dottið í hug að sú regla yrði upp tekin að menn gætu dreift sér um plánetuna á þingtíma án þess að skilja það vald sem þingmennskunni fylgir eftir hér heima. Ég einfaldlega gagnrýni að þannig skuli að málum staðið. Og þó að forseti segi að það komi ekki niður á þinginu að þetta sé gert hygg ég að það blandist engum hugur um að svo er í mjög mörgum tilfellum. Það er frestað að taka mál fyrir og ræða þau vegna þess að það eru fjarvistir.

Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta, en vona að öllum sé ljóst hvað það er sem ég tel raunverulega ámælisvert í þessum efnum. Og þegar hv. 9. landsk. þm. óskar eftir að varamaður verði kallaður til met ég hann fyrir það. Hann gerir sér grein fyrir því að hann starfar ekki á tveimur stöðum samtímis.