23.10.1986
Sameinað þing: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

7. mál, mismunun gagnvart konum hérlendis

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á mismunun gagnvart konum hérlends. Till. þessi var flutt á síðasta þingi og þá vísað til hv. félmn., en var ekki afgreidd frá nefndinni. Hún er hér endurflutt með litlum breytingum frá síðasta þingi af mér og hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem er meðflutningsmaður að tillögunni.

Það er sannarlega ástæða til að flytja þessa till. öðru sinni því að það efni sem hún fjallar um er í síst skárra horfi nú en fyrir ári eins og fjölmargar upplýsingar, sem fram hafa komið og nú síðast alveg nýlega um mismunun gagnvart konum hér á landi, bera vott um.

Till. gerir ráð fyrir að félagsmála- og jafnréttisráði verði falið að gera sérstaka úttekt á því hvað skorti á að Ísland uppfylli skilyrði alþjóðasamnings um afnám allrar mismununar gagnvart konum sem Ísland gerðist formlegur aðili að 18. júní 1985.

Í till. er vikið að einstökum þáttum sem hafa ber í huga við þessa úttekt og vísa ég til tillögutextans þar að lútandi. En þar er jafnframt gert ráð fyrir að skipuð verði sérstök samráðsnefnd til að fylgjast með þessari úttekt og í henni verði fulltrúar frá öllum þingflokkum á Alþingi. Einnig er gert ráð fyrir því að félmrh. skili greinargerð til þingsins um úttektina og tillögum af sinni hálfu til úrbóta. Þá er gert ráð fyrir að kostnaður við þessa úttekt verði greiddur úr ríkissjóði og skiptir það auðvitað verulegu máli fyrir þá aðila sem settir yrðu til verka ef tillaga þessi nær fram að ganga. Í því sambandi bendi ég á mjög knöpp fjárráð Jafnréttisráðs sem er sá opinberi aðili sem á ekki síst að vinna að þessum málum lögum samkvæmt en hefur engan veginn getað gegnt lögboðnu hlutverki vegna naumra fjárráða.

Í grg. með þessari till. er bent á ýmis atriði úr þessum alþjóðasamningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum og hvaða ráðstafanir aðildarríki að þessum samningi skuldbinda sig til að gera til að uppfylla ákvæði samningsins.

Við athugun á þessum málum kemur í ljós hversu víðs fjarri er að Ísland standist þann mælikvarða sem lagður er á aðildarríki. Auðvitað er ekki beinlínis ætlast til þess að allt sé komið í horf þegar samningurinn er undirritaður, en hins vegar tökum við á okkur skuldbindingar að ná þeim markmiðum sem þar er kveðið á.

Ég bendi m.a. á þær ráðstafanir sem gera skal samkvæmt þessum samningi til að afnema mismunun gagnvart konum á sviði atvinnu, á sviði launamála og til að tryggja rétt til sömu atvinnutækifæra, þar með talið að beitt sé sama mælikvarða við val starfsmanna og rétt til sömu umbunar, þetta eru tilvitnanir út samningnum, þar með talið fríðinda og sömu meðhöndlunar gagnvart vinnu sem er jafngild og sömu meðhöndlunar við mat á gæðum vinnu. Einnig er þarna kveðið á um að koma í veg fyrir mismunun gagnvart konum vegna hjúskapar- eða móðurhlutverksins og að framfylgja raunverulegum rétti kvenna til vinnu. Þar eiga aðildarríkin að gera allar viðunandi ráðstafanir og eins og þar segir: „sérstaklega með því að stuðla að stofnun og þróun sem flestra barnagæslustofnana.“

Ég vek athygli á þessum þætti m.a. með tilliti til þess hvað við lesum í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár. Ætli ríkisstjórn Íslands sé þar að koma til móts við ákvæði þessa samnings og skuldbindingar með því að lækka um helming í krónum talið framlög til dagvistarstofnana í landinu?

Ég held að við þurfum að gæta þess, þegar verið er að samþykkja samhljóða á hv. Alþingi alþjóðlegar skuldbindingar eins og gert hefur verið með samþykkt þessa samnings, að efndir fylgi orðum. Mér finnst full ástæða til þess fyrir hv. Alþingi að skoða t.d. sérstaklega fjárframlög til dagvistarstofnana í ljósi þessara ákvæða.

Samkvæmt samningnum á sérstök nefnd 23 ríkja að fylgjast með framkvæmd samningsins á vegum Sameinuðu þjóðanna, en hún starfar á vegum efnahags- og félagsmálaráðsins, ECOSOC eins og það er skammstafað, og svo vill til að Ísland er aðili að efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna nú um þriggja ára skeið fyrir hönd Norðurlanda. Á vorfundi efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna á þessu ári var þetta mál til sérstakrar meðferðar og gerð um það ályktun sem birt er sem fylgiskjal á bls. 4-5 með þessari till. Þar er verið að ýta á eftir aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna að standa við þennan samning, að skila inn þeim upplýsingum sem samningurinn gerir ráð fyrir og að gera grein fyrir þeim undanþágum er aðildarríkin hafa farið fram á eða hyggjast fara fram á tímabundið varðandi þennan samning. Og hverjir skyldu nú vera flutningsmenn að þessari till. innan efnahagsog félagsmálaráðsins? Það var fulltrúi Svía sem flutti ályktunartillögu með tólf meðflytjendum og einn meðflytjanda var Ísland að þessari sérstöku áherðingartillögu innan efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna varðandi þennan samning. Þar segir, eins og lesa má á bls. 5:

„Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þess að aðildarríkin standi stranglega við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.“ - Standi stranglega við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Þetta er fulltrúi utanrrn. og hæstv. utanrrh. tekur um þetta ákvörðun. En hvað um hina höndina hér, fjárveitingavaldið á Íslandi, í sambandi við efndir, stranglega uppfyllingu þeirra ákvæða sem samningurinn gerir ráð fyirr? Ætli stangist ekki þarna eitthvað á?

Og í ákvæðum þessa samnings er gert ráð fyrir að aðildarríki skili inn til þessarar eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna skýrslum innan eins árs frá gildistöku samningsins til viðkomandi aðildarríkis og síðan a.m.k. á fjögurra ára fresti. Nú er meira en ár liðið og ég grennslaðist fyrir um það hjá félmrn. hvernig staðið hefði verið við þetta ákvæði um skýrslu innan árs. Hún hafði verið send. Það hafði verið minnt á að það bæri að senda skýrslu innan árs og félmrn. mun hafa óskað eftir því við Jafnréttisráð að það gerði drög að þessari skýrslu. Hana hef ég undir höndum eins og hún fór frá félmrn. og utanrrn. landsins, þessi skýrsla um framkvæmd sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar. Þetta hlýtur að vera viðamikið plagg því að mikið skortir á að ákvæðum þessa samnings sé fylgt eftir. En hvað höfum við hér? Tvær bls. tæpar, eina og hálfa bls., sem er þessi skýrsla til Sameinuðu þjóðanna um þennan samning og stöðu Íslands varðandi hann, og þar er ekkert til tínt nema nokkur formsatriði, hvenær lög voru samþykkt um jafnrétti kynjanna á Íslandi, jafnrétti karla og kvenna, hvenær Jafnréttisráð var sett á fót og fáein slík atriði. Svo segir í lokin, og það er kannske það eina efnislega sem þarna kemur fram frá íslenskum stjórnvöldum, með leyfi forseta:

„Ljóst er að aðalvandkvæði við framkvæmd samningsins er að uppræta fordóma og hefðbundnar hugmyndir um hlutverkaskipan kynjanna. Það er rót þess að unnt verður að skapa þjóðfélag þar sem konur og karlar njóta sömu mannréttinda að lögum og í raun.“

Það eru sem sagt fordómar og hefðbundnar hugmyndir. Ég get tekið undir það. Slíkir fordómar eru miklir. Gegn þeim þarf að vinna. En það er fleira og nærtækara sem íslensk stjórnvöld geta lagt af mörkum í þessum efnum og eiga að leggja af mörkum í þessum efnum. Það er satt að segja með fádæmum að svona skuli staðið að málum í sambandi við upplýsingar varðandi alþjóðasamning og ákvæði sem hann snerta. Ég hlýt að vekja hér, herra forseti, sérstaka athygli á þessu.

Við höfum upplýsingar um stöðu þessara mála og í fskj. með þessari þáltill. er safnað saman upplýsingum frá ýmsum aðilum frá undanförnum árum um hvernig er háttað stöðunni, jafnræði kynjanna á Íslandi. Og það er satt að segja nöturleg mynd sem þar blasir við. Í launamálum liggur alveg skýrt fyrir sú hrikalega mynd sem þar er og sú öfugþróun sem enn er í gangi samkvæmt opinberum upplýsingum að þessu leyti. Við höfum á fskj. II, bls. 6, yfirlit um ársverk og meðallaun eftir kynjum síðasta árið sem upplýsingar liggja fyrir um, 1984, og þar blasir við að launamunurinn í rauntekjum samkvæmt þessum hagtölum er á árinu 1984 56,5% og hefur vaxið frá því árið á undan, sem það var 54%, og frá árunum þar á undan. Það er sem sagt vaxandi launamunur milli karla og kvenna á undanförnum árum. Og þessa daga erum við að fá upplýsingar úr launakönnun Alþýðusambands Íslands og hvað ætli blasi þar við í sambandi við launamun kynjanna? Jú, það er staðfesting á því sem við höfum varðandi fyrri ár. Launamunur varðandi svokallaðar rauntekjur, þ.e. tekjur fyrir dagvinnu, fastakaup, álög og yfirvinnu, er yfir 50%, nákvæmlega talið 51,5%. Þetta mælist í því takmarkaða úrtaki sem þarna er um að ræða.

Það eru sannarlega athyglisverðar tölur og upphæðir sem þarna standa fyrir kvennastéttirnar í landinu, fyrir kvennastörfin í landinu, í fiskvinnu, í verslunarstörfum og í almennum iðnaði þar sem konur eru yfirgnæfandi hluti starfsmanna. Samkvæmt yfirliti og könnun sem gerð var í apríl s.l. ná launatekjurnar ekki 30 þús. markinu, en enginn áttar sig á í rauninni hvernig hægt er að skrimta á Íslandi fyrir þær tekjur. Heildarlaun í almennri verksmiðjuvinnu eru t.d. 27 862 kr. og föstu launin tæplega 21 þús. Í fiskvinnslunni eru föstu launin enn þá lægri, en með bónusálagi á yfirvinnu tekst konum að tvöfalda þessi laun nokkurn veginn með óheyrilegum þrældómi. En konur við verslunarstörf og við verksmiðjuvinnu ná ekki 30 þús. kr. markinu eins og þarna má sjá og launamunurinn milli kynja er aldeilis hrikalegur.

Það vantar ekki, herra forseti, að það er tekið sæmilega undir hér í orði á hv. Alþingi þegar þessi mál eru til umræðu, jafnvel af háttsettum mönnum og æðstu mönnum í stjórnkerfi landsins eins og hæstv. forsrh. Við höfum heyrt hann taka undir og setja fram hugmyndir um að hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir samanburðarkönnun á launakjörum kvenna og karla í samráði við aðila vinnumarkaðarins þar sem farið verði nákvæmlega ofan í saumana á þessum málum, en það hefur ósköp lítið heyrst um efndirnar frá hæstv. forsrh. þrátt fyrir ítrekun af hans hálfu vegna fsp. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á síðasta þingi. Ég hef a.m.k. ekki fengið niðurstöður úr slíkri könnun í hendur, en hæstv. forsrh. er dálítið langt undan, því miður, þannig að það er erfitt að inna hann eftir því hvernig þau mál standi af hans hálfu, hverjar séu efndirnar á loforðum sem gefin voru á Alþingi fyrir tveimur árum. Staðan að þessu leyti og framgangur stjórnvalda gagnvart konum í landinu og því hróplega misrétti, sem þar blasir við á nánast öllum sviðum, er alveg dæmalaus.

Herra forseti. Ég hef bætt við nokkrum upplýsingum í fskj. með þessu frv., m.a. nýjustu könnun kjararannsóknarnefndar sem fskj. á bls. 41 og aftar er að finna yfirlit um niðurstöður sveitarstjórnarkosninga s.l. vor í kaupstöðum og kauptúnahreppum varðandi skiptingu kynja á kjörnum fulltrúum og frambjóðendum og þar er líka að finna bráðabirgðayfirlit sem ég fékk frá Jafnréttisráði varðandi samanburð á stöðunni hvað snertir nefndir, stjórnir og ráð á vegum Alþingis og opinberra aðila, ráðuneytanna, hvernig það hefur þróast á tíu ára tímabili, og það eru engar gleðifréttir sem við lesum út úr þessum plöggum.

Að vísu kemur fram í þessu yfirliti varðandi sveitarstjórnarkosningar á liðnu vori, það vantar dreifbýlishreppana, það var ekki komin úrvinnsla varðandi þá, að hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur vaxið frá síðustu kosningum og nemur 28,8% í kaupstöðum og 24,2% í kauptúnahreppum og þar er um verulega sókn að ræða af hálfu kvenna frá því sem var í kosningunum 1982 og auðvitað er þróun í þessa átt og allt sem gengur í þessa átt til bóta, en það eitt saman nær skammt. Hvernig ætli sé aðstaða kvenna til að taka raunverulega þátt í opinberum störfum og félagsstörfum almennt, kvenna sem þurfa að sinna heimilisstörfunum og gera það í reynd að yfirgnæfandi hluta þrátt fyrir allan áróður fyrir jöfnun á stöðu kynjanna. Það er auðvitað gífurlega mikið verk að vinna í sambandi við þessi efni og þó að konur leiðrétti sinn hlut eitthvað formlega séð er þetta innbyggða misrétti enn til staðar í landinu og þar reynir auðvitað á karla þar sem karlar eiga stóran hlut að máli og gætu, ef raunverulegur vilji væri til staðar, leiðrétt þetta misrétti, þessa þætti til muna og skiptir auðvitað mjög miklu að halda uppi fræðslu og áróðri þar að lútandi. Og skólarnir, staðan þar í sambandi við kennsluefni og fræðslu alla, skiptir allverulegu máli í þeim efnum.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns er síst minni ástæða til að flytja þessa till. nú en á síðasta þingi. Hún er í rauninni ríkari. Það sjáum við á allri þróun mála þetta ár sem liðið er síðan ég mælti fyrir þessu máli í fyrra. Því vænti ég þess að hv. félmn: Sþ., sem ég legg til að fái mál þetta til afgreiðslu, taki á þessari till., fjalli um hana og afgreiði hana aftur til þingsins þannig að það reyni á afgreiðslu málsins hér og auðvitað vænti ég jákvæðrar afgreiðslu og jákvæðra undirtekta því að hér er í rauninni eitt af stærstu málum þjóðarinnar á ferðinni að leiðrétta það misrétti sem þarna er á ferðinni og sem við höfum tekið á okkur alþjóðlegar skuldbindingar að bæta úr.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.