27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

Fjarvistir þingmanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég trúi því ekki að jafngrandvar einstaklingur og hæstv. forseti er, sem nú situr í forsetastól, haldi því fram að hér hafi fundarhöld ekki verið með óeðlilegum hætti í gær í deildum. Ég held að það hafi verið. Hver orsökin kann að hafa leitt til þess skal ég ekkert um fullyrða, hvort það hafi verið fjarvistir erlendis eða innanlands. En annað hvort hefur verið. Það skiptir í mínum huga ekki meginmáli hvort menn eru í útlöndum eða hvort menn ekki sækja fundi vegna þess að þeir eru einhvers staðar annars staðar en hér. Það hlýtur að gilda að mínu viti nokkuð sama um þá hluti. Og það er ekki í fyrsta skiptið sem það kemur fyrir af ýmiss konar völdum að hér er nánast ekki fundarfært. Það gerðist síðast í gær. Þetta hygg ég að öllum sé ljóst.

Síst skyldi ég beina einu eða neinu til hæstv. núv. forseta þó að hann sitji í þeim stól núna til að stýra fundi. Allra manna síst ætti hann slíkar gagnrýnisraddir skildar.