27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

199. mál, tekjur ríkissjóðs af rekstrarvörum bænda

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hverjar voru tekjur ríkissjóðs af rekstrarvörum bænda á árinu 1985?" Það hefur verið lagt mat á tekjur ríkissjóðs af rekstrar- og fjárfestingarvörum í búrekstri á árinu 1985. Niðurstöður þeirra athugana sýna að ætla má að tekjur ríkissjóðs af rekstrar- og fjárfestingarvörum geti numið allt að 450 millj. kr. á árinu 1985. Sú upphæð skiptist þannig að aðflutningsgjöld nema 80 millj. kr., uppsafnaður söluskattur 280 millj. og fóðurgjald, grunngjald, 90 millj. eða samtals 450 millj.

„Hver var uppsafnaður söluskattur af landbúnaðarvörum á árinu 1985?" Lausleg áætlun gefur til kynna að uppsafnaður söluskattur í rekstrarkostnaði landbúnaðarvara nemi um 380 millj. kr. nettó á umræddu ári. Þá er átt við uppsafnaðan söluskatt í öllum búrekstri. Sú upphæð greinist þannig í sundur að uppsafnaður söluskattur í rekstrarkostnaði bænda er 280 millj. kr., eins og fram kom í svari við fyrra tölul. fsp., og uppsafnaður söluskattur vegna slátrunar, kjöt- og mjólkurvinnslu 100 millj. kr. eða samtals 380 millj.