27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

219. mál, rekstur jarðskjálftamæla á Suðurlandi

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Það er ljóst að á jákvæðan hátt, fast og ákveðið hefur verið tekið á þessu mikilvæga máli sem varðar viðkvæmasta svæði landsins í jarðskjálftamælingum.

Það er sýnt af þeim upplýsingum sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. að það er ráðgert að færa nokkuð út það svið sem upphaflega var talað um af hálfu vísindamanna í áætlun Norðurlandaráðs. Þar á ég við sérstakar mælingar á efnabreytingum í borholum og útvíkkun á sprungukerfi og það var einnig gott að heyra að fjmrh. hefur tekið undir það jákvætt. En ég vísa til þess að ég flutti fyrr í vetur till. til þál. um uppsetningu viðvörunarbúnaðar og rannsóknir á jarðskjálftasvæði Suðurlands þar sem sérstaklega er fjallað um þessa þætti og voru ekki inni í norrænu áætluninni. En þarna sýnist mér að stefni í rétta átt að reynt sé að skjóta loku fyrir mistök í þeim efnum sem gætu átt sér stað ef ekki væri unnið faglega og vísindalega að rannsókn þessa máls.